133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:12]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér eitt stærsta málið til framtíðar á þessu þingi, þ.e. hvernig við leggjum línurnar fyrir framtíðina varðandi samgöngur á landinu.

Ætlunin er auðvitað að auka afkastagetu samgöngukerfisins í heild. Maður reynir því kannski fremur að halda sig við aðalstefnumótunina, kannski einkum þar sem hún er takmörkuð, m.a. með því að stytta vegalengdir og aksturstíma þannig að auðveldara verði fyrir alla að nýta þá þjónustu sem landið býður upp á í heild sinni.

Í annan stað verðum við að huga að því að tryggja flugsamgöngur og ferjuleiðir þar sem þörf er á. Eins verður að skoða öflun tekna af umferð, m.a. út frá því að ef til vill verðum við í framtíðinni ekki með þungaskatt og bensíngjöld. Við höfum þá jafnvel tekjur af því að mæla akstursvegalengdir einstakra bíla, sérstaklega þá almenningssamgöngu- og flutningstækja. Ég sé það kannski ekki alveg fyrir mér að það verði notað við einkabílinn en það er mögulegt. Ég held að við hljótum að horfa til þess að nota GPS-tæknina til að mæla umferðarþunga stærri flutningstækja um þjóðvegi landsins og til að fá tekjur af þeirri umferð á þjóðvegum landsins, miðað við þyngd og stærð ökutækis og þunga, en farartækin slíta þjóðvegunum mismikið eftir þunga.

Í þriðja lagi mælum við akstur á þjóðvegunum með sömu tækni. Við gætum með GPS-tækninni einnig búið til afsláttarkerfi fyrir erfiðari leiðir, þar sem vegakerfið væri slakast. Akstursafslætti á lengstu ökuleiðunum því að hægt væri að láta gjaldtökuna virka í báðar áttir, bæði sem endurgreiðslu og gjald ef menn á annað borð mæla aksturinn, þungann og annað slíkt. Þar með er auðvitað komin aðferð til að huga að því hvernig megi hafa áhrif á flutningskostnað til svæða sem um lengstan veg eiga að fara við vöruflutninga og til að sækja þjónustu. Ég vildi benda á þetta í upphafi máls, hæstv. forseti. Hér erum við auðvitað að tala um eitthvað sem er svolítið í framtíðinni en þó ekki fjarlægt vegna þess að tæknin er til staðar.

Í fjórða lagi hef ég og flokkur minn þá stefnu að stytta beri vegalengdir, m.a. með gerð jarðganga. Við höfum þegar búið til ýmsar áætlanir um að stytta vegalengdir með þverun fjarða. Þau plön sem eru m.a. á Barðaströndinni munu hafa mikil áhrif á samgöngur til suðurhluta Vestfjarða þegar þær framkvæmdir komast í gagnið, varðandi þverun Gufufjarðar, Djúpafjarðar og Þorskafjarðar, svo dæmi sé tekið.

Ég minni á þetta, hæstv. forseti, vegna þess að það þótti fjarlægur draumur árið 1983 þegar menn voru að tala um að gera göng undir Breiðadals- og Botnsheiði fyrir vestan og þverun Dýrafjarðar og Gilsfjarðar. Menn sáu þetta fyrir sér en höfðu svo sem ekki á áætlun. Á þeim tíma töldu menn að jarðgangagerð á Íslandi væri afar erfið vegna þess hvernig berg væri hér á landi o.s.frv. Það er búið að afsanna það sem betur fer.

Við höfum næga tækni til að setja í meiri forgang jarðgangagerð á þeim svæðum landsins, sérstaklega þar sem samgöngurnar eru enn þannig að þær teljast engan veginn viðunandi. Vegirnir eru enn þá malarvegir að hluta og þar að auki er um fjöllótt landslag að ræða eins og á Vestfjörðum, á norðausturhorni landsins og á Austfjörðum, tvímælalaust, og vissulega á það við víðar, þar sem hægt er að ná fram verulegri styttingu vegalengda og auknu umferðaröryggi. Við megum ekki gleyma því í þessari umræðu þegar við ræðum um jarðgangagerð, betri vegi og styttri vegalengdir, að þar með aukum við umferðaröryggi geysilega. Við erum ekki bara að stytta tímann, stytta vegalengdir og ferðatíma, við erum líka að auka umferðaröryggið mikið.

Í nýlegu svari hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn minni varðandi kostnað, viðhald og endurbætur á vegum, kemur greinilega fram að viðhald í Vestfjarðagöngum og Hvalfjarðargöngum var ekki mikið á því tímabili sem spurt var um. Spurt var um tímann frá því að Vestfjarðagöng voru tekin í notkun og út árið 2005 og hins vegar frá 1998 þegar Hvalfjarðargöng komust í notkun til ársins 2005.

Það fóru 82 millj. kr. í Vestfjarðagöng og 175,1 millj. í Hvalfjarðargöng, með allri þeirri umferð sem þar er. Það er mjög athyglisvert að í báðum þessum göngum sé nánast enn þá sama slitlagið og sett var á þegar þau voru opnuð, þrátt fyrir mikinn umferðarþunga eins og í Hvalfjarðargöngum og reyndar miklu meiri umferð í Vestfjarðagöngum heldur en menn höfðu nokkurn tímann reiknað með.

Til samanburðar getum við svo skoðað viðhaldið t.d. á Óshlíð þar sem menn völdu að leggja veg utan í fjallinu, sem menn viðurkenna núna að nær aldrei því öryggi sem menn sóttust eftir. Þar liggur fyrir ákvörðun um það að fara í jarðgangagerð. En í þann veg höfum við eytt tæpum 900 millj. kr. í viðhald og endurbætur frá því hann var tekinn í notkun. Þar eru náttúrlega vegskálarnir dýrastir en einnig hefur þurft að fara í margar aðrar aðgerðir til að reyna eftir fremsta megni að auka öryggi á Óshlíðinni sem því miður hefur ekki tekist og mun ekki takast að mati flestra. Þess vegna hefur verið ákveðið að ráðast í gerð Óshlíðarganga, sem ég fagna mjög.

