133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:17]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ákveðið er að auka framlög til samgöngumála um sem svarar 1% af vergri landsframleiðslu þá eru það um það bil 10 milljarðar kr. á ári. Ef það fer allt til nýrra framkvæmda þá segir það sig sjálft að það er hægt að gera býsna mikið á einu kjörtímabili fyrir þá aukningu eina og sér. Menn kunna að spyrja: Er þetta ekki há fjárhæð og ofviða getu ríkissjóðs? Ég segi nei, virðulegi forseti, það er það ekki. Munum eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra í síðustu viku á ráðstefnu viðskiptaþings undir yfirskriftinni Best í heimi. Það er auðvitað sjálfsagt að vera best í heimi fyrir bankana og best í heimi fyrir fjármagnseigendur en við eigum líka að vera best í heimi fyrir vegfarendur. Forsætisráðherra lagði það af mörkum til að vera áfram best í heimi fyrir fjármagnseigendur að leggja til að skattlagning af söluhagnaði af hlutabréfum yrði felld niður. Það kostar ríkissjóð á hverju ári um 6 milljarða kr. eða meira en helminginn af því sem yrði varið í þetta sérstaka samgönguátak með því að auka framlög til vegamála um 1% af vergri landsframleiðslu. Það eru því til nógir peningar, virðulegi forseti, til þessa málaflokks. Þetta snýst um forgangsröðun, þetta snýst um almenna hagsmuni gegn sérhagsmunum og þetta snýst um pólitískan vilja.

Ég held, virðulegi forseti, að stjórnarandstaðan þurfi að átta sig á styrk sínum. Hún getur tekið við ef hún vill. Stjórnarandstaðan hefur kraft og afl til þess að gera breytingar í vor og hrinda í framkvæmd almennri stefnumörkun þjóðinni til heilla.