133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[21:02]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er kannski rétt að bæta aðeins í þessi orðaskipti sem var að ljúka núna. Hvorki hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir né hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson mundu eftir því að á haustdögum var flutt mál um það að gefa eftir sérstaka tolla og ýmsar álögur á innflutning á bílum sem nota aðra orkugjafa en bensín. Og hvað? Stjórnarandstaðan lagði til að það tímabil sem heimildin átti að ná til yrði lengt til þess að fólk sem var að kaupa sér bíla hefði tryggingu fyrir því að þetta gilti einhver ár fram í tímann. Svo koma menn og flytja samgönguáætlun og hreykja sér af einhverri stefnumótun. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson. Það var fellt af stjórnarliðum að móta stefnu næstu þrjú árin þannig að fólk gæti gengið að því sem vísu að þetta gilti einhvern tíma. Menn gætu sem sagt farið að kaupa sér rafmagnsbíl eða tvinnbíl og þess vegna endurnýjað hann eftir ár ef þeim líkaði hann vel, eða tvö ár. Ekki var tekið undir þessa stefnumótun stjórnarandstöðunnar þá, að lengja þetta tímabil. Ég vil minna á þetta af því menn voru að tala um að þeir væru að móta stefnu fyrir framtíðina varðandi mengunarmál. Menn þurfa að muna frá desember til loka febrúar hvað var gert í þessum sal.

Hæstv. forseti. Ég held nú seinni ræðu mína um þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018. Ég fór áður nokkrum orðum um að ég teldi að leggja ætti meiri áherslu á jarðgangagerð þar sem því yrði viðkomið, vegna þess að með gerð jarðganga værum við yfirleitt að velja leiðir sem yrðu til mikillar styttingar vegalengda á milli staða. Fyrir utan það að reynsla okkar af jarðgöngum, hvort sem það eru Hvalfjarðargöng, Ólafsfjarðargöng, Vestfjarðagöng, núna Almannaskarð, Strákagöng, Fáskrúðsfjarðargöng, er á einn veg. Þau eru mjög öruggar akstursleiðir. Þau skapa umferðaröryggi. Þau teppast ekki af snjó- eða skriðuföllum eða veðurfari. Leiðirnar að þeim gera það vissulega í sumum tilfellum. Þar eru Norðfjarðargöngin nærtækust enda í mjög mikilli hæð yfir sjó.

Það hefur verið sérstakt áhugamál okkar í Frjálslynda flokknum að menn tækju hraðari skref varðandi jarðgangaáætlun, settu fram verkþætti og gengju hraðar til þeirra verka að gera þau jarðgöng á Íslandi sem við þurfum að gera til að ná varanlegum samgöngubótum. Við höfum reynsluna. Við erum búin að sjá að viðhaldskostnaður í jarðgöngum, eins og Vestfjarðagöngum og Hvalfjarðargöngum, er ótrúlega lítill ef miðað er við aðra vegaspotta, t.d. Óshlíðina, þar sem viðhaldskostnaður er 900 millj. kr. á nokkrum árum. Þess má geta að viðhaldskostnaður í Vestfjarðagöngum — nú veit ég að hv. þm. Halldór Blöndal leggur við hlustirnar, við vorum saman við opnunina hér um árið — er 82 millj. kr. síðan þau voru opnuð.

Það er ekki verið að tala um neina smáaura, hæstv. forseti, þegar við veltum því fyrir okkur hvort lausnir eru hagkvæmar. Þegar búið er að gera slíkar leiðir, og það veit ég að Akureyringar eiga eftir að upplifa þegar þeir fá göngin undir Vaðlaheiði, finna menn líka að verið er að gjörbreyta samgöngum á viðkomandi landsvæðum, samskiptum fólks og öllu félagsstarfi, ég tala nú ekki um aðgengi að þjónustu. Slíkar samgöngubætur styrkja hinar dreifðu byggðir sem þá færast með örskotsshraða nær þéttbýlisstöðunum og menn eiga miklu betra með að nýta sér alla þjónustu.

Ég sagði það í fyrri ræðu minni í dag að vissulega væru nokkrir staðir á landinu sem þyrftu meira á þessu að halda en aðrir. Ég nefndi fjöllótt landslag Vestfjarða í því sambandi. Ég nefndi fjöllótt landslag Austfjarða. Norðausturhornið. Ég nefni Vaðlaheiði sem dæmi um framkvæmd sem örugglega mun skila miklum arði. Ég hef líka nefnt, og að því hefur beinlínis verið vikið í flutningi sérstaks máls um stefnu í láglendisvegum, sem Frjálslyndi flokkurinn hefur flutt þrjú ár í röð, að það væri afar góð leið til framtíðar litið að gera jarðgöng undir Kollafjarðarheiði í Djúpi og komast þannig á láglendisvegi frá norðurhluta Vestfjarða inn á hringveginn og til Reykjavíkur. (Gripið fram í: Hvaða …) Það fer eftir því hversu vel menn nýta dalbotnana.

