133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:36]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hygg að engum sem les samgönguáætlun blandist hugur um í hvaða kjördæmi samgönguráðherra býr, sem kannski mætti segja að hafi verið staðfest áðan þegar Jóhann Ársælsson lýsti yfir ánægju sinni yfir plagginu. Því miður þýðir þetta að samkeppnisráð ber ekki sama traust og maður hafði gert sér vonir um.

Ég vil byrja á að víkja tali mínu að leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ég var mikill áhugamaður um það, þegar ég var samgönguráðherra, að ljúka hringveginum. Í þeirri langtímaáætlun sem ég lagði fram 1998 var gert ráð fyrir að á öðru tímabili hennar yrði bæði lokið við hringveginn í Norðurárdal í Borgarfirði og eins í Skagafirði. Við vitum að unnið er að því að byggja hringveginn í Skagafirði, hann frestaðist að hluta til vegna deilna sem voru uppi milli sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar um veglínuna. En auðvitað hefði verið hægt að undirbúa þá framkvæmd betur og fyrr þannig að slíkur ágreiningur hefði ekki áhrif á verkhraðann. Ég fór einmitt þennan veg í Norðurárdal í gærkvöldi, í rigningu og myrkri, og mætti þar lest af þungaflutningabílum. Menn vita auðvitað hvernig það er.

Sömuleiðis getum við talað um Langadal. Á þessum hluta hringvegarins eru kaflar sem einungis eru 6,5 m á breidd og burður þessarar leiðar er ekki fullur, víða er vegurinn ekki nema 7,5 m, en auðvitað er vegurinn í þeim flokki vega sem á að vera 8,5 m. Ég vil af þeim ástæðum beina því til samgöngunefndar að hún athugi hvort ekki sé rétt að fram komi í nefndaráliti samgöngunefndar að styrkingum og endurbótum, þeim lið vegáætlunar, verði að verulegu leyti varið til að styrkja þessa leið á næstu árum þannig að vegurinn hafi hvarvetna fullan burð og einnig til þess að eyða þeim stöðum þar sem hann er ekki nema 6,5 m á breidd og fækka þeim stöðum þar sem hann er 7,5 m.

Ég hafði á sínum tíma mikinn áhuga á að stytta leiðina á milli Akureyrar og Reykjavíkur með því að vegur kæmi um Stórasand og var þá eftir atvikum hægt að stytta leiðina um 40–80 km. Þær tillögur fengu ekki hljómgrunn. Sumpart var það af byggðarlegum ástæðum, eins og sagt var. Húnvetningar voru hræddir um viðskiptin sem þeir hafa af hringveginum og sumpart vegna þess að náttúruverndarmenn, sérstaklega vinur minn, ritstjóri Morgunblaðsins, Styrmir Gunnarsson, fá alltaf svima þegar rætt er um að leggja góðan veg um hálendi Íslands. Í staðinn kom upp sú hugmynd að leggja veg um Kjöl. Samgönguráðherra sagðist ekki vilja leggja vegi um fjöll en var samt aðaldriffjöðrin í Þverárfjalli, sem er kannski þversum.

Nú er það svo að samgönguráðherra hefur haft forgöngu um að hefja lagningu bundins slitlags yfir Kjalveg. Það er ekki í þessari vegáætlun en í þeirri vegáætlun sem nú er í gildi er Kjalvegur sérstaklega merktur og fé veitt til að byggja þar upp veg samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins með bundnu slitlagi frá Gullfossi og norður á bóginn. Auðvitað hefur samgönguráðherra í huga hagsmuni Húnvetninga og þeirra á Blönduósi af ferðaþjónustu og öðru slíku, sem er ekki nema gott um að segja. Vinir mínir í Greiðri leið sögðu mér fagnandi fyrir þremur vikum, að mig minnir, að þeir ættu tvo góða stuðningsmenn, Ómar Ragnarsson og samgönguráðherra. En nú hef ég lesið í blöðunum að þeim fækkar, stuðningsmönnunum.

Þegar svo er komið að ekki er við því að búast að hægt verði að stytta leiðina með því að fara Kjöl eða Stórasand, með því að fara upp á fjöllin sem hæstv. samgönguráðherra er á móti, þá blasir við að rétt er að leita annarra leiða. Ég mun gera það frekar að umræðuefni þegar við komum að langtímaáætlun í vegamálum. Af því að ég vík talinu að leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur er einsýnt að leggja fram áætlun um að fara úr Langadal yfir á Svínvetningabraut. Það styttir leiðina um 16–17 km og kostar um einn milljarð. Vegagerðin og samgönguráðherra hafa þrásinnis lagt fram plögg á Alþingi og í blöðum um að þetta sé hagkvæmasta styttingin á þessari leið. Ef maður veltir fyrir sér hvort einn milljarður sé mikið fé þá getum við rifjað upp að Þverárfjall kostaði kannski 3 milljarða, ég hef ekki flett því upp, og styttir leiðina um 25 eða 27 km en auðvitað er ekki jafnmikil umferð um Þverárfjall eins og milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er því augljóst að hagkvæmt er að fara í þessa framkvæmd. Ég styð samgönguráðherra heils hugar í því að ráðast í þessa styttingu hringvegarins. Ég er algjörlega sammála hæstv. samgönguráðherra um að það sé nauðsynlegt.

