133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:30]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér eru lagðar fram í þinginu tvær samgönguáætlanir, annars vegar til 12 ára og hins vegar til fjögurra ára, sem eru miklar að vöxtum og gera ráð fyrir verulega auknum framlögum til samgöngumála, bæði til lengri og skemmri tíma. Áður en ég fer efnislega frekar út í þetta mál vil ég vekja athygli á því að það er aðeins mánuður eftir af þinginu þegar langtímaáætlun í samgöngumálum er lögð fram og eins og ég sagði er hún mikil að vöxtum. Þær báðar samanlagt eru um 310 blaðsíður og þingmönnum eru gefnir tveir dagar til að skoða þessar áætlanir áður en þeir fara í umræður um þær í þingsal. Ég hlýt að gagnrýna þessi vinnubrögð hæstv. samgönguráðherra og ríkisstjórnar og hefði talið að áætlanirnar hefðu átt að koma fram fyrir áramót og hefðu átt að liggja fyrir þegar fjárlög ársins voru rædd og afgreidd þannig að hægt hefði verið að skoða framlög til vegamála á fjárlögum þessa árs í ljósi samgönguáætlunar. En, virðulegur forseti, sú varð ekki raunin og okkur gefast tveir dagar og 15 mínútur til að fara yfir þessar 310 blaðsíður sem hér eru undir og sjálfsagt búið að liggja lengi yfir í ráðuneytinu.

Ég sagði að áætlanirnar væru miklar að vöxtum og þær gera ráð fyrir verulega auknum framlögum til samgöngumála, bæði til lengri og skemmri tíma. Í heildina sýnist mér um að ræða langtímaáætlun upp á ríflega 380 milljarða og það er um 140 milljarða hækkun frá síðustu langtímaáætlun sem samþykkt var á þinginu 2003. Það varpar auðvitað ljósi á þau gríðarlegu verkefni sem bíða okkar í samgöngumálum og hversu langt við erum frá því að eiga nútímalegt samgöngukerfi í landinu. Ég tel mjög brýnt að ráðast í verulegar umbætur og ég tel raunar eitt stærsta fjárfestingarverkefni ríkisins á komandi árum að byggja upp samgöngukerfi landsmanna. Verkefnið er hins vegar risavaxið á mælikvarða opinberra framkvæmda og mikilvægt að skapa rými í hagkerfinu þannig að hægt verði að ráðast í það.

Það er ljóst að markaðir tekjustofnar til samgöngumála duga ekki til að standa undir þeim framkvæmdum sem ráðast þarf í. Annars vegar þurfa að koma veruleg framlög beint úr ríkissjóði á fjárlögum til að hægt verði að hrinda átakinu í framkvæmd og hins vegar þarf að leita nýrra leiða til að fjármagna einstakar framkvæmdir, m.a. í gegnum einkaframkvæmd þar sem það á við.

Ég tel ljóst af langtímaáætluninni og eins þeirri til næstu fjögurra ára að ríkisstjórnin sjái verulegt borð fyrir báru í fjárlögum komandi ára. Ef marka má langtímaáætlunina eru þarna um 40–50 milljarðar á hverju fjögurra ára tímabili sem eiga að koma úr ríkissjóði til samgöngumála. Það er mikilvægt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að vita í aðdraganda kosninga að svo mikið svigrúm sé í ríkisfjármálunum að það sé rými fyrir 40–50 milljarða á hverju fjögurra ára tímabili í vegaframkvæmdirnar bara einar og sér. Við munum auðvitað taka mið af því í vinnu okkar. Þetta varpar, eins og ég sagði, ljósi á það hversu mikið þetta verkefni er og ástæðan er auðvitað sú að það hefur verið vanrækt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með samgöngumálin í 16 ár og á þessum 16 árum hefur ekki verið haldið þannig á málum í samgöngukerfi okkar að við séum komin inn í nútímann í samgöngumálum. Það nægir að nefna í því sambandi, virðulegur forseti, að framlög til vegamála á milli áranna 2003 og 2006 voru t.d. skorin niður um 20% á sama tíma og tekjur af umferðinni jukust um 40%. Framlögin til viðhalds á vegum stóðu í stað á milli tveggja síðustu fjögurra ára áætlana þannig að hvorki hefur verið ráðist í þær fjárfestingar né þau viðhaldsverkefni sem hefði þurft.

