133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:56]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það voru ekki Akurnesingar sem börðust með mér fyrir göngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Það voru hins vegar menn sem sátu á Alþingi fyrir Norðurlandskjördæmi vestra. Ég hef svolítið gaman af því þegar sumir reyna að halda því fram að göngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, Héðinsfjarðargöng, séu fyrir allt Norðausturkjördæmi en ekki Norðvesturkjördæmi og það eigi því að hafa áhrif á hversu mikið fjármagn rennur til vegaframkvæmda á Norðausturlandi. Rökin eru þau að Héðinsfjarðargöng komi að meira gagni fyrir Austfirðinga, þá í Múlasýslum, en Skagfirðinga. En ætli það komi ekki í ljós að Skagfirðingar eiga oft erindi um Héðinsfjarðargöng og ætli þau verði ekki mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Norðausturlandi.