133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:26]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki miklu við það að bæta sem fram hefur komið í máli mínu fram til þessa. Ég vil aðeins árétta það að menn eiga á þessum tímamótum að horfa hátt og hugsa langt fram í tímann og koma með tillögur og lausnir sem mæta þeim þörfum sem uppi eru í samgöngumálum. Þær eru vaxandi eins og sjá má á þessari áætlun sem er að mörgu leyti góð og hefur vaxið frá síðustu áætlun eins og komið hefur fram í máli hæstv. ráðherra og fleiri, en það vantar mikið upp á að áætlunin nái utan um þær þarfir sem fyrir liggja, eina 80 milljarða kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Ég hygg og það eru mínar áherslur í þessu máli, að við eigum að setja fram hugmyndir sem mæta þeim óskum sem fyrir liggja, þeim þörfum sem fyrir liggja af því að það er ekki svo um neina framkvæmd sem er í áætluninni að maður telji hana óþarfa. Miklu fremur eru framkvæmdirnar þarfar og brýnar eins og jarðgangagerð á Austurlandi og Vestfjörðum og á þeim svæðum og reyndar fleirum skiptir tíminn máli. Því lengur sem menn eru að koma nauðsynlegum úrbótum fram því verra er það fyrir fólkið sem á við þær að búa. Því minna verður gagnið, þó að það verði auðvitað alltaf gagn að framkvæmdinni. Þess vegna legg ég áherslu á að við reynum að mæta þeim kröfum sem uppi eru og það tel ég að við getum gert með raunhæfum hætti á næsta kjörtímabili með því að bæta við þessa áætlun andvirði sölu Landssímans og árlegri hækkun sem svarar um 1% af landsframleiðslu til samgöngumála á næsta kjörtímabili og þá fáum við 80–90 milljarða kr. á því kjörtímabili umfram það sem er í þessari áætlun og getum mætt þeim óskum sem uppi eru.