133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:51]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Sú samgönguáætlun sem við fjöllum um núna lítur að mörgu leyti vel út. Þar eru lögð drög að ágætri framtíðarsýn í samgöngumálum Íslendinga. En fyrsta spurningin hlýtur samt að vera um hversu trúverðugt plaggið sé í ljósi alls sem á undan er gengið, eins og ég hef bent á fyrr í dag, að eftir 16 ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins og átta ár hæstv. samgönguráðherra í samgönguráðuneytinu eigi allt í einu að gera allt fyrir alla. Þegar fjármagn til samgöngumála er borið saman milli ára kemur í ljós að á kosningaárum hækka þau yfirleitt gífurlega. Árið 2002 voru framlögin t.d. 13 milljarðar kr. Árið 2003 voru þau 17 milljarðar en árið 2004 voru þau skorin niður í 14 milljarða og 13,5 milljarða kr. árið 2005. Um leið og menn lýsa miklum fögnuði yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli rétt fyrir kosningar auglýsa stórátak í samgöngumálum eina ferðina enn hljótum við að spyrja hve trúverðugt það sé.

Hér eru miklir fjármunir eyrnamerktir samgöngumálum langt inn í framtíðina. Stærstu verkefnin eru sett á sérstaka fjármögnunarliði, svokallaða einkaframkvæmdarliði. Þau samgöngumannvirki sem mest hefur verið rætt um síðustu vikur og mánuði er breikkun og tvöföldun vega út frá höfuðborginni, vestur og suður eða austur. Það er ekki spurning að gífurleg þörf er á öflugu samgönguátaki eftir 16 ára vanrækslu, eftir 16 ára stanslausa sögu svikinna loforða í samgöngumálum.

Sannarlega er þörf á samgönguátaki. En það blasir líka við að ekki verður ráðist í svo viðamikið átak í samgöngumálum um leið og við höldum áfram uppbyggingu stóriðju af sama offorsi og síðustu missiri. En eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í sjónvarpsviðtali um síðastliðna helgi þá gerir hann ráð fyrir að þrjú álver verði reist á næstu árum, þ.e. árin 2007–2011. Það er stækkunin í Straumsvík, álver í Helguvík og álver á Húsavík.

Allir vita að efnahagslífið eitt og sér, fyrir utan náttúruverndarsjónarmiðin, leyfa aldrei slíkar framkvæmdir auk þeirra samgöngufjárfestinga sem hér eru lagðar til. Það þarf að velja á milli. Samfylkingin hefur talað skýrt í þessu máli. Við viljum gera hlé á stóriðjuframkvæmdum á meðan rammaáætlun um náttúruvernd er unnin og kæla hagkerfið þannig að ráðast megi í þær umfangsmiklu samgöngubætur sem rætt hefur verið um á undanförnum vikum. Við tökum undir þau markmið sem eru sett fram í þessari samgönguáætlun enda má segja að hún sé ágætisrammi um verkefnin á næstu tólf árunum. Þess vegna skiptir spurningin um trúverðugleikann svo miklu.

En 90 dögum áður en Sjálfstæðisflokkurinn mun að líkindum yfirgefa málaflokkinn eftir 16 ára umsýslu er allt í einu hægt að gera allt fyrir alla. Eftir 16 ára sögu svikinna loforða í samgöngumálum ætlar Sjálfstæðisflokkurinn, 90 dögum fyrir kosningar, að gera allt fyrir alla í samgöngumálum. Þetta verða menn að hafa í huga þegar við ræðum um trúverðugleika þessa plaggs af því að um innihaldið er að sjálfsögðu margt afskaplega jákvætt að segja.

Þessu tengist að nauðsynlegt er að skoða útgjöld ríkisins til vegamála síðustu árin og áratugina. Árið 1970 voru útgjöld til samgöngumála sem hlutfall af landsframleiðslu tæplega 2,8%, þ.e. 2,74%. Það fór niður í 1,9% árið 2005 og útgjöld til vegakerfisins minnkuðu töluvert meira, úr 1,7% árið 1970 niður í 0,9% árið 2005 þegar ríkisstjórnin skar niður atvinnubótatillögurnar og hinar miklu samgöngufjárfestingar Davíðs og Halldórs sem kynntar voru korteri fyrir kosningar árið 2003. Þess vegna hljóta að vakna efasemdir núna, 90 dögum fyrir kosningar, þegar fram kemur samgönguáætlun sem kallað hefur verið eftir. Það er löng hefð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn efni ekki samgönguloforðin sem er svo auðvelt að gefa fyrir kosningar, sérstaklega þegar litið er til þess að á sama tíma lofar flokkurinn þremur nýjum álverum. Á nákvæmlega sama tíma á að ráðast á í stórar og miklar fjárfestingar í samgöngumálum á að byggja þrjú ný álver. Forsætisráðherra gaf hvergi eftir í því ef marka má hið dæmalausa viðtal við hæstv. forsætisráðherra í Silfri Egils á sunnudaginn var þótt lítið hafi sést af kappanum síðan.

