133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:08]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var sérkennilegt svar. Hæstv. ráðherra svaraði því engu hvort ætti að fara í 2+2 eða 2+1 enn einu sinni, fór að býsnast yfir því að ekki mætti tala um hönnun mannvirkja. Það er spurning um umferðaröryggi hvaða leið er farin, hvort skilið sé á milli akreina o.s.frv. Það er ekki spurning um hönnun mannvirkja heldur spurning um rök og ástæður fyrir því að réttlætanlegt sé að tvöfalda vegi. Þess vegna ræðum við um umferðarþunga o.s.frv. Það er ekki spurning um hönnun og verkfræði. Þetta er allt spurning um umferðaröryggi og rökin fyrir því að ráðast í svo risavaxnar framkvæmdir. Þess vegna bað ég hann að svara því alveg skýrt og undanbragðalaust af sinni hálfu hvort ekki mætti örugglega túlka áætlunina svo að fara eigi í 2+2 eða hvort hann héldi sig enn við 2+1 af því hann talaði þannig áðan.

Hitt með Vestmannaeyjasamgöngurnar þá hlýtur svar ráðherra að vera þannig að þetta séu endalok hugmynda um jarðgöng á milli lands og Vestmannaeyja. Það sé pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar af því að ráðherra hefur nú réttlætt það að Alþingi eigi ekki að koma að gerð samgönguáætlunar, nema þá í samgöngunefnd síðar. Þetta sé ákvörðun ríkisstjórnarinnar um endalok og dauðadóm yfir jarðgangahugmynd og búið sé að ákveða að fara Bakkafjöruhafnarkostinn áður en hitt hefur verið leitt til lykta með rannsóknum.

Það eru töluverð tíðindi fyrir ansi marga, skal ég segja ykkur, ef það er niðurstaða ráðherra, ég gat ekki túlkað svar hans öðruvísi. Hann hlýtur að svara þessum tveimur spurningum mínum alveg skýrt án þess að vera með undanbrögð og útúrsnúninga sem skipta engu máli í þessu. Þetta er bara spurning um skýr svör við mjög skýrum spurningum.