133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:51]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það má eiginlega segja að loksins komumst við í að ræða tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun. Annars vegar er tillaga fyrir árin 2007–2010, sem við ræðum síðar í dag, og hins vegar fyrir árin 2007–2018, sem er svokölluð langtímaáætlun. Þetta er í fyrsta skipti sem við endurskoðum 12 ára áætlun eftir að við breyttum lögum til að vinna að málunum eins og hér er gert.

Hér er farið með stórar og miklar tölur og sett fögur markmið í markmiðslýsingu og stefnumótun, hlutir sem ég held að allir geti tekið undir, t.d. að tryggja landsmönnum greiðar samgöngur. Það á náttúrlega við um allt landið, bæði höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina, þótt þarfirnar séu ólíkar. Meðal annars er talað um að forgangsraða framkvæmdum og í tengslum við það verða kannski stundum deilur milli þingmanna á milli kjördæma o.s.frv.

Talað er um ferðatíma milli staða á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega á mestu álagstímum á morgnana og síðdegis, þegar fólk fer í og úr vinnu, með börn í skóla og allt annað slíkt. Þetta er gagnrýnt og ég tek undir það. Það er afleitt að fólk sitji langtímum saman í bílaröðum og bíði eftir að komast leiðar sinnar. Víða úti á landi er spurningin um hvort fólk kemst yfir höfuð milli staða vegna lélegra vega.

Markmiðslýsingin er góð. Vafalaust geta allir tekið undir hana en deilur geta orðið um hvernig þessu skuli skipt og hvenær. Það er eðlilegt að deilur verði um það vegna þess að þörfin er svo mikil, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem úti á landsbyggðinni. Við þurfum í raun að borga fyrir vanrækslu undanfarinna ára þar sem tiltölulega lítið fé hefur verið veitt til vegamála miðað við þær miklu þarfir sem þar eru. Nægir þar að nefna svar sem samgönguráðherra veitti við fyrirspurn minni ekki alls fyrir löngu. Þar kom fram að tekjur af ökutækjum sem hlutfall af landsframleiðslu hafa aukist frá árinu 1995 úr 3,7% í 4,8% miðað við bráðabirgðatölur 2005. Ég hygg að þetta hafi ekki breyst mikið og kannski fremur aukist.

Aftur á móti voru útgjöld til vegamála, til vegakerfisins, 0,92% umrætt ár. Þetta sýnir okkur svart á hvítu þá miklu skattheimtu af umferðinni, bifreiðanotkun og bílainnflutningi, sem rennur í ríkissjóð en í raun minnst til vegamála. Það sem hér hefur verið sagt um hina miklu umferð, bílaeignina o.s.frv. staðfestir það og hrópar á meiri framkvæmdir. Það munum við glíma við á næstunni. Svo ég færi þetta yfir í tölur var þetta þannig að árið 2005 voru bráðabirgðatölur yfir heildartekjur upp á tæpa 50 milljarða kr. af því sem ég var að tala um, bifreiðanotkun og bílainnflutning, ýmsir skattar eru lagðir á það. Á sama tíma runnu til vegagerðar rétt um 14 milljarðar kr. þar á meðal til rekstrar og annarra þátta.

Virðulegi forseti. Ég vildi láta þetta koma fram varðandi tekjuhliðina. Það eru sannarlega til peningar sem fara í almenna hít ríkissjóðs og núverandi ríkisstjórn hefur ekki verið dugleg við að auka þetta fé til samgöngumála, samanber niðurskurð undanfarin þrjú ár upp á 6 milljarða frá áætluninni og þeim áætlunum sem kynntar voru fyrir síðustu alþingiskosningar árið 2003.

Til að taka eitt dæmi um tekjur af umferðinni má geta þess sem ég hef oft rætt um, þ.e. þegar þungaskattskerfinu var breytt yfir í olíugjald. Búnar voru til ákveðnar tölur af seldum milljónum lítra af olíu og deilt í þungaskattinn. Út úr því kom að olíugjaldið ætti að vera 45 kr. Nú kemur í ljós að sala á olíulítrum með olíugjaldi er ekki 74 milljónir lítra heldur 125 milljónir lítra. Ég vek athygli á því að þær 50 milljónir lítra sem seljast umfram það sem áætlað var — mér þætti vænt um ef hæstv. samgönguráðherra hlustaði á mig vegna þess að ég mun spyrja út í það — að olíugjaldið af þeim gefur rúma 2 milljarða kr. í tekjur. Af þessum 2 milljörðum fara 410 milljónir í virðisaukaskatt og renna beint inn í ríkissjóð, bara vegna þessarar vanáætlunar sem annaðhvort var viljandi eða óviljandi þegar olíugjaldið var ákveðið. Þetta sýnir að ríkisstjórnin jók þar enn skatt af umferð.

