133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Íslensk heimili eru mjög skuldug, þau skulda um 1.300 milljarða kr. Ef það næst að lækka vexti heimilanna um 1% þá munar um það fyrir heimilin hvorki meira né minna en um 13 milljarða kr. þannig að hér er um gríðarlegt hagsmunamál fyrir íslensk heimili að ræða. Við þurfum í sjálfu sér ekkert að fara í miklar rannsóknir á stöðu þessara mála, það liggja fyrir tvær skýrslur, bæði skýrsla Neytendasamtakanna og skýrsla Samkeppniseftirlitsins sem eru sammála um það að bæði séu vextir hærri hér en í nágrannalöndunum og einnig kostnaður og síðan búa íslenskir neytendur við þá óáran að þurfa að greiða uppgreiðslugjald og stimpilgjöld ef þeir ætla að færa sig á milli viðskiptastofnana. Þetta er ekkert trúnaðarsamband sem þar skiptir öllu máli heldur kemur það einfaldlega við pyngju neytenda ef þeir ætla að skipta um lánastofnun, það er mergurinn málsins. Það er það sem þarf að taka á en ekki að fylgjast með, eins og Framsóknarflokkurinn segist ætla að gera og ætlar að athuga hvort það eigi að grípa til aðgerða. Það er löngu tímabært að taka á þessu máli, þetta skiptir afar miklu máli fyrir íslenska neytendur.

Það kemur einfaldlega fram í skýrslu sem kom út hjá Hagstofu Íslands að bankakostnaðurinn hefur vaxið gríðarlega. Hann hefur vaxið um tugi prósenta frá árinu 2002 til 2004 og 2003 til 2005. Það verður að grípa til aðgerða og ég held að íslenskir kjósendur ættu að gera sér grein fyrir því að ef þessu verður breytt þá verður að breyta um ríkisstjórn. Það kom berlega í ljós í máli formanns Framsóknarflokksins, hæstv. bankamálaráðherra, að hann er ekkert á þeim buxunum að fara að breyta einu né neinu. Hann ætlar ekkert að fara að beina einum né neinum tilmælum eitthvert til einhverra stofnana, en íslenskir neytendur þurfa svo sannarlega að fá bætt kjör sín á þessum markaði.