Ég verð að nefna nokkur atriði varðandi stærstu framkvæmdirnar í áætluninni. Fyrir það fyrsta hef ég kallað eftir því að markvissari og skýrari tímasetningar verði á áætlunum um tvöföldun Suðurlandsvegar, og Vesturlandsvegar ef út í það er farið. Getur samgönguráðherra svarað því skýrt, af því að það hefur verið dregið í efa að raunverulegur pólitískur vilji sé á bak við þessar losaralegu og loðnu útfærslur á tvöföldun veganna.

Í fyrsta lagi segir hvergi að tvöfalda eigi veginn. Setningin um að fyrst ætti að fara í 2+1 veg var tekin út vegna deilna í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þess vegna hlýtur samgönguráðherra hæstv. að svara því hér úr ræðustól Alþingis, eins skýrt og hægt er, að fara eigi þá leið, þ.e. 2+2 , og að ferlið verði farið í gang fyrir kosningar.

Hann svaraði því í viðtali við Morgunblaðið að hann vissi það ekki því samgönguáætlun kæmi ekki frá þinginu fyrr en 15. mars. Þá verða enn þá eftir tveir mánuðir til kosninga. Til að þetta sé trúverðug tillaga í samgönguáætlun þá verður hæstv. samgönguráðherra að gera grein fyrir því að ferlið fari af stað fyrir kosningar, þ.e. tvöföldunarferlið, að það komi ekki í ljós eftir kosningar að aldrei hafi staðið til að fara í 2+2 heldur verði haldið áfram með 2+1 eins og er búið að bjóða út hönnun á. Það stendur hvergi í áætluninni að fara eigi í 2+2. Það má bara túlka upphæðirnar með þeim hætti.

Hverju svarar hæstv samgönguráðherra því? Fer forvalið fram á næstu vikum þegar samgönguáætlun er komin út úr þinginu og áður en kjörtímabilið er á enda? Hvernig túlkar hann breikkunina svart á hvítu? Það þarf að liggja fyrir að ekki sé um að ræða kosningabrellu Sjálfstæðisflokksins, alkunna kosningabrellu í samgöngumálunum. Það verður að sjást að þetta sé raunveruleiki.

Annað sem ber að nefna, sem einnig er partur af vanrækslu síðustu 16 ára í samgöngumálum, eru samgöngurnar til Vestmannaeyja. Á 10 árum, á því tímabili sem ríkisstjórn þessara tveggja flokka hefur setið hefur Vestmannaeyingum fækkað úr 5 þúsund í 4 þúsund. Stærsta ástæðan fyrir því eru óboðlegar samgöngur milli lands og Vestmannaeyja. Þetta er eini kaupstaðurinn á landinu þar sem samgöngurnar eru einungis á sjó eða í lofti. Öllu máli skiptir að tryggja Vestmannaeyingum varanlegar og nútímalegar samgöngur. Þar koma nokkrir hlutir til greina, þ.e. nýr Herjólfur, eða jafnvel tvö skip sem sigla hvort á móti öðru til Þorlákshafnar, höfn í Bakkafjöru og göng á milli lands og eyja.

Enn hefur málið ekki verið leitt til lykta af samfélaginu í Vestmannaeyjum en áður en tekin er endanleg ákvörðun þurfa að fara fram rannsóknir af því að kostirnir eru allir gífurlega dýrir. Bakkafjara er 6–8 milljarðar kr. Göngin 20–30 milljarðar kr., rekstur Herjólfs á 30 árum er 20–25 milljarðar kr. Þetta eru gífurlegar upphæðir og aðeins einn kosturinn valinn að lokum. En áður en hann verður valinn þarf að mínu mati að rannsaka til hlítar möguleika á gangagerð, hvort það sé tæknilega og fjárhagslega framkvæmanlegt o.s.frv. Því er haldið fram af forustumönnum Ægisdyra og mörgum í Vestmannaeyjum sem vinna í málinu á fullu að það sé besti kosturinn og ekki eigi að fara aðrar leiðir.

