133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að hafa hv. þm. Jón Kristjánsson í ræðustól og hlusta á hann koma að þessum málum og eiga við hann orðaskipti. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hv. þingmann. Hann vildi lítið gera úr niðurskurðinum á vegaframkvæmdum sem hefur átt sér stað á síðastliðnum árum til frestunar sem þá varð, hliðstætt við það sem hv. þm. Kristján Möller spurði um. Það er ekki aðeins niðurskurðurinn sem hefur átt sér stað á undanförnum fjórum árum heldur hafði frestunin, sem varð á síðasta sumri, gríðarleg sálræn áhrif af því að hún bitnaði fyrst og fremst á íbúum Vestfjarða og íbúum norðausturhornsins, sem voru búnir að bíða mjög eftir samgöngubótum og vera oft sviknir og ekki var staðið við þær væntingar sem þeim höfðu verið gefnar. Ég vil því spyrja hvort hv. þingmaður sé ekki ósáttur við að þessu hafi verið beitt.

Síðan gerist það aftur árið 2007 að ákveðið var að fresta fjármagni sem þó var búið að ákveða, samkvæmt lögum um ráðstöfun á söluandvirði Símans, að færi til vegaframkvæmda á Norðausturlandi og Vestfjörðum. Þó svo ekki hefði verið hægt að nota það til þeirra sérmerktu framkvæmda sem þar var um að tala vegna þess að þeim hafði öllum verið seinkað, þá voru þar fullt af verkefnum sem voru tilbúin og gátu tekið þessa peninga tímabundið ef ekki var hægt að verja því þannig. Þessir landshlutar hefðu því fengið í sinn hlut þær væntingar sem gefnar voru við ráðstöfun á söluandvirði Landssímans, en þeir voru sviknir um það með þeim lögum sem sett voru um frestun framkvæmda á þessu ári.