Það eru mikilvæg verkefni alls staðar á landinu í þessum efnum enda allflestar stofnbrautir landsins byggðar um og upp úr 1980 og hönnun burðarlags þeirra miðaðist við að vegirnir mundu endast í um það bil 20 ár. Sá tími er nú víðast liðinn og umferð um vegina mun meiri og þyngri en gert var ráð fyrir. Eins og við vitum hafa flutningarnir færst í mjög auknum mæli út á vegina á undanförnum árum sem hefur auðvitað gert það enn brýnna að standa vel að viðhaldsverkum sem ekki hefur verið gert, samanber það sem ég sagði áðan.

Nú er svo komið að vegirnir þola ekki lengur umferðina sem á þeim er. Skert burðarþol, einbreiðar brýr og ónóg vegbreidd eru meðal þess sem skapa stöðuga hættu fyrir vegfarendur. Víða um landið kemst fólkið hvorki um innan svæða né frá svæðum til höfuðborgarinnar án þess að aka á malarvegum, svo sem á Vestfjörðum og Norðausturlandi, og erfiðir fjallvegir hamla því að hægt sé að tengja saman byggðarlög um einn þjónustukjarna. Lengi hefur verið talað um það sem eina af mikilvægustu aðgerðunum í byggðamálum að byggja upp þjónustukjarna um landið en forsenda þess að þjónustukjarni geti byggst upp er að samgöngur til þessara kjarna séu greiðar. Í þessu sambandi nægir að minnast á það að norður- og suðurfirðir Vestfjarða eru t.d. sambandslausir mikinn hluta ársins. Meðan svo er er auðvitað borin von að Vestfirðir verði eitt atvinnu- og þjónustusvæði og að Ísafjörður geti gegnt hlutverki sínu sem byggðakjarni á svæðinu.

Við hittum forustumenn sveitarfélaganna á Vestfjörðum á fundi í gær og þar kom m.a. fram að hringtengingu sem þeir leggja mikla áherslu á að verði lokið á næsta kjörtímabili verður ekki lokið á því tímabili og engin göng eru heldur á því tímabili milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar sem er auðvitað mikilvæg samgöngubót til að tengja saman þessi svæði.

Á Norðurlandi og Miðausturlandi hamla samgöngur líka gegn því að hægt sé að byggja upp samfelld byggðasvæði sem geta sameinast um mikilvægar þjónustustofnanir og atvinnuúrræði. Talað er um að Vaðlaheiðargöng fari í einkaframkvæmd og við skulum gefa okkur það en þau eru mjög mikilvæg til að tengja saman Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur, og göng á Miðausturlandi eru forsenda þess að mikil uppbygging á Eskifirði, Reyðarfirði og Egilsstöðum gagnist svæðinu öllu. Meðan Norðfjarðargöng eru ekki komin geta þjónustustofnanir á Norðfirði, svo sem sjúkrahús og framhaldsskóli, tæpast þjónað öllu svæðinu svo að dæmi sé tekið. Norðfjarðargöng eru ekki á næsta fjögurra ára tímabili, heldur tímabilinu þar á eftir.

Ég held líka að úr því að farið var í þessa miklu uppbyggingu á Miðausturlandi þyrfti fleira að fylgja með. Það er ekki hægt að dæma um hvort sú mikla aðgerð sem felst í uppbyggingu stóriðju álvera á Miðausturlandi tekst, það verður ekki hægt að dæma um það fyrr en á reynir og fyrr en menn sjá hvernig þetta svæði getur allt tengst innbyrðis.

