133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:21]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Kristjáni Möller að það er mikil framför að áforma að ráðast í jarðgöng frá Ósi í Skarfasker í stað þeirra nálaraugna sem átti að sauma um hlíðarnar þrjár sem var auðvitað algerlega ófær leið þegar menn skoðuðu málið nánar en ég vek athygli á því hversu mikil breyting hefur orðið á viðhorfum til þeirra framkvæmda á innan við tveimur árum. Þegar ég spurðist fyrir um það vorið 2005, þá voru engin áform um jarðgangagerð um Óshlíð. Slík áform var ekki að finna á neinni áætlun, hvorki skammtíma- né langtímaáætlun en aðstæður breyttust einfaldlega og málið var tekið upp bæði hér og annars staðar og menn hafa ákveðið að taka þá framkvæmd inn sem ég er auðvitað afar sáttur við.

Þar hafa menn velt fyrir sér hvort ætti að ráðast í þá leið sem nú er búið að tilkynna að verði ofan á eða aðra leið sem liggur alla leið til Ísafjarðar, svokallaða Tungudalsleið sem ég held reyndar að sé sú langbesta en engu að síður er hún dýrari og ég ætla ekki að leggjast í víking til að berjast fyrir henni umfram þá leið sem valin er vegna þess að Skarfaskersleiðin er mjög góð og ég tel ekki að við eigum að beita okkur til að velja dýrari lausnir en nauðsynlegt er. Við verðum að gæta hófs í kröfugerð í þessum efnum og það var það sem ég lagði áherslu á án þess að ég ætli neitt frekar að eiga orðastað við hv. þingmann um Héðinsfjarðargöng.

Ég vil aðeins leggja áherslu á það sem ég tel að sé aðalatriðið í því sem ég vil koma á framfæri og það er að hægt er að gera stórátak í samgöngumálum á næstu fjórum árum. Við höfum útlínurnar í því. Við eigum að gera tvennt til viðbótar. Við eigum í fyrsta lagi að ákveða að verja andvirði Landssímans að fullu til samgöngumála á næstu fjórum árum og í öðru lagi eigum við að setja okkur það markmið að fara í að 3% af vergri landsframleiðslu árlega á næsta kjörtímabili fari til samgöngumála.