133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:54]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó sérstaklega eftir því að hv. þingmaður Vinstri grænna talaði um að það væri allt í lagi að fara í virkjanir ef orkan yrði nýtt til að framleiða t.d. rafmagn vegna rafmagnsfarartækja eða rafmagnsjárnbrautalesta eða hvað við köllum það. Það er merkilegt út af fyrir sig.

Í upphafi ræðu sinnar, þegar hún vitnaði í tillögu til þingsályktunar, las hún upp úr kafla 1.3, Markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur, og vísaði í a og b-lið þeirrar greinar. Síðan varð lesturinn ekki lengri. Rétt er að benda hv. þingmanni á að á bls. 3 í þessari gagnmerku tillögu til þingsályktunar segir svo, með leyfi forseta, í b-lið:

„Skattlagning eignarhalds og notkunar bíla svo að neyslugrannir bílar, tvinnbílar, bílar sem nota vistvænt eldsneyti og bílar sem nota gasolíu sem eldsneyti verði fýsilegri kostur en nú er.“

Þarna er stigið verulegt spor í þessari framsæknu tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun. Það er því horft til margra átta hvað þetta varðar. Ég bendi líka á það sem fram hefur komið í umræðum að í fyrsta skipti er sérstaklega getið um göngustíga og hjólreiðastíga sem hv. þingmaður hefur oft talað um. Ég er sannfærður um að það er Vinstri grænum mikið fagnaðarefni. Mér sýnist því að það sé að verða alveg omvent við það sem þingmaðurinn sagði áðan, að líklega verði þau í halarófu á eftir Sjálfstæðisflokknum eftir að hafa lesið þingsályktunartillöguna vel.