133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:23]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sögulegar sættir hafa tekist. Hér var ekkert meira um andsvör varðandi Héðinsfjarðargöng milli mín og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þannig að það mál er lagt að baki okkar eins og gert var í hernum í gamla daga og ekki meira um að. Við erum sammála um stórátak í samgöngumálum sem boðað hefur verið og eins og ég orðaði það áðan og formaður Samfylkingarinnar fór með í fundaferð sinni um fjölmarga staði á landsbyggðinni í janúar og við erum líka sammála um þá niðurstöðu sem var valin vestur í Bolungarvík í staðinn fyrir Óshlíðina sem var orðin mjög hættuleg vegna grjóthruns og ýmissa þátta sem þar hafa breyst á nokkrum undanförnum árum. En sú ákvörðun og sú leið sem hefur verið valin er dýrari en slaufurnar þrjár sem fyrst var rætt um en fyrst var áætlaður milljarður í þetta, til að gera fyrstu slaufuna, þetta er því dýrari leið en margfalt betri og til framtíðar. Það er auðvitað það sem er verið að gera eins og ég nefndi með Héðinsfjarðargöng. Ég get tekið önnur dæmi um skammsýni, t.d. skilur enginn í raun og veru hvernig Oddskarðsgöngum var valinn sá staður sem þau eru í, í 630 metra hæð yfir sjávarmáli, nema menn hafi verið að spara þar einhverjar örfáar krónur eða aura í stað þess að gera það strax sem hefði átt að gera, sem væri varanlegt til langrar, langrar framtíðar. Það er akkúrat það sem mér finnst að sé verið að gera hér og tek þess vegna þau tvö dæmi sem ég hef tekið, þ.e. Óshlíðargöng og Héðinsfjarðargöng. Þetta er sannarlega dýrara í byrjun og um háar fjárhæðir að ræða en þetta er lífsnauðsynlegt fyrir þá sem búa á svæðinu og fyrir svæðið í heild. Þetta er byggðastefna sem hefði að sjálfsögðu átt að vera komin fyrir lifandi löngu. En við skulum vona að við séum hætt að nota þessar smáskammtalækningar og bráðabirgðareddingar sem duga ekki um aldur og ævi.