Aðrir halda því fram að ná verði sátt um Bakkafjöruleiðina. Til að leiða þetta til lykta og ákveða hvaða leið við förum í framtíðarsamgöngum á milli lands og Vestmannaeyja þarf að ganga úr skugga um þetta með óyggjandi rannsóknum. Í samgönguáætluninni er ekkert fjallað um Vestmannaeyjagöng eða rannsóknir á þeim. En þar er sagt að fara eigi í Bakkafjöru og því skuli lokið fyrir árið 2010. Þetta verður að túlka sem dauðadóm yfir hugmyndinni um jarðgöng á milli lands og Vestmannaeyja. Hæstv. samgönguráðherra hlýtur að verða svara því skýrt hvert sé pólitískt stefnumið ríkisstjórnarinnar í því máli. Á að bíða með Bakkafjöru og höfn í Bakkafjöru þangað til rannsóknir hafa verið gerðar á möguleikum jarðganga á milli lands og Vestmannaeyja og tryggja fjármagn til þess? Eða markar þessi samgönguáætlun endalok hugmyndanna um göng á milli lands og Vestmannaeyja? Er þetta dauðadómur yfir þeirri hugmynd? Því hlýtur hæstv. samgönguráðherra að þurfa að svara skýrt á eftir. Mikill fjöldi fólks í Vestmannaeyjum, bæði þekktir athafnamenn úr Eyjum og margir aðrir, berjast fyrir því að það verði leitt til lykta með rannsóknum áður en tekin verður ákvörðun um annað. Samgönguáætlun er ákvörðun um höfn í Bakkafjöru.

Hæstv. ráðherra verður að koma skýrt fram með sjónarmið sín áður en samgöngunefnd hefst handa við að vinna að áætluninni í nefndinni. Þetta eru þeir kostir sem uppi eru. Það skiptir mjög miklu máli fyrir íbúa Vestmannaeyja og alla landsmenn að sjálfsögðu að þetta liggi fyrir. Óvissan er ómöguleg. Við verðum að fá þetta alveg skýrt fram í umræðunni.

Ég kom inn á það áðan að það er ánægjulegt að náðst hafi pólitískt sátt um það, bæði milli sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi og Vesturlandi, að það eigi að tvöfalda þar helstu samgönguleiðir. Umferðin hefur aukist gífurlega um þessa vegi. Ég er með tölur yfir umferðarþungann á Suðurlandsvegi sem hefur aukist um 30% á síðustu fjórum árum, um 100% tæplega á síðustu 10 árum og 10% á milli áranna 2005 og 2006.

Haldi þessi aukning áfram sem full ástæða er til að ætla, miðað við þann ánægjulega uppgang í mörgum byggðum þar, fer umferðin á Hellisheiði úr 6.500 bíla meðaldagsumferð í 8.500 meðaldagsumferð árið 2010. Við Geitháls úr 9.500 í 12.500 árið 2010. Við Ingólfsfjall, veginn á milli Hveragerðis og Selfoss, færi umferðin úr 7.000 bílum að meðaltali nú í 9.200 árið 2010.

Það blasir við að fullar forsendur eru fyrir því að fara þessa leið. Enda held ég að þegar upp er staðið sé mikið hagkvæmara að fara strax í 2+2 heldur en að bæta fjórðu akrein við 2+1 síðar. Um þetta er samstaða og þess vegna var það tekið út úr drögum að samgönguáætlun að fara ætti 2+1 leiðina. Það verður að túlka áætlunina til að fá út að fara eigi 2+2. Það verður að túlka tölurnar sem eru settar undir liðinn Sérstök fjármögnun þannig. Þar segir hvergi að það eigi að fara þessa leið.

En hæstv. ráðherra mun örugglega taka af öll tvímæli um það á eftir og eins um vafaatriði sem snúa að samgöngum milli lands og Vestmannaeyja, sem er eitt af stærstu verkefnum þjóðarinnar. Þetta er ekki bara ábati fyrir Vestmannaeyinga heldur og Íslendinga alla. Risastórt atvinnusvæði verður til o.s.frv. og gjörbreyting yrði á búsetuháttum í Vestmannaeyjum ef sú leið yrði farin að gera göng. En það er ekki hægt að taka ákvörðun um það fyrr en er búið að rannsaka að fullu hvort það sé tæknilega framkvæmanlegt og í öðru lagi hvort fjárhagslega mögulegt sé að ráðast í og réttlæta slíka fjárfestingu, að hún standi á pari við rekstur á Herjólfi á 30 árum, sem er um það bil líftími tveggja skipa upp á 20–24 milljarða kr. og hafnar í Bakkafjöru sem væri upp á 6–8 milljarða kr.