133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:59]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir mikil og öflug hvatningarorð. (KLM: Ætlar þú að koma?) Ráðherrann mun að sjálfsögðu fara að lögum frekar en óstaðfestum hvatningarorðum í þingsal.

Hér er verið að ræða mjög alvarlegt mál, ég tek undir það. Það drepur málinu algjörlega á dreif að ræða það í sömu andrá og skipulagsbreytingar og skipulagsþróun bankakerfisins að öðru leyti þegar ríkisbankarnir voru seldir. En ég staðfesti og ítreka ummæli hv. þingmanns hér áðan, Sæunnar Stefánsdóttur, um að framsóknarmenn telja að Íbúðalánasjóður hafi mjög mikilvægum félagslegum hlutverkum að gegna sem opinber stofnun og einkavæðing hans er ekki á dagskrá. (Gripið fram í.)

Nú er það að vísu svo að hagnaður bankanna stafar af ýmsu fleiru en viðskiptum viðskiptabanka við almenning og mjög mikill þáttur í þeim hagnaði mun vera fjölþjóðleg umsvif bankanna. En ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það dregur ekki úr ábyrgð, samfélagslegri ábyrgð viðskiptabankanna að skila af hagnaði sínum til almennings og ég tek undir það sem hér var sagt um óeðlilega og hættulega háa vexti.

Ég minni á það sem ég sagði líka í frumræðu minni í þessari umræðu að fyrir Alþingi liggja tvö frumvörp, annað um breytingar á lögum sem varða Samkeppniseftirlitið, sem er einmitt til umræðu núna, til þess að skýra og herða ýmis ákvæði þar. (Gripið fram í.) Norrænu samkeppniseftirlitin gera það að tillögu sinni, sem er til athugunar, að breyta reglum um eignarhald á greiðslukerfum og greiðslukortafyrirtækjum og ég tek undir það hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það er í athugun. Einnig að stórátak verði gert í því að auðvelda fólki að skilja upplýsingar frá bönkunum, að (Forseti hringir.) nýta sér þessar upplýsingar og skipta um banka þannig að raunveruleg samkeppni eigi sér stað.