133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:53]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti.

Fer ég norður kaldan Kjöl,

kosta fárra átti völ.

Við mér taka vildi ei neinn,

var því nefndur Skugga-Sveinn.

Það er gaman að fara með skáldskap úr þessum stól. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, ég hef velt því fyrir mér hvernig hægt sé að stytta leiðir. Og það var einmitt það sem fyrir þeim vakti á Sauðárkróki þegar þeir vildu fara Þverárfjall. Það styttir leiðina til Reykjavíkur um 25 eða 27 kílómetra ef minni mitt er rétt og leiðina til Skagastrandar verulega.

Á hinn bóginn man ég eftir því þegar þeir á Blönduósi voru að berjast fyrir höfn. Þá töldu þeir að svo oft væri vont veður á þessari leið frá Skagaströnd og sérstaklega nálægt Blönduósi og því væri nauðsynlegt að hafa höfn á báðum stöðunum. Ekki væri hægt að treysta á landleiðina. Menn geta verið slungnir við að leggja fram ýmis rök. Einmitt á þeim tíma bauðst ég til að beita mér fyrir Þverárfjallsvegi ef ekki yrði farið í höfn á Blönduósi en því var ekki tekið.

Hugmyndir um jarðgöng til Skagafjarðar eru fullflóknar til að maður skilji hvað að baki liggur. Auðvitað mundi þvílík tilraun ekki borga sig. Vegurinn yrði lengri þannig. Þessar hugmyndir eru líklega settar fram frekar til gamans en í alvöru.