133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:40]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Hv. 3. þm. Norðaust. nefnir frestun framkvæmda á síðastliðnu sumri. Það er alveg rétt að það var tekið fyrir útboð opinberra framkvæmda um stuttan tíma á síðastliðnu sumri. Síðan var það bann fellt niður.

Þetta er auðvitað staðreynd og hv. þingmaður nefnir þarna nokkrar framkvæmdir. Allar þær framkvæmdir voru í undirbúningi. Engin þeirra var að fara af stað nema Skjöldólfsstaðafjallið. Það kann að hafa orðið einhver seinkun á því. En hún er ekki veruleg.

Ég hygg að þetta hafi engin áhrif á Dettifossveg og þetta eru allt saman framkvæmdir sem eru í undirbúningi og ekki tilbúnar. Ég held því að þetta bann hafi haft minni áhrif en ætlað var og seinkað minna en ætlað var.

En það er alveg rétt, þetta var tilraun til að slá á þenslu. Það hafa verið dregnar út úr þessum pakka einstakar framkvæmdir. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði engin þensla falist í því að fara í Hófaskarðsleiðina ef hún hefði verið tilbúin. En þetta var nú einu sinni almenn aðgerð í einum pakka og það er dálítið út í hött að vera að draga út einhverjar framkvæmdir úr því. Enda var þessi ákvörðun dregin til baka á haustdögum.