133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:40]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafa verið í hálfgerðri hringferð í ræðu sinni og sérstaklega í andsvörum við hæstv. samgönguráðherra. Mig langar fyrst að nefna að hann fagnar miklu umfangi samgönguáætlunar. Hann vill gjarnan bæta í og auka við jarðgöng og fleiri framkvæmdir og gott um það en hann finnur mikið að því sem nefnt er í áætluninni „sérstök fjármögnun“. Mig langar að spyrja hann: Vill hv. þingmaður að við aukum skatta á umferð eða vill hann að við aukum skatta almennt í samfélaginu til að bæta í hvað varðar nýframkvæmdir í samgöngumálum? Hvernig vill hv. þingmaður ná fjármunum til þessa mikilvæga málaflokks? Hann hefur talað um það bæði í og úr í ræðum sínum að einkaframkvæmd líkt og Spölur fór út í væri annars vegar ekki kostur en væri jafnvel ákjósanlegur kostur eins og með Vaðlaheiðargöng. Mig langar að fá að heyra nákvæmlega frá hv. þingmanni hvernig hann vill auka fjármuni til þessa málaflokks. Er það með skattahækkunum?