Nú kann vel að vera, virðulegi forseti, að menn séu sammála um að hækka þá skatta. En þá verða þeir sennilega líka að vera sammála um að féð renni til að bæta vegakerfið á ýmsum stöðum á landinu. Þetta eru sláandi tölur og staðfesta það sem ég hef margoft haldið fram um hina miklu skattheimtu af umferð. Það er sannarlega af mörgu að taka í þessari áætlun en ég get sleppt mjög mörgu af því sem ég ætlaði að segja um hana vegna þess að minn ágæti formaður, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gerði það mjög vel í fyrstu ræðu samfylkingarmanna um þessa tillögu. Hún talaði m.a. um að við vildum færa okkur í nútímalegt samgöngukerfi, fara í stærsta fjárfestingarverkefni ríkisins, þ.e. stórátak í vegagerð og að við þyrftum að skapa rými í hagkerfinu fyrir þær framkvæmdir.

Ef áform ríkisstjórnarinnar frá í sumar eða haust, sem eiga að standa fram til 2010 samkvæmt svari hæstv. iðnaðarráðherra við fyrirspurn minni varðandi álversframkvæmdir í Helguvík og Straumsvík. Þá er það vitað mál að ekki verður rúm fyrir allt þetta í hagkerfi okkar. Auk þessa eru væntanlega allir sammála um að við byggjum nýjan Landspítala fyrir hluta af símapeningunum og gefa okkur í raun þá þjóðargjöf. Ég get því í rauninni stytt mál mitt, virðulegi forseti, vegna þess hve hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór vel yfir þetta mál, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem landsbyggðinni. Hún hefur verið viðstödd marga fundi í fundaröð okkar undir yfirskriftinni „Ein þjóð í einu landi – jöfn tækifæri“ og boðað stórátak í samgöngumálum sem kæmi í stað þeirra álversframkvæmda sem ríkisstjórnin boðar, þ.e. þreföldun í Straumsvík og framkvæmdir í Helguvík. Ég held að við þurfum að slá aðeins af hvað þetta varðar og gefa okkur tíma til að fara í þetta brýna verkefni sem er stórátak í samgöngumálum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víða um land.

Virðulegi forseti. Í áætluninni kemur ýmislegt fram og um stærstan hluta þess eru allir sammála, svo sem um almenningssamgöngur sem hér er talað um. Ég er þeirrar skoðunar að ríkissjóður eigi að létta öllum álögum af almenningssamgöngum, hvort heldur það yrði af bílainnflutningi eða olíunni, til að auka slíkar samgöngur og menn eiga jafnvel að geta tekið það upp hér á höfuðborgarsvæðinu að strætisvagnaferðir verði fríar eins farið er að bjóða á Akureyri. Ég held að það yrði gott innlegg í það umferðaröngþveiti sem oft skapast á höfuðborgarsvæðinu, að almenningssamgöngur yrðu notaðar betur en gert er í dag.

Hér er líka minnst á flutninga á sjó og landi. Ég fagna því sem hér er sagt en ég get ekki fagnað aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, því að bregðast ekki við því máli sem þar um ræðir. Á bls. 36 og 38 í þessari samgönguáætlun er m.a. rætt um miklar álögur vegna strandsiglinga og flutninga og það er kannski hluti af því hvers vegna strandsiglingar hafa lagst af, að skattheimtan hefur sennilega verið of mikil og gert það að verkum að þetta fór eins og það fór. Því miður hafa siglingarnar lagst af og landflutningar aukist mikið við það. Við höfum undanfarin ár séð hvernig vegirnir slitna undan þessum mikla þunga. Við eigum eftir að sjá það enn betur á næstu árum, ef ekki verður brugðist við. Vegirnir sem ekki voru byggðir fyrir þennan mikla flutning, höfðu ekki burði fyrir hann, að maður tali nú ekki um breidd, eiga eftir að fara enn þá verr. Fjármagn til viðhalds og rekstrar mun því aukast mikið miðað við það sem gert er í dag. Ég hef verið á fundum þar sem Vegagerðin hefur kvartað yfir því að ekki sé veitt nægilegt fé til þjónustu, eins og vetrarþjónustu eða viðhalds vega. Það er mikilvægt að koma þessu að. Ég segi þetta í sömu andrá og ég ræði um tekjuöflun til vegagerðarinnar með sköttum af umferðinni eins og ég fór yfir.

