133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:13]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þessu andsvari hæstv. ráðherra sem snýr að Akureyrarflugvelli, að hann telji það ekki samkeppnishindrun fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjafirði sem ætla að fljúga beint út með fiskinn í stað þess að trukka honum suður á næturnar og fara í flug í Keflavík, þá er það auðvitað samkeppnishindrun þegar það er ekki hægt að gera þetta. (Samgrh.: Það er ekki enn komið …) Ja, þetta verður samkeppnishindrun núna eftir sirka einn og hálfan mánuð og hún spornar gegn því að þetta verði gert með þeim myndarbrag sem átti að gera og fyrir þá hagkvæmni fyrir fyrirtækjareksturinn á því svæði sem þetta á að vera.

Það tekur ekki mikinn tíma, virðulegi forseti, að undirbúa þessa lengingu, það er búið að vinna mikið í því. Ég segi einfaldlega: Haustið 2009 er allt of seint.

Aðeins vegna þess að við erum að ræða lengingu Akureyrarflugvallar, sem jafnframt er varaflugvöllur fyrir millilandaflug ásamt Egilsstaðaflugvelli og Reykjavíkurflugvelli, þá vil ég vekja athygli á því að svokallað varaflugvallargjald, sem er hugsað fyrir varaflugvellina sem farþegar sem fara úr landi greiða, og í innanlandsflugi, á að gefa á fyrsta tímabili 2.248 millj. kr. í varaflugvallargjald. Ef við flettum svo áfram og skoðum hvað á að gera í varaflugvöllunum, þá eru það ekki nema 707 milljónir sem fara í þá þrjá flugvelli á sama tíma. Þetta er enn eitt dæmið um þá skattheimtu sem á sér stað en peningunum ekki varið.

Virðulegi forseti. Þetta er til þess að skapa öryggi á flugvöllunum og gera þeim kleift að vera varaflugvellir. (Samgrh.: Það fer í rekstur líka.) Já, við erum að tala um rekstur líka. En þetta er bara skýrt dæmi um það að þar sem koma inn eyrnamerktir peningar í viðkomandi verkefni, eins og ég er hér að taka sem dæmi, rennur ekki til þeirra verkefna sem þeir eru ætlaðir til, þ.e. að skapa betri aðstöðu á varaflugvöllunum. Þetta er svipað dæmi og í sambandi við vegina og tekjur af vegáætlun (Forseti hringir.) sem við ræddum áðan. — Nú, þegar þessu andsvari er lokið tek ég eftir því að (Forseti hringir.) hæstv. samgönguráðherra veifar til mín og ég hygg (Forseti hringir.) að við getum þá fengið okkur kaffi og haldið áfram með þessa umræðu á eftir, virðulegi forseti.

(Forseti (SAÞ): Forseti beinir því til þingmanna að halda reglur þingskapa um ræðutíma.)