133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alltaf nokkur spenningur fyrir umræðunni um samgönguáætlun í þinginu og ekki að ófyrirsynju því að hún er eitt af stærstu málum þess. Þegar við fáum langtímaáætlun til umfjöllunar, sem í þessu tilfelli á að gilda til 2018, erum við að taka þátt í og leggja hönd á plóg við stefnumótun til framtíðar. Það er eðli málsins samkvæmt spennandi verkefni. Það hlýtur að vera í hugum okkar alþingismanna gefandi verk að skoða stefnumörkunina til framtíðar, móta framtíðina og hanna hana. Það er stór og veigamikill þáttur í starfi stjórnmálamannanna. Við erum í stjórnmálum vegna þess að við höfum framtíðarsýn, vegna þess að við höfum hugsjónir og ákveðnar langanir varðandi framtíðina. Samgönguáætlunin er ein af þessum stóru og mikilvægu áætlunum sem hér eru gerðar og fara í gegnum veigamikla umræðu í þinginu, er ein af þeim grunnáætlunum sem við stýrum samfélagi okkar eftir.

Í þessu tilfelli erum við með samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018 á þykku og miklu þingskjali og eins og fram hefur komið í umræðunni er hér vikið að mörgum veigamiklum atriðum. Samgönguáætlunin leggur áherslu á fimm meginmarkmið eins og vikið hefur verið að. Fyrsta markmiðið, og maður skyldi ætla að raðað væri í forgangsröð út frá sjónarhóli hæstv. samgönguráðherra og þessarar ríkisstjórnar, er um greiðari samgöngur, þ.e. aukinn hreyfanleika í samgöngukerfinu almennt. Í annað sæti setja menn markmiðið um hagkvæmni í rekstri og uppbyggingu samgangna, í þriðja sæti markmiðið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur, í það fjórða markmiðið um öryggi í samgöngum og í því fimmta er markmiðið um jákvæða byggðaþróun. Hér er um veigamikla þætti að ræða sem í samspili ættu að taka á öllum þáttum samgangna. Vandinn við að útfæra áætlun af þessu tagi er auðvitað sá að tryggja að enginn einn þáttur af þessum fimm verði öðrum yfirsterkari. Kúnstin er að tryggja jafnvægi á milli þessara þátta.

Ég hef ég ekki lesið þingskjalið frá orði til orðs en ég er búin að renna vel yfir það og þá fer ekki hjá því, kannski vegna áhuga míns og vegna þess hvernig við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði mörkum okkar framtíðarsýn og stefnumótun, að ég leita sérstaklega eftir því hvernig hæstv. samgönguráðherra og þessi samgönguáætlun gera ráð fyrir sjálfbærri þróun í samgöngum og hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að tryggja að samgöngur hér geti þróast með sjálfbærari hætti en verið hefur á undanförnum árum. Þá kemur í ljós ákveðinn galli á gjöf Njarðar eða öllu heldur hve flókið er að innleiða þessa nýju hugmyndafræði. Í samgönguáætluninni er að mínu mati allt of mikið vægi á hagkvæmni hlutanna og það hvað sé hvetjandi út frá hinu peningalega og efnahagslega sjónarmiði. Það hefur meira vægi en hitt atriðið sem er að draga úr áhrifunum á umhverfið. Nú er ég ekki í sjálfu sér að segja að hér sé allt alvont, síður en svo, því að hér er í fyrsta skipti reynt að flétta þessa þætti saman og það viðurkennt að sjálfbær þróun er grundvöllurinn undir þau skref sem við þurfum að stíga í samgöngumálum í náinni framtíð alveg eins og í öllum öðrum málum í samfélaginu.

Þegar við ætlum að fara að feta braut sjálfbærrar þróunar verðum við að átta okkur á því að þessir þrír þættir sem hún er ofin saman úr, þ.e. sá efnahagslegi, umhverfislegi og samfélagslegi, verða allir að hafa nákvæmlega sama vægið, enginn má yfirskyggja annan. (HBl: Umhverfisvægið er nú mest.) Umhverfisvægið er nú mest, segir hv. þm. Halldór Blöndal. Já, já, það kann að vera að í mínum huga sé það mest en ég er að reyna eftir fremsta megni að taka hina þættina inn og láta þá vega að sama skapi þungt. Í öllu falli læt ég ekki hagkvæmnina ráða. Í samgönguáætluninni er vitnað á fleiri en einum stað til stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun fram til 2020 og í ritið sem við þingmenn þekkjum ágætlega, Velferð til framtíðar, en í því riti eru ákveðnar hugsanavillur í þessu efni og mér hefur fundist sem þær villur, þ.e. hve þungt hagkvæmniþátturinn vegur, elti ríkisstjórnina inn í þetta plagg.