Á höfuðborgarsvæðinu anna helstu stofnbrautir ekki þeirri miklu umferð sem hér er og er brýnt að ráðast í framkvæmdir á nýjum stofnbrautum sem fjölga leiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þar nægir að nefna Sundabraut og Öskjuhlíðargöng sem ekki eru á langtímaáætlun þó að hér séu einhverjir fjármunir ætlaðir til undirbúningsvinnu. Það er eitt en sjálf göngin eru alls ekki á langtímaáætlun til næstu 12 ára.

Tvöföldun Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar auk Reykjanesbrautar er gríðarlega mikilvægt mál og það verður að segja það eins og það er að bæði áætlunin sjálf og ummæli samgönguráðherra orka eins og véfrétt um þessi mál, þ.e. samgönguráðherra lætur liggja á milli hluta hvort hann er að tala um tvöföldun eða 2+1 á Suðurlandsvegi.

Í langtímaáætluninni segir, virðulegur forseti, að góðar samgöngur hafi verið meginforsenda framfara á undanförnum áratugum. Það má eins snúa þessu við og segja að skortur á góðum samgöngum hafi orsakað hnignun byggðarlaga og fólksfækkun víða um land. Fólk hefur einfaldlega gefist upp á að bíða eftir samgöngubótum og hvað sem öllum byggðaáætlunum stjórnvalda og góðum hugmyndum heimamanna um uppbyggingu líður eru svæði sem ekki eru vel tengd innbyrðis eða við höfuðborgarsvæði einfaldlega ekki samkeppnishæf þegar kemur að því að laða til sín fólk og fyrirtæki. Fólk vill nefnilega framför, ekki afturför. Fyrirtæki þurfa að vera trygg með að ná í aðföng og koma frá sér framleiðsluvörum á öruggan og skjótan hátt og fólk þarf að geta sótt í þá þjónustu á skjótan og öruggan hátt sem við öll gerum kröfu til í nútímasamfélagi. Órækasti vitnisburðurinn um þetta sem ég er að segja núna, að skortur á samgöngum hafi orsakað hnignun byggðarlaga og fólksfækkun, er að við sjáum að þar sem samgöngur eru verstar, á Vestfjörðum og Norðausturlandi, hefur einmitt fólksfækkunin verið mest og byggðunum blætt út.

Virðulegur forseti. Ég held að við þurfum að nálgast samgöngumálin á svolítið nýjan hátt. Við eigum að nálgast samgöngur sem velferðarmál, öryggismál, atvinnumál, umhverfismál og byggðamál og ég er þeirrar skoðunar að eitt af brýnustu velferðarverkefnum 21. aldar sé að byggja upp verulega góðar samgöngur. Ég held að það sé ágætt markmið sem birtist í þessari langtímaáætlun, að það eigi að vera þriggja klukkustunda ferð að jafnaði til höfuðborgarinnar og að fólk eigi ekki að þurfa að sækja nema eina klukkustund í þjónustu sem það þarf á að halda. Ég get tekið undir það sem markmið. En ég sé ekki alveg hvernig það markmið á að verða að veruleika samkvæmt þessari áætlun.

Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil bara rétt hlaupa hér á og hefði auðvitað þurft lengri tíma til þess. Það eru í fyrsta lagi almenningssamgöngur. Ég verð að játa að mér finnst heldur þunnur þrettándi í þessari áætlun allt sem lýtur að almenningssamgöngum og ég tek eftir því að það er búið að taka út eitt af markmiðum samgönguáætlunar frá síðustu áætlun sem samþykkt var hér 2003. Þá stóð að almenningssamgöngur í þéttbýli yrðu efldar. Nú er ekkert slíkt sem eitthvert meginmarkmið hér, heldur er talað um að taka upp samráð við sveitarfélögin um fyrirkomulag og kostnað við almenningssamgöngur í þéttbýli. Það lofar ekki góðu, virðulegur forseti. Við lögðum til í þinginu í vetur að felldir yrðu niður tollarnir af vögnunum sem keyptir yrðu til almenningssamgangna á þéttbýlisstöðum. Sú tillaga var felld þannig að ég fæ ekki séð að það sé nein meining með því sem hér er sagt, enda er það allt saman mjög óljóst.