Ég heyrði áðan á skjön að hv. þm. Jóhann Ársælsson var að tala um að hann ætlaði að fara alla þéttbýlisstaði á Norðurlandi vestra til að komast frá Akureyri til Reykjavíkur. Sumir gætu hugsað sér að það væru svolitlir útúrdúrar en má vera að það sé sérstakt áhugamál Samfylkingarinnar að leggja niður verslun og þjónustu í Varmahlíð.

Af því að ég var að tala um hringveginn er best að ljúka því. Við vitum að einu malarkaflarnir sem eftir eru á hringveginum eru á Austurlandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt mikinn áhuga á að ljúka hringveginum og um það hafa verið gerðar ályktanir á landsfundum síðustu fimm eða sex skipti eða 10–12 ár. Við höfum sett okkur markmið í þeim efnum sem ekki hefur verið staðið við. Ég hef skoðað hversu miklu fé hafi verið varið til að fækka malarköflunum á Austurlandi og varð satt að segja fyrir miklum vonbrigðum. Ég hef að þessu leyti aðrar áherslur en hæstv. samgönguráðherra.

Þegar takmarkað fé er til samgöngumála, sem mætti vera alldrjúgt ef það ætti að vera nægilegt til að mæta öllum óskum, þá verða menn að velja og hafna og gera sér grein fyrir því hvar ástæða sé til að hafa þungann í verkefninu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera metnaðarfyllri í því að ljúka hringveginum en þessi samgönguáætlun og langtímaáætlun í samgöngumálum bera með sér.

Áður en ég fer í einstaka vegi að öðru leyti, sem ég mun gera í síðari ræðu minni, vil ég víkja að því að við höfum lagt ríka og mjög mikla áherslu á að bæta og styrkja flugsamgöngur til Akureyrar og Egilsstaða. Til allrar hamingju hefur tekist að ná inn í sérstakri fjáröflun 570 millj. kr. á næstur tveimur árum, 2008 og 2009, til að lengja flugbraut og aðflugsbraut á Akureyrarflugvelli.

Ég las þetta kannski ekki nógu vel en ég athugaði hvort ég fyndi kafla um að nauðsynlegt væri að stækka flugstöðina á Akureyrarflugvelli en gat ekki fundið eitt einasta orð um að svo yrði gert næstu 12 árin. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt vegna þess að nú eru gerðar meiri kröfur en áður til aðbúnaðar í flugstöðvum og einnig til þess að ekki blandist saman farþegar í innanlandsflugi og farþegar í millilandaflugi. Af þeim sökum eru, bæði í Reykjavík og á Akureyri, margvísleg vandamál sem starfsmenn hins nýja hlutafélags og starfsmenn flugfélaganna eru önnum kafnir við að reyna að leysa.

Mér hefur verið sagt að Akureyri sé á gráu svæði vegna flugstöðvarinnar. Ég vil beina því til samgöngunefndar að kynna sér sérstaklega þá hlið málsins og hvort ekki sé nauðsynlegt að setja sér skýr markmið í uppbyggingu þessarar þjónustu á Akureyrarflugvelli. Við sjáum að það hefur verið gert í Reykjavík með nýju flugstöðinni hér en um leið rifjast upp að radarinn á Akureyrarflugvelli er kominn til ára sinna og nýtt tæki af því tagi gæti kostað um 200 millj. kr. Þessi mál eru í athugun en nauðsynlegt er að hið opinbera, samgönguyfirvöld, marki stefnu varðandi Akureyrarflugvöll og taki einnig fastar á í sambandi við flugvöllinn á Egilsstöðum.

Í framhaldinu mætti nefna nauðsyn þess að færa inn í samgönguáætlun komi fjármagn til þess að mæta þörfum Egilsstaðakaupstaðar fyrir að færa hringveginn þar. Eins og við vitum stækkar sá bær mjög ört og færslan er nauðsynleg. Við vitum, í sambandi við yfirlýsingu samgönguráðherra um álverið í Straumsvík, að reglurnar eru orðnar frjálslegri en áður um það hver skuli vera hlutur ríkisins ef hringvegur eða stofnbrautir eru færðar til. Færsla Keflavíkurvegar mun kosta 1,6 milljarða ef til nýs álvers kemur og fyrir liggur yfirlýsing um að það verði greitt úr ríkissjóði. Með sama hætti er sjálfgert að greiða út ríkissjóði fyrir breytingar vegna færslu hringvegarins á Egilsstöðum.