133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:16]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að loksins, þótt seint sé, sé komin fram tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun. Ég hef lengi verið stuðningsmaður þess að samgöngumálin væru skoðuð heildstætt og saman og það er tvímælalaust framför í því fólgin að fjalla um þau öll með samræmdum og heildstæðum hætti.

Ég verð þó að játa að ég sakna þeirra vinnubragða sem áður voru viðhöfð, að leitað væri á undirbúningsstigum mála af þessu tagi eins mikillar pólitískrar samstöðu um hlutina og kostur er. Það er veruleg afturför í því fólgin að fulltrúar þingflokka skuli hvergi koma nálægt málinu, nema þá eftir atvikum að því marki sem þingmenn úr stjórnarherbúðunum fá að kíkja yfir öxlina á samgönguráðherra, fyrr en málið birtist á þingi. Það er mikil afturför frá þeim vinnubrögðum sem voru innleidd í árdaga áætlanagerðar af þessu tagi, en allt fram til 1991 unnu starfshópar skipaðir fulltrúum allra þingflokka að undirbúningi vegáætlana og langtímaáætlana.

Það er svolítið kaldhæðnislegt að þeir tveir stjórnmálamenn sem hafa farið með samgönguráðuneytið síðan, hv. þm. Halldór Blöndal og núverandi hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson, þekkja vel til sögunnar. Það vill nefnilega svo til að síðast þegar unnið var með þeim hætti að undirbúningi vegáætlunar og langtímaáætlunar, á árunum 1990 og 1991, var samkvæmt venju á miðju sumri 1990 skipaður starfshópur með fulltrúum allra þingflokka af þáverandi samgönguráðherra, reyndar þeim sem hér stendur. Í þeim hópi sátu fulltrúar allra þingflokka, þingmenn eins og Skúli Alexandersson, Eiður Guðnason, Stefán Guðmundsson, Stefán Valgeirsson og Málmfríður Sigurðardóttir fyrir hönd þingflokka sinna og tveir fulltrúar fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn taldi að hann þyrfti að fá fleiri fulltrúa en aðrir þingflokkar í nefndina því að hann væri svo stór. Það var látið eftir honum til þess að ekki rofnaði samstaðan um að allir þingflokkar ættu aðild að starfinu.

Hverjir skyldu hafa verið fulltrúar þingflokks Sjálfstæðisflokksins við að undirbúa vegáætlun og langtímaáætlun 1990–1991? Það voru hv. þm. Halldór Blöndal og bæjarstjórinn í Stykkishólmi sem hét þá Sturla Böðvarsson, núverandi hæstv. samgönguráðherra. Þessi hópur fékk það verkefni að undirbúa stefnumótun. Hann hélt fjölmarga fundi og fjallaði um innihald áætlananna, markmið, fjárhagsgrundvöll og enn fremur skiptingu fjár á helstu liði, viðhald, nýjar framkvæmdir og því um líkt. Með öðrum orðum lagði hann allan grunninn að áætluninni og lagði fram tillögur um skiptingu fjár. Eftir þeim var farið. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu að vísu fram bókun vegna þess að þeir töldu að þáverandi ráðherra og meiri hluti ætlaði að blanda sér of mikið í niðurstöður hópsins. Það var sem sagt ekki virt nógu vel hið þverpólitíska samráð. Öðruvísi mér áður brá.

Hvers vegna er skynsamlegt að vinna svona að hlutunum? Það er af tveimur ástæðum. Það er lýðræðislegt, það er í anda góðra hefða lýðræðis og þingræðis að menn reyni að leita pólitískrar samstöðu um það sem hægt er að hafa samstöðu um. Það er líka skynsamlegt fyrir málaflokkinn, að valda hann og tryggja honum pólitískan stuðning eins og kostur er. Það er afturför fyrir samgöngumálin að þau skuli ekki eiga sér bakland í öllum flokkum. (Gripið fram í: Það hlýtur að hafa valdið …) Sérstaklega er það auðvitað kostulegt þegar við erum með í höndunum áætlanagerð til 12 ára, eða dettur einhverjum manni í hug að hæstv. núverandi samgönguráðherra verði þar næstu 12 árin? Ég er viss um að hann er ekki einu sinni svo bjartsýnn sjálfur, hvað þá nokkur annar maður í landinu, að trúa á það. Menn koma og fara. Meiri hlutar rísa og meiri hlutar falla og málaflokkurinn þarf að hafa traust bakland og stuðning.

Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að nefna það, frú forseti, að þetta er vegáætlun og langtímaáætlun á kosningavetri. Við vorum með aðra slíka síðast í höndunum á nákvæmlega sama tíma fyrir fjórum árum. Það var mjög falleg áætlun, hún var mjög feit í hinn endann, fjærendann, eins og þær eru stundum. Náttúrlega hefur ekki reynt á það hvað átti að gera á öðru og þriðja tímabili þeirrar áætlunar, en fyrstu fjögur árin hafa verið beinskorin. Á hverju einasta ári hefur vegáætlun síðan verið beinskorin um 1,5–2 milljarða kr. Er einhver ástæða til að áætla að þessi áætlun standist betur í höndunum á sama hæstv. ráðherra og sama meiri hlutanum? (Gripið fram í: Nei.) Nei, það er nefnilega engin ástæða til þess. Meginafsökunin hefur verið stóriðjuþenslan og hvað ætlar núverandi ríkisstjórn að gera ef hún fær einhverju ráðið? Sturta enn þá meiri stóriðjuframkvæmdum í hagkerfið en nokkru sinni fyrr. Miðað við reynsluna frá síðustu fjórum árum hlýtur að þurfa að skera enn þá meira niður í vegamálum á Vestfjörðum og Norðausturlandi til að vega upp á móti stóriðjuþenslunni þar sem ríkisstjórnin vill byggja álver og virkjanir.

Því miður er það þannig, frú forseti. Reynslan sýnir að það er takmarkað með þessa áætlanagerð að gera. Það er vont vegna þess að það er gott fyrir málaflokk af þessu tagi að þar ríki festa, að áætlanir standist og mönnum séu ekki gefin fyrirheit sem síðan eru svikin. Það er mjög vont að grafa undan tiltrú og trúnaði manna á hluti af þessu tagi. Það er ljótur leikur.

Í þriðja lagi verð ég að gagnrýna einkavæðingardekrið og einkaframkvæmdardekrið í skýrslunni. Í raun er stór hluti samgönguáætlunarinnar í lausu lofti. Stærstu og dýrustu loforðin sem menn voru ósparir á að gefa, t.d. úr þessum ræðustóli fyrir áramót við fjárlagaafgreiðsluna þannig að manni blöskraði, eru í lausu lofti. Það stendur bara sérstök fjármögnun. Þegar maður fer svo yfir það — hvað er það, sérstök fjáröflun? Þegar kemur að flugvöllunum, lengingu Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar, stendur: Sérstök fjáröflun. Svo fer maður í skýringar við það. Hvað þýðir það? Það er að vísu búið að fjalla hér mikið um gjaldtöku og markaðslausnir, en svo kemur að útlistunum á því hvað er sérstök fjáröflun í flugmálum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að nokkrar framkvæmdir verði fjármagnaðar með sérstakri fjáröflun. Þar getur verið um að ræða einkafjármögnun í einhverri mynd eða beina lántöku.“

Það er ekki hægt að hafa þetta opnara. Þetta er óútfylltur víxill. Þetta er algerlega í lausu lofti. „Hér er ekki tekin afstaða til þess með hvaða hætti fjár verður aflað til þessara framkvæmda.“ Það er ekki einu sinni þannig að menn hafi afstöðu. Þeir segja bara einhver fjármögnun. Lenging Akureyrarflugvallar, fjármögnuð einhvern veginn. Lán, einkaframkvæmd, einhvern veginn. Ha. Skoðum það síðar. Er þetta mjög trúverðugt? Nei, ég held ekki.

