133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:15]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tekur undir þá skoðun Samfylkingarinnar að eigi samgönguátak af þessari stærðargráðu, eða einhverri sambærilegri, til að vinna upp vanrækslu síðustu 16 ára í samgöngumálum, að ganga eftir þá verði að velja aðra hvora leiðina, samgönguátakið eða stóriðjuna. Við höfum valið samgönguátakið og við viljum stóriðjuhlé, frestun á framkvæmdum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tekur undir það og ég er ánægður að heyra það. Leggi maður saman boðskap hæstv. samgönguráðherra annars vegar og hæstv. forsætisráðherra hins vegar, t.d. úr Silfri Egils um álverin þrjú sem öll eiga að koma, og samgönguátakið sem hér er lagt til og rætt um þá verður útkoman að sjálfsögðu óðaverðbólga og algert kaos í efnahagsmálum. Það vita allir að þetta gengur ekki upp. Hvor þarf að víkja, hæstv. samgönguráðherra, hæstv. forsætisráðherra? Auðvitað eru þetta bara kosningavíxlar og yfirboð sem er ekkert að marka og það er miður af því að hér er um grundvallarmál að ræða.

Ég ætlaði að nefna þróunina um útgjöld ríkis til vegamála. Það var nefnilega svo að árið 1970 í lok viðreisnartímans voru útgjöld til samgöngumála landsframleiðslu 2,75%. Þetta hrundi og minnkaði mjög og er núna 1,7%, hefur ekki nálgast þá tölu enn þá, og útgjöld til vegakerfisins eins voru 1,67% árið 1970, voru komin niður í 1,3% árið 2000, ekki nema 0,92% í fyrra, 1,3% núna þannig að þetta gefur glögga mynd af því hvað vanrækslan í samgöngumálum hefur verið gífurleg. Ef við lítum til útgjalda til samgöngumála og vegamála, hvors í sínu lagi eða samanlagt sem hlutfalls af landsframleiðslu, þá er vanrækslan svo mikil að það þarf að fara þá leið sem hv. þingmaður nefndi áðan, að vinna sig upp í það markmið að við náum 3% markmiðinu og höldum því og þá er hægt að fara að gera stóra hluti og vinna upp 16 ára vanrækslu sjálfstæðismanna í samgöngumálum.