133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er aldeilis ekki bannað að gera áætlanir. Mér finnst það hið besta mál. Mér finnst hins vegar þurfa að liggja fyrir langtímasýn á aðalsamgönguæðar og stærstu samgöngumannvirki lengra fram í tímann. Það þarf ekki endilega að vera áætlun sem byggist á að setja í það fjármuni o.s.frv. en það þarf slíka sýn til að ekki verði slys. Ég tel að orðið hafi skipulagsslys af þeim ástæðum sem ég nefndi.

Allt hefur sinn tíma, sagði hæstv. ráðherra og fór að draga úr því sem hann hafði sagt, sennilega til að koma okkur í skilning um að það væri ekki alveg að marka þegar hann notaði orðið byltingu um þá framtíð sem hann sér fyrir sér í áætluninni. Það er út af fyrir sig í lagi.

Auðvitað hefur orðið mikil framþróun en ég hef reynt að koma því á framfæri að mönnum hefur ekki lánast að horfast í augu við að kröfurnar um betra samgöngukerfi hafa vaxið hraðar, þörfin vaxið hraðar, en framkvæmdirnar hafa staðið undir.

Hæstv. ráðherra nefndi Hvalfjarðargöngin sem eitt af byltingartilefnunum. Það er kannski rétt að rifja upp að hæstv. ráðherra var aldeilis ekki baráttumaður fyrir þeim á sínum tíma. Ég man ekki betur en að þegar hann var bæjarstjóri í Stykkishólmi hafi hann fundið ýmislegt þeim til foráttu og að menn eyddu fjármunum í Hvalfjarðargöng og annað ætti að koma á undan. Það er kannski ástæða til að halda því til haga úr því að það var nefnt.