Hér er verk að vinna í þessu efni, að tryggja að umhverfisþátturinn sé ekki í skugga hagkvæmniþáttarins. Ég skýri þetta kannski aðeins nánar með því að líta á þau atriði sem talin eru upp þegar menn gera grein fyrir markmiðinu um umhverfislega sjálfbærar samgöngur. Í tillögutextanum á bls. 2 segir, með leyfi forseta:

„Stefnt skal að sjálfbærum samgöngum, en það merkir að

a. notkun á endurnýjanlegum auðlindum sé undir endurnýjunarhraða þeirra og

b. að ekki sé gengið hraðar á óendurnýjanlegar auðlindir en svo að mögulegt sé að þróa og skipta yfir í endurnýjanlegar auðlindir.“

Svo kemur textinn í framhaldinu sem segir að markmiðið sé í samræmi við alþjóðlega stefnumörkun og það taki til þess að umhverfisáhrifum samgangna, hnattrænum, svæðisbundnum og staðbundnum, verði haldið innan ásættanlegra marka án þess að sérstaklega sé skilgreint hver þau séu. Það er getið um að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda með minni notkun jarðefnaeldsneytis. Talað er um að stefnt skuli að því að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum auk orkusparandi aðgerða við farartæki sem eru og verða fyrir hendi í landinu eins fljótt og kostur er og hagkvæmt þyki. Nú rekum við okkur á það að orka sem framleidd er af endurnýjanlegum orkugjöfum er orkan sem við viljum að taki við af jarðefnaeldsneytinu en þá verðum við líka að átta okkur á því að það er kannski ekki allt eins gott í þeim efnum heldur. Þar þurfum við að skoða gaumgæfilega hvað við erum að tala um.

Við sitjum á Alþingi Íslendinga sem fyrir tveimur árum felldi niður gjöld af pallbílum sem menn kaupa í auknum mæli til einkanota. Þessir bílar eru með gríðarlega aflmiklar vélar, skelfilega þungir og stórir bílar sem menn eru farnir að nota eins og jeppa. Þeir eru stærri en stóru jepparnir og við lækkuðum gjöld af þessum bifreiðum. Ég sem þingmaður flokks sem reynir að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og setur umhverfismálin í forgrunn hef rembst við að vinna þingmál í allan vetur þar sem ég hef reynt að afla upplýsinga úr fjármálaráðuneytinu, innan úr kerfinu, sem gera mér kleift að flytja þingmál þar sem við mundum vinda ofan af þessari vitleysu, þar sem við gætum tryggt að á stóru pallbílana yrðu lögð aftur full gjöld, vörugjald, tolla og bifreiðagjöld í samræmi við það hvað þeir eru neikvæðir út frá umhverfislegum sjónarmiðum. Það hefur ekki verið heiglum hent að ná þessum upplýsingum út úr kerfinu. Þó svo að fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið hafi yfir þessum upplýsingum að ráða og búi yfir þeim er staðan enn sú að pallbílarnir eru fluttir inn á þann hátt að menn geta mjög auðveldlega fengið þá ódýrari en eðlilegt gæti talist ef við ætlum í alvöru í vegferð til sjálfbærra samgangna.

Í tillögutextanum er talað um að markmiðin eigi að taka mið af Kyoto-sáttmálanum um losun gróðurhúsalofttegunda sem Ísland hefur staðfest. Mér þykir miður að sjá í þessari samgönguáætlun eingöngu talað um Kyoto-sáttmálann en ekki loftslagssamninginn. Samkvæmt Kyoto-bókuninni fengu Íslendingar endalausar heimildir umfram aðrar þjóðir til að losa gróðurhúsalofttegundir. Við vorum eina þjóðin sem fékk heimild til auka losun okkar um 10% miðað við viðmiðunarárið 1990 á sama tíma og krafa var sett á aðrar þjóðir um að draga úr losun. Við fengum aukningu. Þar að auki fengum við stóriðjuákvæðið upp á 1.600 þús. tonn frá stóriðju án þess að það kæmi inn í losunarbókhald þjóðarinnar.

