133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Sá böggull fylgir skammrifi þegar menn ráðast í einkavæðingu að ef ekki er samtímis gætt að því að einkavæðingin sé inni í samkeppnisumhverfi skapast þær aðstæður sem bankarnir hafa búið við á síðustu árum. Aðstæður þar sem fákeppni og einokunarskilyrði eru ríkjandi og aðstæður sem skapa þeim stöðu til að skammta sér tekjur í viðskiptum við viðskiptavini sína.

Við slíkar aðstæður er mjög mikilvægt að búa vel að samkeppnisstofnun sem á að fylgjast með aðilunum á markaði og ekki er uppörvandi fyrir þá sem hafa það hlutverk fyrir hönd ríkisins og þjóðarinnar að hafa hemil á bönkunum, að horfa upp á það dæmi sem menn hafa fyrir augunum, að þegar Samkeppnisstofnun réðist til atlögu við samráð olíufélaganna leiddi það til þess að stofnunin var lögð niður og forstjórinn missti vinnuna. Það hlýtur að vekja mönnum ugg sem starfa að þessum málum ef þeir geta átt von á því að stjórnvöld standi ekki við bakið á þeim í þeirri vinnu sem þeim er ætlað inna af hendi.

Skýrslur sýna, m.a. skýrsla Neytendasamtakanna, að raunvextir hér á landi eru 2–5% hærri en í tíu löndum Evrópu til samanburðar. Þar sem skuldsetning íslensku heimilanna er mjög mikil þýðir þetta að á hverju ári greiðir venjulegt íslenskt heimili frá 200 þús. kr. og upp í 500 þús. kr. meira í vexti af skuldum sínum en það mundi gera ef skuldirnar væru í einhverju Evrópulandanna sem tekin voru til viðmiðunar. Þetta er kostnaður íslensks almennings við skortinn á samkeppni hér á landi.