133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:06]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fróðlegt að heyra þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fer með tölur um umferð og reiknar sig niður að þeirri niðurstöðu að það beri að hafa tilteknar hönnunarforsendur fyrir vegagerð á Íslandi.

Mér varð hugsað til sögunnar um Sölva Helgason sem reiknaði, að hann taldi sjálfur, barn í konu og hann var svo snjall að hann reiknaði annað svart en hitt hvítt.

Umræður um svona hluti á Alþingi eru auðvitað afar sérstakar. Við höfum til staðar upplýsingar um umferð eins og hún er, við höfum til staðar spádóm um umferðarþróun og við höfum sérfræðinga til að taka á þessum málum og gera tillögur um hvernig umferðarmannvirki eigi að vera.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að það hljóti að vera algert einsdæmi að þingmenn fjalli á þennan hátt um hönnun mannvirkja. Ég bíð bara eftir að hér hefjist umræða um burðarálag á byggingar á höfuðborgarsvæðinu og kröfur um styrkleika á súlum, bitum og veggjum sem snýst um öryggi íbúanna í húsunum. Við erum náttúrlega komin út á mjög háskalegar brautir, að mér finnst.

Hvað varðar samgöngurnar við Vestmannaeyjar vil ég minna á að við gerum ráð fyrir 700 millj. kr. á hverju einasta ári í stuðning við samgöngur til Vestmannaeyja. Ég tel því að lögð sé eðlilega mjög mikil áhersla á að tryggja sem bestar samgöngur við Eyjar, og endurtek að samkvæmt samgönguáætluninni og samkvæmt fjárlögum þessa árs höfum við gert ráð fyrir rannsóknum við Bakkafjöru.