133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:14]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða mikilvægt mál, tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018. Það er sannarlega ástæða til að gera slíkar áætlanir en ég tel reyndar að þegar verið er að ræða um samgöngur þurfi menn að hafa til grundvallar sýn til lengri tíma en tólf ára. Ég tel að hægt sé að færa góð rök fyrir því að gerð hafi verið afdrifarík mistök í ákvörðunum um samgöngubætur vegna þess að menn hafi ekki horft til lengri tíma. Ég ætla að nefna tvö dæmi um það.

Í fyrsta lagi ætla ég að nefna Héðinsfjarðargöngin, ég hef svo sem gert það áður. Þau eru dæmi um að ekki er horft langt fram í tímann. Ef á samgönguáætlun hefðu verið framtíðaráform um samgönguleiðir milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar hefði á þeirri áætlun verið gert ráð fyrir göngum á milli þessara svæða, ég er ekki í vafa um það. Í framtíðinni munu menn ekki keyra upp í nærri 600 m hæð á fjallvegi jafnvel þótt hlýnun andrúmsloftsins haldi eitthvað áfram. Þau göng væru þá staðsett með það í huga að tengja byggðirnar skynsamlega því að þau væru átak til þess að styrkja byggð í landinu. Menn hefðu þurft að skoða þingsályktunartillögu okkar, sem við höfum ítrekað lagt fram, um samanburð á því hvar þjóðvegur 1 ætti að liggja, hvort hann ætti að liggja á því svæði eða þeim stað sem gert er ráð fyrir að hann sé núna eða um Þverárfjallsveg í gegnum Sauðárkrók og í gegnum Tröllaskaga einhvers staðar nálægt Hólum — heimamenn hafa látið skoða þann möguleika og er það nákvæmlega jafnlöng leið og þjóðvegur 1 yrði eftir þær styttingar sem um er að ræða. Munurinn yrði hins vegar sá að þá lægi hann áfram í gegnum Blönduós, hann lægi nær Skagaströnd, hann lægi í gegnum Skagafjörð og þannig lægi hann nær öllum þéttbýlisstöðunum sem um er að ræða á svæðinu og tengdi byggðirnar miklu betur saman. Ef þetta hefði verið á kortinu hefðu menn aldrei farið í Héðinsfjarðargöng, þá hefðu menn tengt Siglufjörð út í Fljót. Það er bara þannig.

Ég ætla að nefna annað dæmi. Þingmenn Vestfjarða komust að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fara norður, fara Ísafjarðardjúp og suður Strandir á sínum tíma. Ef menn hefðu horft svona 40 ár fram í tímann og velt fyrir sér hvernig væri nú best að tengja Vestfirði og þéttbýlið á Vestfjörðum suður á bóginn í átt til annarra mannabyggða, hvar hefðu menn þá farið? Auðvitað styttri leiðina að sunnanverðu og þá hefðu menn getað sparað sér gríðarlega fjármuni í því hvernig vegir hefðu verið lagðir um Ísafjarðardjúp og þær strjálu byggðir sem þar eru. Þetta er mín skoðun á málinu. Ég hef ekki neinn vísindalegan samanburð á því en það er einmitt það sem vantar. Það vantar að horft sé fram í tímann. Á áætlunum af þessu tagi á að vera framtíðarskipulag, landsskipulag þar sem menn horfa langt fram í tímann. Þetta þarf að bæta og þó svo að þessar áætlanir séu til bóta frá því sem áður var þurfa menn að horfast í augu við að þær eru ekki nægilega góðar. Það þarf að skoða þær mjög vel með tilliti til þess.

Ég ætla að nefna eitt dæmi í viðbót. Ég tók þátt í því sjálfur sem þingmaður á þessu svæði að taka ákvarðanir um að leggja veg yfir Bröttubrekku. Ég tel að það hafi verið mistök. Það hefði átt að leggja jarðgöng í gegnum Bröttubrekku. Þetta er hættulegur vegur, þetta er sá vegur sem menn munu nýta á allra næstu árum sem aðaltengingu frá Vestfjörðum og því svæði sem er fyrir norðan Bröttubrekku. Við horfðum einfaldlega ekki nógu langt fram í tímann þegar sú ákvörðun var tekin og munurinn á því kostnaðarlega að leggja veg og gera göng var ekki svo óskaplega mikill.

