133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:06]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Ég veit að starfshópurinn sem borgin átti aðild að skilaði tillögum um samgöngumiðstöð. Þetta mál þarf mjög ítarlega umfjöllun og ef ráðast á í þessar framkvæmdir — ýta hugmyndinni, eða réttara sagt hinum nauðsynlegu Öskjuhlíðargöngum, fram í tímann, auk þess sem það verður mjög mikil uppbygging á þessu svæði á næstu árum og áratugum — verður að huga mjög vel að tengingunum sem þarna eru.

Hvað varðar göngu- og hjólreiðarstíga þá er það rétt, fyrir því þarf að vera lagastoð. Það er mjög mikilvægt að í hv. samgöngunefnd skoðum við þetta saman, vegalögin sem nú eru til umfjöllunar og samgönguáætlunina, og reynum svo að finna á því lausn sem tekur mið af þeim athugasemdum sem fram hafa komið. Ég er hrædd um að við höfum ekki verið alveg á réttri leið í þessum málum fyrir utan það hvað göngu- og hjólreiðarstígarnir hafa verið afskiptir. Menn hafa þrefað um það hvernig ætti að fjármagna þá, ekki sett þá inn á skipulag og það hefur ekki verið í lögum að þá ætti að leggja. Þessu verður að breyta og við höfum tækifæri til að gera það núna.

Ég vil að lokum ítreka fyrirspurnir mínar til hæstv. ráðherra um það hvort ekki eigi að setja fram nein markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bílum og skipum.