133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:04]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni afar málefnalega ræðu. Fyrst vil ég nefna að samgöngumiðstöð í Reykjavík var á sínum tíma undirbúin af starfshópi sem var settur á laggirnar í samstarfi borgarinnar, fyrrverandi meiri hluta hjá borginni, og ráðuneytisins. Þar varð ákveðin niðurstaða og þar var lagt mat á hvernig hlutirnir ættu að verða. Þar voru m.a. gerðar tillögur um hvernig samgöngumiðstöðin ætti að tengjast umferðaræðum borgarinnar, flugvellinum o.s.frv. Þess vegna er m.a. gert ráð fyrir að hún sé við Hlíðarfótinn sem mun tengjast jarðgöngum suður á bóginn á borgarsvæðinu. Við gerum ráð fyrir að samgöngumiðstöðin tengi net strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er þetta allt úthugsað og skilgreint eins og hv. þingmaður benti réttilega á að þurfi að gera. Við leggjum mikla áherslu á að þetta verði samgöngumiðstöð höfuðborgarsvæðisins og það er fullkomlega eðlilegt að um þetta sé spurt.

Lítil áhersla á almenningssamgöngur, það er ekki rétt. Í samgönguáætlun til tólf ára gerum við ráð fyrir að nota 4,5 milljarða í almenningssamgöngur á fyrsta tímabilinu — 4,5 milljarðar eru há upphæð. Við leggjum áherslu á stígagerð o.s.frv. en við getum ekki gert það nema að því marki sem lög heimila. Við erum að breyta, eins og hv. þingmaður veit, vegalögunum þar sem við tökum stígagerðina inn en þangað til verðum við að miða við gildandi lög. Ég tek undir að við eigum að leggja áherslu á að taka stígagerð, hjólreiðar, reiðvegi og þvíumlíkt inn í áætlanir okkar um uppbyggingu samgöngukerfisins.