Áætlanir af þessu tagi hafa vissulega mikið gildi en gildi þeirra hríðfellur ef menn fara ekki eftir þeim. Sú ríkisstjórn sem hefur setið hér á undanförnum árum hefur ekki virt þær áætlanir sem hafa verið gerðar. Ítrekað hefur verið gengið í að skera þær niður. Nú er svo komið að menn trúa ekki þessum áætlunum, menn líta á þær sem óskalista, lista til að fara með í kosningar. Þá fara þingmenn að slást um að koma öllum mögulegum hlutum inn á þennan óskalista. Þeir standa sig ekki í sínu kjördæmi ef þeir eru ekki með á óskalistanum allt sem fólk vill fá á svæðið. Þessi hugsunarháttur hefur því miður gengisfellt þessar áætlanir.

Ég hef hlustað á margar ræður hæstv. samgönguráðherra um afrek í vegamálum. Ég er nú farinn að þreytast býsna mikið á þeim, ég get sagt það alveg eins og er. Það er einfaldlega vegna þess að það viðmið sem hæstv. ráðherra hefur þegar hann heldur þessar ræður um afrekin í vegamálum er tekið langt aftan úr forneskju. Þetta eru svona kerruslóðaviðmið. Miðað er við samgöngurnar eins og þær voru þegar við munum fyrst eftir okkur, ég og hæstv. ráðherra. Það er ekki nútíminn að taka slík viðmið, hver einasti vegspotti verður að afreki ef við berum hann saman við kerruslóðana sem farnir voru þegar við vorum að alast upp á Snæfellsnesinu. Það er ekki nútíminn.

Sannleikurinn er sá að þótt settir hafi verið fjármunir eins og raun ber vitni í vegi landsins á undanförnum árum höfum við verið að dragast aftur úr miðað við þær auknu þarfir sem komið hafa fram á tímabilinu. Við erum verr staddir hvað varðar ástand vegakerfisins, ef það er skoðað í því samhengi hvað kostar að koma því í viðunandi horf, en við vorum fyrir 16 árum þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórn þessara mála. Það er dapurlegt. Að öllu þessu samanlögðu hljóta menn að velta því fyrir sér hvort það sem stendur í þessari áætlun sé trúverðugt, þ.e. ef sömu aðilar og hafa haft ábyrgðina fram að þessu eiga að sjá um framkvæmdir.

Mér finnst hæstv. samgönguráðherra undirstrika það hvernig hann lítur sjálfur á viðskilnað sinn í viðtali sem er við hann í Morgunblaðinu í dag. Hæstv. samgönguráðherra birtist á miðopnu Morgunblaðsins, það er stór mynd af honum, fín mynd undir fyrirsögninni „Ísland verður gjörbreytt“.

Frá hverju verður Ísland gjörbreytt? Það verður gjörbreytt frá því ástandi sem hæstv. ráðherra skildi við. Það er umhugsunarefni að hæstv. ráðherra skuli birtast í Morgunblaðinu undir slíkri yfirskrift. En þegar maður les viðtalið sannast það að hæstv. ráðherra hefur í raun og veru sagt hluti sem gefa fullkomlega ástæðu til að hafa fyrirsögnina á þennan veg.

Hæstv. ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Ég er mjög hreykinn af því að hafa við gerð þessarar áætlunar fengið tækifæri til að marka nýja sýn á uppbyggingu samgöngukerfisins, sem er byggð á lögum um umhverfismat áætlana.“

Hæstv. ráðherra er að vísa til þess að nýir tímar séu fram undan, ný sýn á samgöngumálin.

Á öðrum stað segir hæstv. ráðherra:

„Það er rétt að þetta er metnaðarfull áætlun og ástæðan er sú að atvinnulífið og almenningur í landinu kalla á betri samgöngur. Ég tel að við Íslendingar höfum ekki efni á því að verja ekki fjármunum í uppbyggingu samgöngukerfisins. Ég er þeirrar skoðunar að núna sé komið að því að setja mikla fjármuni í samgöngumálin og að önnur verkefni verði að bíða.“

Þetta segir hæstv. samgönguráðherra og ég er sammála honum, en í þessu felst einmitt dómur um hans eigin verk.

