133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:27]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tvennt vil ég nefna sérstaklega. Í fyrsta lagi er það misskilningur hjá hv. þingmanni að það sé tregða af minni hálfu að ekki séu tvenn göng í gangi hverju sinni. Það er akkúrat það sem lagt er upp hér með í áætluninni að gera, tvenn göng, Héðinsfjarðargöngin og Bolungarvíkurgöngin, samtímis.

Í beinu framhaldi af Óshlíðargöngunum yrði farið í Arnarfjarðar/Dýrafjarðargöngin og á sama tíma unnið við göngin til Neskaupsstaðar. Inn í þetta gætu komið Vaðlaheiðargöng á forsendum einkaframkvæmdar. Þannig að þrenn jarðgöng gætu verið í smíðum á Íslandi alveg á næstunni.

Hitt hvað varðar flugvöllinn á Sauðárkróki þá er rétt að þar eru aðstæður góðar. En þar er, eins og með fleiri velli nærri höfuðborgarsvæðinu, að þeir hafa ekki nýst sem skyldi þrátt fyrir ágætar aðstæður. Þess vegna er ekki talin þörf á sérstökum framkvæmdum á flugvellinum á Sauðárkróki. Þar vantar fyrst og fremst meiri umferð. Aðstaðan þar er í góðu standi svo það er ekki talin ástæða til fjárfestinga þar.