Við erum að tala hér um Kyoto-sáttmálann sem mér finnst vera miður, við ættum að vera að tala um loftslagssamninginn. Samkvæmt loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna sem gerður var í Ríó 1992 erum við beinlínis skuldbundin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en samkvæmt þeirri áætlun sem hér er til umfjöllunar er ekki annað að sjá en að menn þykist ætla að láta losunina frá bílaumferð verða minni en aukningu bifreiðanna. Menn tala eingöngu um það hér að það eigi að beita breyttri tækni, nýrri tækni, til að minnka losunina en það er ekki farið inn á þá braut sem ég hefði viljað sjá hér og ég tel vera meginstoðina í sjálfbærum samgöngum, þ.e. inn á braut öflugra almenningssamgangna og að auka veg hjólandi og gangandi vegfarenda í umferðinni. Þar finnst mér pottur brotinn hvað varðar þessa áætlun.

Hæstv. samgönguráðherra hefur lagt fram á Alþingi og mælt fyrir frumvarpi til vegalaga. Í 27. gr. þess frumvarps er fjallað um að heimilt sé í samgönguáætlun að veita fé til almennra hjólreiða- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skal að höfðu samráði við sveitarfélög. Þetta er nýmæli í stefnu núverandi ríkisstjórnar og, virðulegi forseti, ég fagna því og tel þetta að hluta til árangur af starfi sem hefur verið unnið hér í þingsölum, m.a. að mínu frumkvæði þar sem ég hef ár eftir ár flutt tillögu til þingsályktunar um að koma hjólreiðastígum inn í vegalög, skilgreina þá þar og auka veg þeirra til mikilla muna. Ásamt mér flytja þessa tillögu fulltrúar úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum og allir sem flytja tillöguna með mér eru úr umhverfisnefnd Alþingis. Ég hef talað fyrir tillögunni á einum þremur eða fjórum þingum og núna finnst mér eins og ég eygi ákveðinn árangur af þeirri baráttu með því að sjá hæstv. samgönguráðherra leggja fram vegalög þar sem gert er ráð fyrir að heimilt sé að veita fé til almennra hjólreiða- og göngustíga. Ég fagna því að svo langt skuli komið þó að mér finnist að fara hefði mátt lengra út í að útfæra hugmyndina í frumvarpi til vegalaga. Svo sakna ég þess að þessi veigamikli þáttur hafi ekki meira rými í samgönguáætluninni því að þetta er eitt af meginatriðunum. Ef við ætlum í alvöru að stunda sjálfbærar samgöngur verðum við að auka hlut almenningssamgangna í umferðinni aftur. Við höfum dregið markvisst úr hlut almenningssamgangna þegar við skoðum samgöngur í dreifbýli, samgöngur milli þéttbýlisins á suðvesturhorninu og dreifbýlisins. Það eru allir hættir að taka rútuna norður, menn gera kröfur um að fá að skutlast yfir Kjöl og einhverja fjallvegi til að ferðin taki sem stystan tíma. Svo ferðast menn venjulega einn eða tveir í bílum og það engum venjulegum bílum, stórum bensínhákum sem samrýmast ekki þeirri hugmyndafræði sem ríkisstjórnin lætur núna í veðri vaka að hún vilji taka upp.

Ríkisstjórnin verður að átta sig á því að ef við ætlum í alvöru að stíga þessi skref til sjálfbærra samgangna verðum við að vera sjálfum okkur samkvæm og viðurkenna að meginþættirnir í sjálfbærum samgöngum eru þeir að koma fleira fólki í færri ökutæki. Það gerum við með almenningsvögnum, með rútubílum, með því að auka veg hjólreiða og með því að ganga. Hæstv. samgönguráðherra á að vera kyndilberi í þessum efnum. Kyndillinn er við fótskör hans en hann á eftir að kveikja á honum og hefja hann til vegs, lyfta honum hátt á loft. Hann fengi okkur í Vinstri grænum öll í halarófuna og fullt af fólki sem bíður eftir því að ábyrgðarfull, stór og afdrifarík skref verði tekin í þessa veru. Ég brýni hæstv. samgönguráðherra til að ganga lengra en sú samgönguáætlun (Forseti hringir.) sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir.