133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:36]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikið fjármagn sem við erum að fjalla um í þessari samgönguáætlun, eða u.þ.b. 380 milljarðar kr. enda erum við að fjalla um langt tímabil eða til ársins 2018 og við erum líka að fjalla um málaflokk sem er alla jafna dýr, og á í raun að vera dýr. Það skiptir mjög miklu máli að vel sé staðið að þessum málaflokki. Nú er því jafnframt þannig háttað að við erum að fjalla um málaflokk sem hefur verið vanræktur árum saman. Það hefur vakið athygli mína að hver þingmaðurinn á fætur öðrum sem tekur þátt í umræðum hér í dag notar sama orðið, þ.e. „vanrækslusyndir“, og það er nákvæmlega rétta orðið yfir það sem þessi tillaga til þingsályktunar sýnir, hún sýnir viðleitni til yfirbóta fyrir vanrækslusyndir.

Þá vaknar sú spurning hjá okkur sem um þetta fjöllum hvort hægt sé að treysta því sem ég kallaði hér áðan „viðleitni til yfirbóta“. Því miður held ég að ekki sé hægt að treysta því hjá ríkisstjórninni sem nú situr að völdum. Þar höfum við bæði reynsluna til að styðjast við og líka raddir úr stjórnarflokkunum þar sem fram koma staðhæfingar sem fá ekki staðist. Á það hefur líka verið bent í umræðunni að það stenst ekki að setja jafnmikið fjármagn í samgöngubætur og boðað er að gert verði á næstu árum og fara jafnframt í stóriðjuframkvæmdir eins og líka hefur verið boðað að muni verða gert af ýmsum forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Það stenst ekki. Jafnvel þótt ekki verði af stóriðjuframkvæmdum, sem ég vona svo sannarlega að ekki verði á næstu árum, held ég því miður að ekki sé hægt að treysta ríkisstjórninni til að standa vel að samgöngubótum á landinu. Ég tel reyndar engar líkur á því að þessi sama ríkisstjórn sitji að völdum eftir næstu kosningar og við þurfum því engar áhyggjur að hafa í því efni.

Það er engu að síður alvarlegt mál að hvað eftir annað skuli reynt að blekkja fólk í landinu á sama hátt hverjar kosningarnar á fætur öðrum eins og við höfum horft upp á og það í málaflokki sem snertir okkur svo mjög sem samgöngur gera. Samgöngur eru okkur nauðsynlegar, skipta sköpum fyrir öryggi vegfarenda, samkeppnishæfni byggðarlaga. Undanfarið hefur verið illa að málum staðið og er fólk í stórhættu á þjóðvegunum sem eru allir orðnir um eða yfir 20 ára gamlir en 20 ár eru endingartími vega. Loksins núna er búið að fastsetja jarðgöng til Bolungarvíkur á leið sem var til umræðu á sama tíma og vegur um Ólafsvíkurenni og Ólafsfjarðarmúlinn. Það er löngu búið að ráða bót á fyrri tveimur vegunum en núna fyrst er verið að leggja drög að því að koma fólki í skjól sem á leið á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og er reiknað með því að það veðri klárt árið 2010.

Ég er hér með línurit yfir heildarakstur á þjóðvegunum á Íslandi frá því 1975–2005 yfir samtals ekna kílómetra. Ef maður lítur á þetta línurit frá árinu 1991, sem mun vera u.þ.b. það ár sem Sjálfstæðisflokkurinn tók um taumana í samgönguráðuneytinu, og til ársins 2005 sést að umferð hefur aukist úr einni milljón ekinna kílómetra rúmlega í tvær milljónir ekinna kílómetra, þ.e. eknum kílómetrum hefur fjölgað um nákvæmlega 100%.

Við skulum hafa í huga að vegirnir eru allir orðnir um eða yfir 20 ára gamlir. Ef við skoðum svo fjármagnið til viðhalds á þessu sama tímabili er árleg fjárhæð sem fer í viðhald nær sú sama allan þennan tíma. Ef við skoðum árlegt fjármagn til vegamála alls þá er það sama sagan, þ.e. fjárhæðin er u.þ.b. sú sama nema á kosningaárum. Á kosningaárum rýkur hún upp eins og ég sagði áðan. Það er einhvers konar rússíbanamynd sem við sjáum út úr þessu. Það er algjörlega ótækt að ekki skuli vera tekið meira tillit til þróunar en þetta línurit og þær tölur sem ég rakti áðan sýna.

Það er alveg augljóst að það eru þrjú svæði á landinu sem við þurfum að taka sérstakt tillit til þegar við fjöllum um samgöngumál. Það er höfuðborgarsvæðið, bæði innan svæðisins og tengingar við það, bæði suður og norður; það eru Vestfirðirnir og það er Austurland. Fyrir þá íbúa landsins alls sem fara um Hvalfjarðargöngin er það himinhrópandi óréttlæti eins og nú er háttað að þurfa að borga þar vegtoll, það er algjörlega óásættanlegt. En hæstv. ráðherra hefur skellt skollaeyrum við öllum áskorunum og öllum rökum og enn eiga þeir sem þar fara um að sitja uppi með það að borga gjald í þessi göng. Ekki nóg með það heldur er nú hafin vinna við undirbúning að nýjum göngum og sá grunur læðist að manni að það muni kannski verða til þess að greiðslutíminn verði enn framlengdur.

Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að lesa upp úr ályktun frá Samfylkingarfélagi Borgarbyggðar sem lýsir vel því sem er í húfi, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Það að ein akstursleið út úr höfuðborginni sé skattlögð sérstaklega umfram aðrar er hrópandi óréttlæti sem ekki á að líða lengur, enda brýtur það gegn jafnræðissjónarmiðum. Félagið fagnar nýgerðu samkomulagi Vegagerðarinnar og Spalar um að hefja undirbúning að tvöföldun ganganna. Umferðaröryggi og stóraukin umferð til og frá höfuðborgarsvæðinu veldur því að afar brýnt er að bæta helstu samgönguæðar í nágrenni Reykjavíkur. Það er hins vegar algjörlega ólíðandi að vegtollar séu á einni leiðinni á meðan hinar, þ.e. leiðin austur fyrir fjall og á Reykjanesið, séu gjaldfrjálsar. Það eru ekki aðeins sanngirnissjónarmið sem liggja að baki þessari ályktun heldur einnig sú staðreynd að tollurinn um Hvalfjarðargöngin virkar hamlandi bæði á ferðaþjónustu á Vesturlandi sem og atvinnusókn og er tollurinn í raun samkeppnishindrun fyrir byggðaþróun vestan ganganna.“

Þetta segir allt sem segja þarf um þessi mál.

Það eru ekki bara íbúar í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið sem líða fyrir þetta heldur t.d. allir flutningsaðilar sem keyra norður, austur og vestur, þeir fara allir um þessi göng. Mér var fyrir stuttu sagt frá litlum flutningsaðila á Akranesi sem borgaði 19 milljónir á sjö, átta árum í toll, en þetta var fyrirtæki sem var með einn til tvo bíla í förum og það munar um minna í rekstri af því tagi.

Mörgum orðum hefur verið farið um ástandið á Vestfjörðum og ekki að ófyrirsynju. Þar er ástand á vegum og samgöngum líklega allra verst á landinu. Ekki er hægt að fara inn á svæðið án þess að keyra eftir malarvegum. Fólk er lífshættu, ekki bara í Óshlíðinni heldur líka á leiðinni milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Það kom mjög skýrt fram í svari við fyrirspurn frá mér fyrir stuttu að á hverju einasta ári á tíu ára tímabili slasast eða verða fyrir óhappi 16 manns og þar af eru tvö dauðaslys. Þetta eru tölur sem ber að hlusta á, hæstv. ráðherra, og taka tillit til.

Mörg brýn verkefni bíða okkar í samgöngumálum, ekki bara á Vestfjörðum, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring og á Austfjörðum heldur líka t.d. á Miðnorðurlandi. Minnst hefur verið á göngin úr Eyjafirði og austur, það þarf líka að gera göng á milli Eyjafjarðar og vestur. Ekki hefur verið minnst á göng á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar en það eru göng sem þurfa líka að komast á langtímaáætlun, hæstv. ráðherra. Það skiptir máli fyrir íbúa Skagafjarðar og Norðurlands vestra að þurfa að keyra yfir hæsta fjallveg á landinu sem er í notkun allt árið sem er Öxnadalsheiðin en hún er tæplega 600 m. Það munum við ekki vilja búa við til frambúðar.

Ég hef ekki nefnt flugvelli eða hafnir en ég vil nota tækifærið og taka hjartanlega undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem minntist á Sauðárkróksflugvöll. Ekki hefur verið horft á þann flugvöll og ekki metið til fulls hversu góður hann er, þ.e. aðstæðurnar við hann. Hann þarf að vera inni í myndinni og það þarf að halda honum við og hafa í huga að þarna eru einhverjar allra bestu aðstæður til flugs á landinu. Þegar göng verða komin á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar held ég að hann verði sjálfsagður kostur í flugsamgöngum fyrir Norðurland því að hann er miklu betri en Akureyrarflugvöllur í öllum umhverfisaðstæðum.

Það vakti athygli mína þegar ég var að skoða áætlunina, reyndar þá styttri, hversu margar frestanir eru á sjóvörnum. Það er 24 frestanir á sjóvörnum á milli ára sem eru teknar inn núna í þessari áætlun og þar af eru 16 frestanir í Norðvesturkjördæmi. Það vakti líka athygli mína að þessar frestanir eru allar nema tvær í litlum sveitarfélögum. Maður kemst ekki hjá að álykta að þau sveitarfélög kunni að vera það illa sett fjárhagslega að þau geti ekki staðið undir því mótframlagi sem þarf til þess að get staðið í sjóvörnum, sem er 1/8 hluti. Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru jú alkunn þar sem ríkið er stöðugt að færa kostnað yfir á sveitarfélögin og það sýnir sig á þessu sviði að sveitarfélögin geta ekki staðið í því sem þau þurfa að gera. Þau geta ekki sinnt jafnbráðnauðsynlegum framkvæmdum og sjóvarnir eru.

Samfylkingin mun standa fyrir því að efna það sem stendur í þessari áætlun þegar hún hefur tekið við taumunum eftir næstu kosningar og þegar hún verður búin að endurskoða og meta hlutina upp á nýtt. Það verður tilhlökkunarefni fyrir ýmsa landsmenn.