133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:44]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í neina brandarakeppni við hv. þm. Kristján L. Möller. En varðandi flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum þá var það einhvers staðar nefnt, ég held að hv. þingmaður hafi nefnt það, að ég er þingreyndur maður.

Mér finnst það skipta höfuðmáli að þessar framkvæmdir eru komnar inn og að þetta fari í gang og verði klárað. (KLM: Jafnvel þó að það verði ekki fyrr en 2018?) Það er nú ekki 2018, hv. þingmaður.

Það er ætlunin að klára framkvæmdirnar á Akureyri árið 2009, eins og kom fram. Þetta þarf auðvitað sinn undirbúning og ég legg á það áherslu, og það er í áætluninni, að bæta aðflugið að báðum flugvöllunum og að laga aðstöðuna í kringum þá. Það er náttúrlega miður með flugstöðina á Akureyri, hún þarf lagfæringar við.

Á Egilsstöðum legg ég áherslu á að þeim athugunum sem vantar til þess hægt verði að fara í að lengja brautina þar verði flýtt. Þetta er nú ósköp einföld mynd sem er dregin upp af þessu.

Auðvitað gæti ég sett fram kröfu um að gera þetta allt á morgun eða á þessu ári, en það er bara ekki raunhæft. Ég er ánægður með að þetta skuli vera komið á laggirnar, að það skuli vera farið í þetta. Og ég legg áherslu á að undirbúningur hefjist sem allra fyrst og verði sem allra markvissastur í þessum tímabæru aðgerðum í flugmálum á þessum tveimur völlum. Það er ætlunin að laga aðstöðuna í kringum þá á næstu árum mjög verulega og það er ég ánægður með.