133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vandinn er sá að þessi tími er ekki liðinn. Vandinn er sá að haldi stefna ríkisstjórnarinnar áfram í stóriðjumálum vofir þessi ógn áfram yfir. Það er alveg rétt að ekki var eingöngu um að ræða framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál heldur var framkvæmdum líka flýtt um meira en ár á Hellisheiði á sama tíma og virkjunarframkvæmdum og stækkun Norðuráls var líka flýtt um ár meðan vegaframkvæmdir voru skornar niður. (KLM: Með stuðningi Vinstri grænna.) Nei. (Gripið fram í.) Nei.

En talandi um einkaframkvæmdir þá fann ég vel að samvinnuhjarta og félagshyggjuhjarta hv. þm. Jóns Kristjánssonar sló þar sem hann sló varnagla við þeirri oftrú á einkaframkvæmdir í vegagerðinni og einmitt þann varnagla sem var alveg hárréttur að einkaframkvæmdin hefur nákvæmlega sömu þensluáhrif í þjóðfélaginu hvort sem vegaframkvæmdir eru í einkaframkvæmd eða á opinberum vettvangi.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann. Ég hygg að við séum nokkuð sammála þótt hann reyni náttúrlega að verja einkavæðingaræði ríkisstjórnarinnar, en þá gerir hann það ekki sannfærandi. Í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Með einkaframkvæmd, sem byggist á veggjöldum, má auka tekjur til vegamála. Einkaframkvæmd er að mati nefndarinnar álitleg leið í samgönguframkvæmdum, ef hún að núvirði er ódýrari kostur en eiginframkvæmd, …“ Takið eftir því. Og hann leggur líka áherslu á að ekki verði sett einkaframkvæmd einungis og svo eigi hún engin áhrif að hafa, nei. Það eru nákvæmlega sömu peningarnir á ferðinni, hvort sem um einkaframkvæmd eða ríkisframkvæmd er að ræða, í þjóðarbúskapnum. (Forseti hringir.) Og því aðeins sé ráðist í einkaframkvæmd að hún sé ódýrari kostur en eiginframkvæmd. Mér finnst það mjög mikilvægur punktur.