133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:10]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði lesið það í þessari tillögu einhvers staðar að markmiðið væri að árið 2018 gengju 20% farartækja fyrir vistvænu eldsneyti. Gott og vel. En það er ekki endilega það sama og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þó að það virki í þá átt, það er ekki það sama og að setja markmið um að draga úr losuninni.

Það kemur fram í umsögn um umhverfisáætlunina og ég ætla að leyfa mér að vitna til þeirra. Landvernd setur spurningarmerki á þessu stigi máls við það lokamarkmið að bíla- og fiskiskipaflotinn gangi fyrir vetni — sem er sem sagt lokamarkmið sett fram í áætluninni — og segir að margt sé óljóst um þróun vetnistækninnar. Nærtækara væri að setja sér lokamarkmið sem væri á þá leið að bílaflotinn og reyndar fiskiskipaflotinn líka verði knúinn af endurnýjanlegum orkugjöfum. Í ábendingu frá Reykjavíkurborg segir að mikilvægt sé að í samgönguáætlun sé lögð fram áætlun um hvernig dregið verði úr útblæstri koltvísýrings frá samgöngum á næstu árum.

Það þýðir einfaldlega að í samgönguáætlunina vantar tímasett og tölusett markmið um það hvernig draga eigi úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við getum ekki sett fram samgönguáætlun til tólf ára ef hún á að vera í takt við aðrar áætlanir, ef hún á að vera í takt við skuldbindingar okkar, alþjóðlegar skuldbindingar okkar eða aðrar þær skuldbindingar sem við eigum eftir að takast á herðar, t.d. á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-samningsins sem mun renna upp árið 2013. Við getum ekki sett fram samgönguáætlun til tólf ára og samþykkt hana án þess að setja þessi markmið inn. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra, og ég veit að það verður um þetta fjallað í samgöngunefndinni, og okkur öll til að koma því þannig fyrir að metnaðarfull markmið verði sett inn í þessa áætlun.