133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:28]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018 og í henni er sett fram mjög heildstæð áætlun í samgöngumálum, heildaráætlun, samræmd samgönguáætlun, þar sem koma fram markmið stjórnvalda um það hvernig eigi að byggja upp samgöngukerfið til framtíðar.

Það hefur komið hér fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í samgönguráðuneytinu í 16 ár (Gripið fram í.) og hefur tekist býsna vel upp við að byggja upp samgöngukerfið. Það getum við séð á svo óskaplega mörgum þáttum. Við þurfum eingöngu að horfa til þess hvernig ástandið var fyrir ekkert svo mjög mörgum árum, 16 árum, þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við, hvernig ástandið var þá og hvað hefur gjörbreyst, sú gjörbylting sem hefur orðið í vegamálum, flugsamgöngum og hafnamálum, ég tala nú ekki um hina nýju tíma sem felast í fjarskiptaáætlun sem reyndar er ekki hér til umræðu.

Í greinargerð með þessari áætlun koma fram mjög skemmtilegar tölur sem við getum velt fyrir okkur, að árið 1980 voru 359 km þjóðvega bundnir slitlagi en í árslok 2005 voru þeir 4.520. Sú bylting sem við höfum upplifað sem erum á miðjum aldri er náttúrlega algjörlega ótrúleg. Hv. þm. Jón Kristjánsson fór mjög skemmtilega í sinni ræðu yfir þær gífurlegu breytingar sem hafa orðið á ekki mjög löngum tíma.

Bílum hefur fjölgað um rúmlega 100 þús., þ.e. bílafjöldi hefur meira en tvöfaldast og nú eru bílarnir yfir 200 þús. Auðvitað hefur akstur á þjóðvegum utan þéttbýlis aukist verulega vegna þess einmitt að uppbygging vegakerfisins hefur gengið mjög vel. Á þessu árabili jókst akstur á þjóðvegum landsins um 250%, takk fyrir. Síðan er sú árlega aukning sem er farið að mæla nú um 3,4% á ári. Auðvitað er þörfin mikil fyrir áframhaldandi uppbyggingu. Kemur fram í máli þingmanna hér að væntingarnar eru miklar en þeim er svarað að stærstum hluta í langtímaáætlun, og skammtímaáætlun auðvitað líka. Menn setja sér mjög háleit markmið og munu uppfylla þau.

Bílaeign á Íslandi er með því mesta sem gerist í heiminum, 642 fólksbílar á hverja þúsund íbúa á Íslandi. Þetta er gífurlega mikið og það er talið að hver íbúi ferðist að meðaltali 43 km á dag þannig að eitthvað þarf nú undir, hæstv. forseti, í öllum þessum ferðalögum landans sem gera ekkert annað en að aukast, auk þess sem flutningaþörf eykst mjög mikið með því að dregið hefur mjög úr skipasamgöngum.

Ég vildi aðeins nefna þau markmið sem liggja á bak við 12 ára áætlunina, þau koma fram á bls. 29 í fimm tölusettum liðum og ég held að ég lesi þessi markmið upp, með leyfi forseta:

1. Markmið um greiðari samgöngur, þ.e. hreyfanleika í samgöngukerfinu.

2. Markmið um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna.

3. Markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur.

4. Markmið um öryggi í samgöngum.

5. Markmið um jákvæða byggðaþróun.

Hæstv. forseti. Það sem ég vildi helst leggja áherslu á í máli mínu er hvað samgöngurnar skipta gífurlega miklu máli varðandi byggðaþróun. Góðar samgöngur eru meðal grundvallarforsendna fyrir öflugu atvinnulífi og kraftmiklu þjóðlífi og þess vegna geta gæði samgangna haft mjög afgerandi áhrif á bæði stærð atvinnu-, verslunar- og þjónustusvæða. Við vitum að stækkun markaðssvæða og þá auðvitað um leið samkeppnis- og búsetuskilyrða hefur mikil áhrif á byggðirnar og gæði búsetu fólks í landinu.

Ég þarf ekki að taka fram að bættar samgöngur eru gífurlega mikilvæg forsenda fyrir styrkingu landshluta og byggðakjarna. Þegar unnið er að sameiningu sveitarfélaga er þetta ein af grunnforsendunum sem menn leggja alltaf til grundvallar, að samgöngur séu bættar. Hér var einmitt nefnt í umræðunni að nú hefur komist til tals á Austfjörðum að Djúpivogur muni sameinast Fljótsdalshéraði, það er hugað að þeirri sameiningu, og það verður þá til þess að menn þurfa að huga enn frekar að uppbyggingu vegarins yfir Öxi (Gripið fram í.) sem mun skipta þar gífurlega miklu máli. Vegurinn yfir Öxi er orðinn mjög fjölfarinn og hefur mikil áhrif hvað varðar samgöngur á Austurlandi. Eins og við vitum er hann eingöngu landsvegur og til þess þarf að horfa hvernig bætt verður úr því og gerður almennilegur vegur yfir Öxi. Þar eru tæknileg vandamál sem þarf að leysa en með okkar góðu verkfræðingum og tæknimönnum er ég alveg sannfærð um að það tekst.