Ég vil hins vegar benda á að fleiri svona vegstæði þarf að endurskoða. Þar má m.a. nefna Lónsheiði fyrir austan, sem er nú komin inn á þessa áætlun. Einnig má benda á Súðavíkurhlíð, þar sem er mikil snjóflóðatíðni. Til er skýrsla um það frá Vegagerðinni sem ég hef undir höndum. Snjóflóðahætta í Súðavíkurhlíðinni er afar mikil og ég tel að fullu umferðaröryggi verði ekki náð með öðru en að gera jarðgöng á milli Ísafjarðar og Álftafjarðarbotns. Ég held að það væri framtíðarlausnin í þessum málum og menn eigi að horfa til þess. Ég fer oft um þennan veg. Nú eru menn að grafa þar skápa og moka hlíðinni fram fyrir veginn o.s.frv. til að reyna eftir fremsta megni að auka umferðaröryggið vegna grjóthruns og snjóflóða. Það mun kannski lagast eitthvað og vonandi verða þar ekki alvarleg slys. En fullkomið umferðaröryggi, eins og við viljum hafa á þjóðvegum okkar, á okkar fjölförnustu leiðum, næst ekki með slíkum aðferðum. Það held ég að reynslan af Óshlíð sanni ótvírætt.

Það er fjöldamargt fram undan í vegagerð. Ég vil hvetja til þess, hæstv. forseti, frekar en þess sem lagt er upp með í þessari samgönguáætlun, að menn horfi í auknum mæli til að leysa framtíðardæmin með jarðgangagerð þar sem við á í fjöllóttu landslagi til að stytta vegalengdir á milli svæða.

Ég nefni t.d. göng frá Vopnafirði yfir á Hérað til að stytta vegalengdina og gera örugga akstursleið þar á milli allan ársins hring. Það má auðvitað minna á Vaðlaheiðargöng sem mundu vissulega stytta og auka öryggi út frá Akureyri. Mörg fleiri dæmi mætti nefna.

Ég minni hins vegar á tillögu okkar í Frjálslynda flokknum um að leggja áherslu á láglendisvegi þar sem stefnt verði á jarðgangagerð til að komast undir fjöllin í stað þess að fara yfir þau. Nú eru á áætlun göng úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð sem ég fagna að skuli komin á áætlun. En að mínu viti hefðu þau þurft að færast yfir á fyrsta tímabil.

Ég undrast svolítið að í jarðgangaáætlun, sem birtist í vegaáætlun til tólf ára, virðist sem við séum enn föst í þeirri hugsun að eiginlega sé ekki hægt að gera tvenn jarðgöng í einu á Íslandi. Það virðist svo sem hæstv. samgönguráðherra, sé enn þá fastur í dyrunum á einum jarðgöngum í einu en komist ekki í að gera áætlun um að hefja tvenn jarðgöng á ári, markvissa áætlun með auknu fé inn í jarðgangahlutann. Þarna erum við að horfa á framtíðarlausnir, hæstv. forseti, með miklu umferðaröryggi og styttingu vegalengda. Ég hvet til þess að menn færi sig framar í þessari jarðgangaáætlun almennt og gangi í framkvæmdir hraðar en hér er gert ráð fyrir þannig að við sjáum fram á að á þessu tímabili til ársins 2018 förum við í fleiri verkefni en lagt er upp með í þessari áætlun, hæstv. forseti.

Aðeins að flugmálum. Þetta er allt of stuttur tími, hæstv. forseti, til að ræða þessi mál. Ég fagna því auðvitað að svo virðist sem Reykjavíkurflugvöllur sé að festa sig í sessi. Það er ekki hægt að lesa annað út úr þessum málum og því að menn ætli að gera sérstaka samgöngumiðstöð við Öskjuhlíðina, stefna þar að jarðgöngum o.s.frv. Þá hljóta menn að hugsa til þess að samspil verði milli samgangna innan Reykjavíkur, samgangna út á land og samgangna til Reykjavíkurflugvallar. Ég dreg þá ályktun og fagna því mjög að Reykjavíkurflugvöllur eigi að fá að vera áfram þar sem hann er. Enda er flugöryggið inn á Reykjavíkurflugvöll mjög mikið, 98–99% ef ég man rétt. Það mundi reyndar detta niður í 91% ef aðeins yrði lagt upp með eina flugbraut.

Ég minni líka aðra flugvelli sem ekki er gert mikið með í flugáætlun. Ég minni á flugvöllinn á Sauðárkróki, þar sem er 99% nýtingarhlutfall miðað við áætlun. Margir flugmenn hafa bent á að flugvöllurinn á Sauðárkróki væri vel fallinn sem varaflugvöllur, hvað þá ef upp á kæmu einhverjar sérstakar aðstæður. Það er bara einfaldlega vegna legu landsins í kringum Sauðárkrók og láglendis sem þar er að auðvelt er að gera þar varaflugvöll fyrir alla flugvelli á landinu.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, hve lítið er minnst á framkvæmdir á Sauðárkróksflugvelli. Ég held að það séu einhvers staðar settar 3 millj. kr. ef ég man rétt í flugvöllinn á Sauðárkróki.

Hæstv. forseti. Ég hyggst ræða betur síðar um samgönguáætlunina sem hér er í seinni ræðu minni. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann setji mig á mælendaskrá í annað sinn. Ég er rétt að komast í gang í þessu máli.