Hæstv. ráðherra segir á öðrum stað:

„Núna tel ég að komið sé að því að uppbygging samgöngumannvirkjanna fái aukið rými og að hægja verði á öðrum framkvæmdum ef efnahagslífið krefst þess. Mér er það alveg ljóst að við verðum að gæta þess að stöðugleikinn haldist en ég lít svo á að bráðnauðsynlegt sé að hrinda þessari samgönguáætlun í framkvæmd vegna atvinnulífsins. Það er t.d. kvartað undan miklum flutningskostnaði. Ástæðan er sú að vegirnir þola ekki flutningabílana og við þurfum að grípa til þungatakmarkana. Þungir flutningabílar fara á milli landshluta með dagvörur sem ekki verður siglt með og þeir verða að sæta því að minnka magnið vegna öxulþungatakmarkana, sem leiðir til þess að einingaverðið í flutningunum hækkar. Það er algerlega óásættanlegt. Ég er því þeirrar skoðunar að atvinnulífið og almenningur í landinu þurfi á því að halda að við förum í þessar miklu framkvæmdir, sem eru í raun bylting í samgöngumálum.“

Hæstv. ráðherra situr í stóli samgönguráðherra í landinu og hann er að ljúka 16. ári Sjálfstæðisflokksins við stjórn þessara mála. Hann boðar byltingu í samgöngumálum, það er ekkert minna. Hæstv. ráðherra telur þörf á byltingu í samgöngumálum til að koma þessum málum í viðunandi horf.

Ég er honum algjörlega sammála um það. En það hlýtur að vera afar dapurlegt fyrir hæstv. samgönguráðherra eftir að hafa setið átta ár í þessum ráðherrastóli — og eftir önnur átta ár þar á undan með hæstv. fyrrv. samgönguráðherra sem nú hefur tekið sæti hér í þingsalnum — að það þurfi bókstaflega byltingu í samgöngumálum til að koma þeim í viðunandi horf. (Gripið fram í.) Svona er nú ástandið eins og hæstv. samgönguráðherra lýsir því og ég verð að viðurkenna að ég er honum algerlega sammála.

Mér líst nokkuð vel á samgönguáætlunina sem slíka. Það er þó margt í henni sem ég er ekki algerlega sammála og mér finnst síður en svo að verið sé að ganga harðar fram en nauðsyn er á. Allir Íslendingar eiga kröfu á því að búa við viðunandi samgöngur en það er svo langt frá því að þannig sé í pottinn búið núna. En því miður eru engin fyrirheit um það í áætluninni að á því tímabili sem hún gildir náist viðunandi niðurstaða fyrir alla. Það eru mörg dæmi um það og ég geri ráð fyrir því að ég fari yfir einhver af þeim í síðari ræðu minni eða þá í umræðum um fjögurra ára áætlunina sem við ræðum á eftir.

Mig langar til að eyða þeim stutta tíma sem ég á eftir af þessari ræðu í að tala um sérmál sem eru veggjöld og einkaframkvæmd. Hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir því að hægt sé að grípa til þeirra aðferða. Áður en menn halda áfram á þeirri braut þarf að kanna vandlega hver áhrif slík gjaldtaka hefur á byggðaþróun. Full ástæða er til að ætla að gjaldtakan í Hvalfjarðargöngunum hafi haft gríðarleg áhrif á byggðaþróun vegna þess mismunar sem við sjáum á byggðaþróun annars vegar í Borgarfirði og hins vegar fyrir austan fjall. Mikil uppbygging hefur orðið fyrir austan fjall, miklu hraðari og meiri en í Borgarfirði. Á því eru ekki viðunandi skýringar vegna þess að í Borgarfirði eru að mörgu leyti sambærilegar aðstæður og fyrir austan, og þar fyrir utan höfum við stóriðjusvæðið á Grundartanga og tvo háskóla sem hafa vaxið mjög hratt á þessu tímabili. Engu af þessu er til að dreifa fyrir austan fjall. Samt hefur uppbyggingin þar orðið miklu hraðari. Ég tel að skýringanna sé að leita í því gjaldi sem fólk hefur orðið að borga fyrir að fá að fara í gegnum Hvalfjarðargöngin.