133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:53]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við með einkaframkvæmd er að fella eigi inn í áætlunina framkvæmdir sem ætlunin er að fari í einkaframkvæmd, því að það er rétt að menn hafi þá heildaryfirlit. Ég á við það að menn eiga ekki að draga framkvæmdir fram fyrir á þeim forsendum að þær séu í einkaframkvæmd. Þær eiga að vera inni í áætlun eins og aðrar framkvæmdir.

Í sambandi við þensluna margumtöluðu þá kom hv. þingmaður að athyglisverðum punkti með Hellisheiðina. Það hafa engar deilur verið um Hellisheiðina, engar deilur hafa verið um stóriðjuframkvæmdir þar. Minn flokkur og hans og Samfylkingin unnu að því saman í borgarstjórn Reykjavíkur að koma þessu á laggirnar með samþykki Vinstri grænna, eins og hv. frammíkallari Kristján L. Möller sagði. (GHall: Og hafi þeir heiður og þökk fyrir.) (Gripið fram í.) Við unnum að því saman að koma þessu á laggirnar með þátttöku okkar í Orkuveitu Reykjavíkur. (Gripið fram í.) Vinstri grænir geta ekki þvegið af sér þessa stóriðjustefnu. Þarna var stóriðjustefnan. Það er ekki lengra í stóriðjustefnu Vinstri grænna en austur á Hellisheiði, það er 30 kílómetrar í hana. Málið er bara svona einfalt.