Þetta er það sem ég vildi segja um það að vegaframkvæmdir hafa þessi miklu áhrif á byggðamál. Ef við horfum bara til þess hversu mikið flutningar hafa flust upp á þjóðvegina sjáum við að leggja þarf í mjög miklar framkvæmdir til að styrkja vegakerfið til þess að taka við þeim flutningum. Ég mun koma að því síðar að þar geta jarðgöng líka leyst mjög mikil vandamál og sérstaklega eru þar Austfirðir og Vestfirðir undir þar sem er mjög fjöllótt landslag. Það hefur því mjög mikil áhrif fyrir flutningsaðila að þurfa ekki að klifra upp og yfir öll þau fjöll sem þar verða á vegi manna.

Undir markmið um byggðaþróun falla einnig framkvæmdir eða aðgerðir sem ekki geta talist mjög arðsamar á hagkvæmnismælikvarða en það verður samt að líta til þeirra framkvæmda til þess að skapa sem jafnasta stöðu landsmanna. Þegar reiknuð er út arðsemi ýmissa vegaframkvæmda er oft og tíðum ekki horft til allra þeirra þátta sem skipta mjög miklu máli varðandi búsetu fólks. Þar má alveg nefna félagslega þætti. Fólk þarf að geta komist á milli þéttbýlisstaða um sveitir landsins á þeim forsendum að þar er um félagslega þætti að ræða sem kannski verða ekki beint metnir til fjár. Slíkir þættir geta auðvitað stutt ákvarðanir sem tengjast markmiði um jákvæða byggðaþróun. Til þessara hluta verðum við að horfa og það er mjög mikilvægt að í þessari samgönguáætlun sé horft til þess að ná jafnvægi milli allra þessara ólíku sjónarmiða sem menn þurfa að horfa til þegar samgönguáætlun er samin.

Þegar horft er til flugmálanna, flugmálaáætlun er þáttur í samræmdri samgönguáætlun, eru mörg góð markmið þar undir. Ég vildi sérstaklega nefna flugbraut á Akureyrarflugvelli sem verður lengd um 460 m til að mæta þörfum flugvéla sem hafa ekki komist á loft fulllestaðar vegna aðstæðna í umhverfinu. Þar eru m.a. fjöll sem hindra það og þarf því að gera ráð fyrir sérstökum tæknibúnaði til að leysa það til skemmri tíma, en til lengri tíma þarf að lengja flugbrautina. Fjöll sunnan flugbrautarinnar hindra flugtak í átt til suðurs. Lággjaldaflugfélögin hafa tekið þær ákvarðanir að fljúga til Akureyrar og þá dugar lengd þessa flugvallar ekki eins og hún er núna og þess vegna er mjög mikilvægt að hér eru teknar ákvarðanir um að fara í lengingu til þess að allir geti flogið til Akureyrar, eins og menn hafa haft áætlanir um. Auðvitað hefur líka komið fram að hér er hugað að stækkun flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli í tengslum við þetta nýja flug sem er þarna að verða til.

Það er sama vandamál á Egilsstaðaflugvelli, nú verður ráðist þar í stækkun flugstöðvarinnar. Hún er reyndar löngu orðin tímabær en ekki tókst síðasta sumar að ráðast í hana þrátt fyrir góðan vilja og fjármagn. Síðan er komið að því líka að það þarf að lengja Egilsstaðaflugvöll og væntanlega verður hann lengdur til suðurs, án þess að það sé fullkannað, en það þarf að gera í mikilli samvinnu milli Flugstoða, Vegagerðarinnar og Egilsstaðabæjar eða sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs vegna þeirra skipulagsmála og þess undirbúnings sem þarf að fara fram, ekki síst með tilliti til þess að til stendur að byggja nýja brú yfir Lagarfljótið og þess vegna þarf þetta að harmónera allt saman. Menn þurfa að sjá fyrir sér skipulag á þessu svæði til lengri tíma en það er einmitt gert ráð fyrir því að ný brú yfir Lagarfljótið verði byggð á þriðja tímabili áætlunarinnar.

Það er þetta sem ég vildi nefna í flugmálunum fyrir utan auðvitað samgöngumiðstöð í Reykjavík sem er orðin löngu tímabær. Gert er ráð fyrir að ráðist verði í hana mjög fljótlega og ég vona að fullur stuðningur verði í þingsölum við það að sú samgöngumiðstöð verði byggð upp þannig að við getum haft samgöngumálin innan borgarinnar í sæmilegum farvegi og að þegar menn hafi lent á flugvellinum í Reykjavík komist þeir sæmilega ferða sinna innan borgarinnar.

Ég sé að tíma mínum er að verða lokið og ég átti eftir að nefna hin gríðarlega merkilegu áform í jarðgangamálum og að öðru leyti þær miklu framkvæmdir sem nú standa fyrir dyrum í uppbyggingu veganna á norðausturhorninu (Forseti hringir.) og víðar sem við sjáum mjög mikla þörf fyrir.