133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:29]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir textann í þessari þingsályktun. Ég kom auga á að á öðru tímabili er jafnvel hugsað fyrir því að hafist geti vinna við þrenn jarðgöng.

Ég hefði viljað sjá menn taka nokkra áfanga til viðbótar. Ég nefni göng úr Vopnafirði yfir á Hérað, sem er bráðnauðsynlegt til að tengja þau svæði saman og stytta verulega akstursleiðir yfir fjöllin og fá öruggar samgöngur á láglendi, hæstv. forseti.

Af Vestfjörðum nefni ég áherslur Vestfirðinga á hringtengingu Vestfjarða. Hringtengingu þar sem væru alvörusamgöngur innan fjórðungsins þar sem byggðirnar á suðurfjörðunum eru tengdar við norðurfirðina og samgöngur tryggar allan ársins hring. Við sjáum auðvitað að gert er ráð fyrir Dýrafjarðargöngum og fögnum því. En ég hefði líka viljað sjá áætlun um göng á eftir, Dýrafjarðargöngum úr Ísafjarðardjúpi og yfir á Barðaströndina, undir Kollafjarðarheiði, t.d. og ná þar láglendisvegi alla leið til Reykjavíkur sem vissulega er í boði ef rétt er að verkum staðið.

Ég tel að það sé aðeins tímaspursmál þar til menn sjá veginn frá Bjarkarlundi og yfir í Kollafjörð verða að veruleika, þ.e. með þverun fjarða, og þar til krafa fólksins um að komast þessa leið fær hljómgrunn hjá stjórnvöldum. Við skulum ekkert gleyma því. Það er hægt að rifja það upp síðar að umræðan um Óshlíðargöng fékk ekki mikinn hljómgrunn frá stjórnvöldum fyrir tveimur og hálfu ári. Við skulum bara minnast þess. Með auknum þrýstingi létu stjórnvöld undan. Það gerist þegar almenningur tekur sig saman og krefst lagfæringa svo ég minni á Keflavíkurveginn o.s.frv.