133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:49]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mikið öfugmæli hjá hv. þingmanni og formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að andvaraleysi og sofandaháttur hafi ríkt í samgöngumálum. Á því tímabili sem við höfum fjallað um, m.a. því fjögurra ára tímabili sem við erum núna að endurskoða og svo leggja inn nýja áætlun um næstu 12 ár, höfum við fyrir okkur eitthvert mesta framkvæmdatímabil í sögunni í samgöngumálum. (Gripið fram í.) Ég veit ekki betur en að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi verið þátttakandi í því að hrinda af stað uppbyggingu í stóriðju. Það auðvitað blasti við öllum mönnum að þær umfangsmiklu framkvæmdir mundu hafa þau áhrif að við yrðum í þágu stöðugleikans að hægja á. Ég tók þátt í því sem samgönguráðherra að gera það, og þær ákvarðanir báru árangur. Núna er runninn upp nýr tími eftir þetta mikla uppbyggingarskeið, tími þar sem við getum gert enn þá meira í samgöngumálum.

Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um hjóla- og göngustíga, hljóðvist o.fl. vil ég vísa til þess að við erum að breyta vegalögum þar sem einmitt er tekið á þessum málum. Þar er heimilað að taka m.a. göngustíga, undirgöng og hljóðvistaraðgerðir sérstaklega, það er skýrt kveðið á um þá þætti í vegalögum og við verðum að taka tillit til þess núna í endurskoðun samgönguáætlunarinnar að við kunnum að þurfa að taka meira tillit til hljóðvistaraðgerða inni í borginni og í sveitarfélögunum en við höfum áður þurft að gera. Á því er tekið með heimild í nýjum vegalögum sem vonandi verða samþykkt áður en þingið fer heim.