133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að þessu leyti er ég ekki ósammála hæstv. ráðherra. Ég er ekki að tala fyrir því að skattar verði lagðir á þungaflutninga, ég er að segja að það sé ein leið. Fyrir þeirri leið hefur m.a. verið talað í ýmsum fjölmiðlum og ég leyfi mér aftur að vísa í leiðaraskrif Morgunblaðsins sem hefur viljað fara þá … (Gripið fram í.) sem er mér hugleikin í blíðu og stríðu reyndar, því ég er að vitna í leiðara þar sem þessi mál hafa verið til umfjöllunar þar sem ég hef reyndar verið ósammála leiðarahöfundi. Við leggjum til aðra leið. Við erum að leggja til leið sem færir flutningskostnað almennt niður og við vekjum athygli á því að framlag til siglinga er sama eðlis, er sömu náttúru og framlög til vegagerðar. Það er nákvæmlega sami hluturinn. En það eru einhver trúarbragðaatriði, einhver kennisetning hjá hægri mönnum mörgum að kalla það niðurgreiðslu, það er niðurgreiðsla ef flutningarnir sjálfir eru styrktir. En hitt má gera, það má niðurgreiða og styðja landflutningana með vegagerð sem tekur við þungaumferðinni.

Aðeins til að leiðrétta þetta með flokksfélaga minn, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, þá er verið að vísa í frumvarp sem lýtur að Hvalfjarðargöngunum. Ég ætla bara að lesa eina litla setningu úr skýrslu Ríkisendurskoðunar frá síðasta vori og hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvalfjarðargöng geta hvorki talist hrein einkaframkvæmd í venjulegum skilningi þess orðs…“

Við erum að tala um allt aðra framkvæmd en ég þarf að skýra það aðeins betur út fyrir hæstv. ráðherra og bið því aftur um orðið í þessari umræðu þar sem ég mun fara sérstaklega í hugmyndir manna um einkaframkvæmd.