133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:10]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er eitt og annað sem ég vildi ræða við hv. þingmann enda flutti hann alveg hreint glimrandi fína ræðu þar sem margt athyglisvert kom fram, t.d. það að frumforsenda þess að samgönguátakið sem lesa má út úr áætluninni gangi eftir sé að ekki verði farið í miklar stóriðjuframkvæmdir á þessu sama tímabili. Rökin sem hæstv. samgönguráðherra notaði fyrir 6 milljarða niðurskurði fyrir tveimur árum, frá kosningum 2003, voru þau að stóriðjuframkvæmdir væru svo miklar. Ég vildi því fá það skýrt fram hjá hv. þingmanni að það væri hans niðurstaða að svo væri, þ.e. að gera verði hlé á stóriðju eigi þessar framkvæmdir að ganga eftir. Ég held að það sé forsenda þess að það gangi eftir.

En það er svo sérkennilegt að eftir sextán ár í samgönguráðuneytinu, eftir átta ár hjá hæstv. samgönguráðherra í samgönguráðuneytinu, er núna hægt að birta hugmyndirnar um Nýja-Ísland í samgöngumálum. Eftir sextán ára sinnuleysi í samgöngumálum, sextán ára sögu svikinna loforða, þá er núna hægt að gera allt fyrir alla. Núna er hægt að boða hið Nýja-Ísland í samgöngumálum. Lesið Morgunblaðið í dag. Landið verður gjörbreytt gangi samgönguáætlunin eftir. Hún mun aldrei ganga eftir sitji Sjálfstæðisflokkurinn áfram önnur sextán ár. Það er hægt að fullyrða.

Enda er sagan af samgönguloforðunum þyrnum stráð, saga Sjálfstæðisflokksins. Það þarf ekki annað en að líta á Suðurstrandarveg og fjölmörg önnur tíu ára gömul loforð um sérstakar framkvæmdir sem aldrei gengu eftir og tekur önnur tíu ár héðan í frá að klára. En það var annar athyglisverður punktur í ræðu hv. þingmanns um útgjöld til vegamála um 3%. Ég ætlaði að benda á það, ég geri það í síðara andsvari mínu ef ég kemst aftur upp, hver þróunin hefur verið frá 1970. Það eru nefnilega mjög athyglisverðar tölur.