Þegar við tökum vegamálin er það ekki lítið sem þar er lofað út á. Það eru 9,5 milljarðar á fyrsta tímabili sem eiga að renna í mörg af stóru verkefnunum sem m.a. samgönguráðherra hefur barið sér á brjóst yfir og lofað að hann væri að koma með. Færandi föðurhendi mönnum tvöföldun austur fyrir fjall eða eitthvað svoleiðis. Hvernig er svo fjármögnunin? Sérstök fjáröflun 9.500 millj. kr. á næstu fjórum árum. Á öðru tímabili, sem mest tekur í, eru þetta 23.800 millj. kr. sem eru í lausu lofti, bara einhver fjármögnun. (Samgrh.: Þú ert að fjalla um samgönguáætlun, ekki skatta…)

Þarna eru gefin fyrirheit um gríðarlega mikið framkvæmdastig umfram þá samgönguáætlun sem er innan ramma markaðra tekna og það er algerlega skrifað í skýin hvernig eigi að leysa þetta. Það er bara þannig. Út af fyrir sig er það skýrt. Það liggur fyrir, en þá skulu menn líka ræða þannig að þetta er eitthvað sem kannski eru vonir og væntingar um að verði hægt að gera en það er algerlega óleyst mál hvernig í það verður ráðist og hvernig aðstæður verða til þess. 12 þús. millj. á síðasta tímabilinu. Það er ekki lítið hlutfall, +/- einhverja milljarða sem í þetta eiga að fara á hverju fjögurra ára tímabili þar sem vegamálin eiga í hlut.

Varðandi einkaframkvæmdarþáttinn í þessu, og þá vísa ég líka til þess sem um það er í frumvarpi hæstv. ráðherra að nýjum vegalögum, verð ég að spyrja: Á hverju er byggt? Hver eru rökin fyrir því að daðra svona við einkaframkvæmdina? Eru einhver efnisleg rök sem eru sótt í skýrslur og gögn, kannanir á því hvort þetta sé hagkvæmt o.s.frv.? Er það sótt í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hvalfjarðargöng og Sundabraut? Nei. Í skýrslunni er þessu meira og minna vísað frá. Niðurstöðurnar eru þær að þetta sé nokkurn veginn örugglega dýrara en að gera þetta með venjulegum hætti. Niðurstöðurnar eru þar líka þær að þegar um almenna vegagerð er að ræða eigi þetta í raun og veru ekki við. Þá sé í fyrsta lagi erfitt að koma við gjaldtöku, og skuggagjaldaleið sé í raun enn lakari kostur þannig að þó að þetta kunni að koma til álita við aðstæður af því tagi sem voru í Hvalfjarðargöngum, vissulega, þegar um algerlega sjálfstæð verkefni er að ræða af því tagi þar sem í boði er önnur leið og gjaldtakan getur borið mestallan eða allan kostnaðinn vegna þess að hún styttir leiðir o.s.frv., menn fá sparnað á móti, þá er það eitt og sér að skoða slíkt. En hér er gengið miklu lengra. Hér er daðrað við það að fara út í einkaframkvæmdir og jafnvel einkarekstur á almennum hlutum samgöngukerfisins. Það er bara allt annar hlutur og verður ekki studdur með neinum niðurstöðum í þeim skýrslum sem ég hef komist í.

