133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, leiðirnar til aðgerða til að ná markmiðum um sjálfbærni í samgöngunum, það er mjög margt þar sem má taka undir. Ég fagna sannarlega, og gerði það í ræðu minni, þeirri áherslubreytingu sem er að verða í málflutningi samgönguráðherra varðandi hjólreiðastígana. Ég fagna því, og ég meina það af einlægni, að það er að verða breyting. Við verðum líka að tryggja að hún risti nægilega djúpt til að hægt sé að segja að við séum sjálfum okkur samkvæm.

Í textanum, sem hv. þingmaður vitnaði til, segir að í lok áætlunartímabilsins, 2018, verði notkun vistvæns eldsneytis 20% af heildarnotkun í samgöngum. En það segir ekkert um það að á næstu 10–20 árum verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum um 20 eða 30% eins og Evrópusambandið stefnir að. Evrópusambandið setur ýtrustu kröfur núna við 30% á næstu 20 árum sem þeir ætla að draga úr losun frá samgöngum. Hér er ekkert slíkt markmið. Við erum því ekki að stíga þau skref sem nágrannaþjóðir okkar eru að stíga þó svo að við séum að fikra okkur í áttina að þeim.

Ég fagna þeirri breytingu sem er komin á þennan pappír. Ég fagna þeim nýmælum sem hér eru frá fyrri samgönguáætlunum, en eins og ég segi: Við þurfum að gera betur, stíga stærri skref, tryggja að þau risti dýpra þannig að hægt sé að segja að við séum algerlega sjálfum okkur samkvæm.