133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:37]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni, þeim þingreynda manni, fyrir ræðu hans um samgöngumál. Hann hefur farið vel yfir þá áætlun sem hér liggur fyrir sem auðvitað er metnaðarfull og allir vona að gangi eftir þótt menn hafi misjafnar skoðanir á því hvort af verði, miðað við reynsluna.

Hv. þingmaður ræddi um frestun framkvæmda frá síðastliðnu sumri. Mér fannst hann fara dálítið létt yfir það og fannst það lítilvægt sem gert var í júní á síðastliðnu sumri þegar fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar komu saman og ákváðu að skera niður vegaframkvæmdir en seinna þegar farið var að skoða þetta í samgöngunefnd kom í ljós að niðurskurður framkvæmdanna var upp á 1.150 millj. kr. á síðasta ári.

Hæstv. forsætisráðherra svaraði í fjölmiðlaviðtölum rétt á eftir, að þeir vissu ekki hvar framkvæmdirnar sem þeir voru að skera niður væru.

Síðan var það dregið fram af okkur sem börðust gegn þessu frá upphafi að þetta voru framkvæmdir sem voru á verst settu svæðum landsins hvað varðar aðbúnað vega, viðhald og vegi.

Þetta var, virðulegi forseti, m.a. í kjördæmi mínu og hv. þingmanns, leið eins og Hófaskarðsleiðin, Dettifossvegur og Arnórsstaðamúlinn, til að ljúka malbikinu á milli Akureyrar og Egilsstaða.

Mér fannst því hv. þingmaður tala frekar léttvægt um þetta vegna þess að umrædd frestun hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þetta seinkaði öllum ferlum. Við vorum m.a. á fundi ekki alls fyrir löngu þar sem ekki er hægt að fara í eignarnám á Hófaskarðsleið vegna þess að það var kominn vetur og snjór yfir, sem dæmi um hve alvarlegar afleiðingar þetta hafði.

Síðan var það staðfesting á því (Forseti hringir.) hvað þetta var vitlaust í raun og veru, að forsætisráðherra dró þetta til baka (Forseti hringir.) í stefnuræðu sinni þegar þing kom saman.