Virðulegi forseti. Það er margt í þessari áætlun sem gaman væri að fara yfir en ég ætla að nota þær fjórar mínútur sem ég á eftir af fyrri ræðu minni til að fjalla um nokkur atriði í áætluninni sem mér finnst of seint farið í. Nefni ég þar t.d. lengingu Akureyrarflugvallar sem ekki á að vera lokið fyrr en árið 2009. Þar er ekkert fjallað um stækkun flugstöðvarinnar. Mér finnst árið 2009 of seint og hef kallað þessa stuttu braut samkeppnishindrun. Það er ekki hægt að nota hana. Má ég vekja athygli á því, virðulegi forseti, að fyrirtæki á Akureyri hafa nýlega stofnað félag sem ætlar að flytja út fisk með flugi beint frá Akureyri og niðurstaðan er sú að ef vélin ætlar fulllestuð af fraktinni, með um 15 tonn, þá er ekki hægt að fylla hana af eldsneyti. Þarf þess vegna að fljúga til Keflavíkur, lenda þar til að taka eldsneyti og fljúga til Evrópu. Þetta er auðvitað ekki annað en samkeppnishindrun. Það að ljúka þessum framkvæmdum ekki fyrr en 2009 er óásættanlegt. Því verður að flýta á einn eða annan hátt vegna þess að ríkið getur ekki komið upp með svona samkeppnishindranir fyrir atvinnulífið í landinu. Auðvitað má einnig nefna að fyrirhuguð lenging á Egilsstöðum kemur líka allt of seint.

Hæstv. samgönguráðherra hefur sagt að ætlunin sé að bjóða út Norðfjarðargöng árið 2009. Það tel ég líka of seint. Það er engu minni hætta fyrir umferð að fara Oddsskarð en Óshlíð. Oddsskarðsgöng liggja í 630 m hæð með allt að 14 gráðu halla. Lagfæringu leiðarinnar þarf að flýta, þetta þarf að gerast fyrr en árið 2009 með upphafsframkvæmdum árið 2010 og lok framkvæmda árið 2013. Ég hef áður sagt að vanrækslan, syndirnar frá umliðnum árum fara að segja til sín. Við höfum ekki gert nóg miðað við það sem þarf að gera.

Þá kem ég að því mikla og góða verki sem unnið hefur verið af fyrirtæki norður á Akureyri sem heitir Greið leið. Það hefur undirbúið á afar faglegan og skemmtilegan hátt byggingu Vaðlaheiðarganga. Ég fagna því að hér sé gert ráð fyrir að koma því verki í gang. Ég hef reyndar sagt það áður að ég held að það þurfi að fylgjast að, Vaðlaheiðargöng og lenging flugvallar, til að nýta það sem út úr göngunum kemur til lengingar flugvallarins.

Hér er jafnframt talað um athuganir á Austfjarðagöngum og göngum til Vopnafjarðar. Eðlilega er mikið talað um göng og sitt sýnist hverjum um þau. Það urðu mikil vonbrigði þegar tilboð í Héðinsfjarðargöng kom, sem var frávikstilboð um heilborun, um að nota hina stóru bora sem verið var að nota við Kárahnjúka, hve hátt það tilboð var miðað við hefðbundna leið. Nú hef ég hins vegar fengið upplýsingar um það m.a. að bæjarstjórn Seyðisfjarðar vinni að því að skoða þetta betur og maður sé kominn til að skoða það verkefni betur að heilbora göng og skoða hvort það gæti ekki orðið til að lækka kostnað. Ég fagna því að það sé gert og held að við greiðum enn of há einingarverð í jarðgangagerð á Íslandi miðað við næstu nágranna okkar, Færeyinga.

Virðulegi forseti. Í þessari fyrstu 15 mínútna ræðu minni hef ég stiklað á ýmsu og eðlilega fjallað mest um vegagerðarkaflann í áætluninni. Ég mun koma að flugkaflanum á eftir og ræða frekar um einstök verkefni, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. En ég ítreka að markmiðið er gott. Ég treysti hins vegar ekki núverandi ríkisstjórn til að framfylgja því sem hér er sett fram og ef ríkisstjórnin ætlar að starta öllum þeim stóriðjuáformum sem ég hef gert að umtalsefni (Forseti hringir.) þá mun samgönguáætlun líða fyrir það. Ég er viss um að ég og hæstv. samgönguráðherra erum sammála um að það yrðu slæm býti.