Ég vil líka nefna það sem segir um loftmengun. Það er líka mjög óljóst. Það segir bara að loftmengun af völdum umferðar verði haldið í lágmarki eftir því sem kostur er og mið tekið af Evrópustöðlum. Þetta segir ekkert, virðulegur forseti. Til hvaða aðgerða á að grípa? Það er talað um að þvo göturnar. Það sögðu sjálfstæðismenn líka fyrir kosningar. Ég hef ekki orðið vör við að þeir þvoi sérstaklega göturnar í borginni eða að svifrykið hafi eitthvað minnkað. Þvert á móti. Það hefur jafnvel aldrei verið meira en það er núna.

Eitt af því sem talað hefur verið um sem aðgerð er að setja staðbundnar reglur um notkun á nagladekkjum. Mér er alveg ljóst að það er ekki hægt að setja almenna reglu fyrir landið allt vegna þess að víða um land verður fólk auðvitað að aka á nöglum. En það var líka eitt af því sem umhverfisnefnd Reykjavíkurborgar lagði til á sínum tíma, að settar yrðu slíkar staðbundnar reglur en það verður að vera lagastoð fyrir því. Hún er ekki til staðar og mér sýnist ekkert benda til þess að það eigi að gera neitt í því.

Hjólastígar, virðulegur forseti. Það er afskaplega lítið sem segir um þá hluti. Það segir bara: Stefnt skal að því að breyta vegalögum í þá átt að ríkinu verði heimilað að taka þátt í gerð hjóla- og göngustíga meðfram stofnbrautum í þéttbýli og meðfram umferðarmestu þjóðvegunum í dreifbýli til jafns við reiðvegi. Þetta er nokkuð sem menn eiga ekkert að stefna að. Menn eiga bara að segja að þeir ætli að gera þetta. Til þess hafa þeir framkvæmdarvaldið, að koma fram með mjög skýr markmið um hvað þeir ætla sér.

Tími minn er nú að verða búinn. Maður hefur ekki langan tíma til að ræða allt það mikla efni sem hér er undir en ég vil líka taka það fram að ég tel mikilvæga kröfu, og hún er orðuð aðeins í þessari áætlun, um að stofnbrautum í þéttbýli verði breytt þannig að ekki sé gerð sú krafa um rými í kringum slíkar stofnbrautir að þær taki til sín slíkt landflæmi sem raunin er í dag og gerir borgarumhverfið nánast óbyggilegt vegna þess að þær þurfa svo mikið helgunarrými. Ég tel mikilvægt að taka á því og eins hljóðvistarmálum sem varðar þetta.

Að lokum, virðulegur forseti, vil ég segja aðeins um samgöngumiðstöð sem 3 milljarðar kr. eru áætlaðir til við Reykjavíkurflugvöll. Ég tel viturlegra að leiða fyrst til lykta þá vinnu sem fer fram á vegum ráðuneytis og borgar um Reykjavíkurflugvöll og hefur það að markmiði að taka afstöðu til miðstöðvar innanlandsflugs í borginni. Það er mikilvægt að það verði gert hið fyrsta þannig að ekki verði ráðist í vanhugsaðar fjárfestingar sem ekki er líklegt að nýtist sem skyldi því að næg eru verkefnin samt sem við stöndum andspænis í samgöngumálum.

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að auðvitað þurfi að ráðast í verulegar framkvæmdir í samgöngumálum og það verði verkefni nýrrar ríkisstjórnar að takast á við vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar á þessu sviði sem öðrum.