Ég undrast það líka að hæstv. ráðherra skuli vitna í nýjustu skýrsluna með tilteknum hætti án þess að hún hafi verið gerð opinber. Hvar er skýrslan sem nefnd undir forustu Ingimundar Sigurpálssonar vann með þeim Halldóri Árnasyni og Stefáni Jóni Friðrikssyni? Af hverju er hún ekki afhent og gerð opinber? Ég hef ekki fengið hana. Ég er áhugamaður um þessi mál. Ég er þingmaður á Alþingi og ætla að fara að taka afstöðu til þessara hluta. Það er vitnað í hana með einhverjum almennum orðum hér án þess að hún sé birt. Hverjar eru m.a. niðurstöðurnar þar? Jú, þar segir að einkaframkvæmd sem byggist á veggjöldum sé að mati nefndarinnar álitleg leið í samgönguframkvæmdum ef hún að núvirði er ódýrari kostur en eigin framkvæmd, ef hagkvæm leið til gjaldtöku er fyrir hendi og annar kostur er um leiðarval þegar sérstakri gjaldtöku er beitt. Verður það fyrir hendi ef meginumferðaræðarnar verða settar inn í þetta form? Nei. Verður það fyrir hendi ef einum aðila verður afhentur Kjölur og lokað með girðingum upp af veginum við hlið bæði norðan og sunnan? Það held ég varla. Menn verða því að reyna að tala skýrt um það hvað fyrir þeim vakir og hvað þeir ætla að gera.

Síðan verð ég að segja, frú forseti, að þótt margt sé ágætt í áætluninni, auðvitað — þarna eru fyrirheit um miklar framkvæmdir og ef þær ganga allar eftir mun að sjálfsögðu gerast heilmikið. Skárra væri það nú. Ekki vantar þarfirnar með stóraukinni umferð — þá eru líka í henni verulegir veikleikar sem ég harma. Ég tel að eftir atvikum sé flugmálaþátturinn ásættanlegur, að slepptu því að lenging Akureyrar- og Egilsstaðaflugvallar er í lausu lofti. Ég tel að hafnaþátturinn sé eftir atvikum ásættanlegur miðað við þann lagaramma sem þeirri starfsemi er nú búinn sem ég er að vísu ekki að öllu leyti sáttur við. En það eru verulegir veikleikar í vegahlutanum svo að ég minnist ekki á fjarskiptin sem ég hef tæpast tíma til hér.

Mér finnst of mikið vanta upp á að við náum á næstu árum þeim áföngum í almennri vegagerð sem enn standa út af. Það vantar upp á að klára hringveginn. Það vantar upp á að klára norðausturhornið og Vestfirði. Það vantar miklu meira fé í tengivegi. Það eru gríðarleg verkefni óunnin á ýmsum mikilvægum vegum sem liggja út frá stofnæðunum. Okkur miðar ekkert í þeim efnum, t.d. í hinum löngu dölum Norðurlands þar sem eru gríðarlangir en mikilvægir malarvegir sem þræða byggðakeðjuna saman. Hvernig eru þeir vegir? Þeir eru yfirleitt 40–60 ára gamlir malarvegir, sums staðar komnir niður fyrir yfirborðið í kring og náttúrlega ekki á nokkurn hátt gerðir fyrir þá þungaflutninga og umferð sem er í dag.

Ég verð líka að segja að það eru mér vonbrigði að t.d. jarðgöng undir Hellisheiði eystri skuli ekki komast inn í röðina. Ég hefði líka viljað sjá Norðfjarðargöng fara fyrr af stað svo að ég nefni örfáar framkvæmdir sem þarna hefðu að mínum dómi helst þurft að vera fyrr á ferð. Auðvitað veit ég þar með vel að til þess þarf fjármuni og mikla fjármuni, en veruleikinn sem blasir við íslensku samfélagi er bara sá að við þurfum að leggja vel til þessara mála næstu 10–15 árin af því að okkur hefur miðað miklu hægar að koma þessum hlutum í nútímahorf og koma öllum landsmönnum í nútímasamgöngur sem fyrir 20–30 árum stóð til að yrði búið núna, en er næstum jafnmörg ár fram undan og var þá. Auðvitað hafa nýjar þarfir skapast og aðstæður breyst og allt það, en þetta eru allt rök fyrir því að leggja miklu meira af mörkum (Forseti hringir.) til þessara verkefna.