Í fyrsta lagi er það Múladalur sem á eftir að nýta. Síðan er hægt að nýta Austurárdal sem gengur inn úr Múladal og síðan er hægt að nota botninn á Fjarðarhornsdal á móti í Kollafirði. Ef það væri nýtt alveg að fullu, og við erum að tala um göng í 200–250 metra hæð yfir sjó, værum við sennilega að tala um fimm kílómetra göng. En þetta þurfa menn að rannsaka, bæði út frá jarð- og snjóalögum, hvar gangamunnar eiga að vera á svona svæði. En ég hygg að þegar menn sjá þverunina yfir Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð, og hina örstuttu akstursleið sem þá verður vestur í Kollafjörð, muni mörgum svíða í Djúpi, þegar þeir eru hinum megin við Kollafjarðarheiðina, komnir á láglendisvegi inn í botninn á Ísafjarðardjúpi en eiga þá eftir að keyra út allan Ísafjörð til að fara yfir Steingrímsfjarðarheiði og þá ef til vill vonandi, ef sú leið verður komin, að fara yfir Arnkötludal og aftur yfir í Dali í stað þess að geta jafnvel farið undir Kollafjarðarheiði á tiltölulega skömmum tíma. Við erum að tala um verulega styttingu.

En ég hef sagt, hæstv. forseti, að þetta kemur ekki til framkvæmda fyrr en búið er að tengja Dýrafjörð og Arnarfjörð með jarðgöngum. Það er alveg frumskilyrði að ná saman byggðinni á Vestfjörðum í eitt þjónustu- og samgöngusvæði. Menn verða að horfa á það sem markmið að klára það áður en menn fara að hugsa til annarra hluta. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað sjá að byrjunin á Dýrafjarðargöngunum væri á tímabilinu 2007–2010, en ekki eftir 2011.

Þetta voru ábendingar um stefnuna almennt varðandi jarðgangagerð. Við skulum líka horfa til umferðaröryggis. Ég held að ég muni það rétt að ekkert alvarlegt slys hafi orðið í Hvalfjarðargöngunum. Ég held ég muni það líka rétt að ekkert alvarlegt slys hafi orðið í Vestfjarðagöngunum. Ég hygg að engin alvarleg slys hafi orðið í göngunum undir Almannaskarð og væntanlega verða þau ekki heldur í Fáskrúðsfjarðargöngum. Í tvíbreiðum göngum, sem væntanlega verða lögð í framtíðinni, þó það hafi ekki verið að öllu leyti í Vestfjarðagöngunum, hygg ég að við séum að bæta umferðaröryggið geysilega mikið.

Það er líka verið að draga úr viðhaldi miðað við það sem áður var. Við erum að stytta ferðatímann og við erum að minnka eldsneytisnotkun. Allt þetta fáum við með tengingu byggðanna. Ekki er vanþörf á því að fjöldamargar byggðir eiga undir högg að sækja. Í nýlegri samantekt um mannfjölda og byggðaþróun á Íslandi 1997–2006 er kort sem sýnir hin svörtu svæði. Hin svörtu svæði þar sem meira en 10% fækkun íbúa hefur átt sér stað á því tímabili. Það er norðausturhornið austan Akureyrar og alveg til Vopnafjarðar. Það er Norðvesturland, vestan Skagafjarðar. Það eru Vestfirðirnir nánast allir og Dalir og vestur á Snæfellsnes. Síðan er það austurhluti Suðurlands allt til Austfjarða, norður fyrir Breiðdalsvík að minnsta kosti.

Þetta er það sem við horfum á og við vitum það vel. Þó að ýmislegt annað hafi áhrif á byggðaþróun en góðar samgöngur hafa þær áhrif á viðhorf manna til hinna einstöku byggða. Það er einfaldlega þannig að almennt fækkar fólki í þessum byggðakjörnum nema á höfuðborgarsvæðinu og í nálægum byggðum, þ.e. frá Þjórsá og í Borgarfjörð, eins og segir í skýrslunni. Bent er á að vegna sérstakra aðstæðna á Austurlandi er í þremur sveitarfélögum, Fljótsdalshreppi, Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð, mikill fjöldi erlendra verkamanna um þessar mundir. Þeim mun væntanlega fækka allverulega þegar framkvæmdum lýkur þó vissulega muni eitthvað af því fólki sem hefur kynnst Íslandi vilja setjast hér að.

Þannig er það, hæstv. forseti. Hæstv. samgönguráðherra sagði í dag að ekki ætti að hefja framkvæmdir við jarðgöng hverja á eftir annarri heldur væru sumar af þessum framkvæmdum á sama tímabilinu. Það kann að vera rétt eins og þetta er uppsett hér í áætluninni, a.m.k. að því er varðar Austfirði. Gert er ráð fyrir að vinna við Norðfjarðargöng og Lónsheiðargöng geti hafist á sama tímabilinu, það er á tímabilinu 2011–2014. En ef maður hins vegar les viðtal við hæstv. samgönguráðherra í Morgunblaðinu í dag þá raðar hann, með leyfi forseta, þessu upp með eftirfarandi hætti:

„Að sögn Sturlu verður röð jarðgangagerðar á næstu árum þessi: Bolungarvíkurgöngin eru næst á dagskrá og í beinu framhaldi af Héðinsfjarðargöngum kemur að gerð jarðganga til Norðfjarðar. En þau verða boðin út árið 2009. Jarðgöng á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verða boðin út í beinu framhaldi af gerð jarðganga um Óshlíð. Þessi fjögur verkefni verða því í samfelldri röð og þar á eftir eru svo fyrirhuguð göng undir Lónsheiði.“

Ef maður les í þessi orð er hugsun ráðherrans, hvernig svo sem hlutirnir eru settir fram í samgönguáætlun, sú að þessi útboð og vinnsla og verkþættir hefjist hver á eftir öðrum. Þetta eru hans eigin orð í viðtali við Morgunblaðið. Varla platar ráðherrann Morgunblaðið og varla hefur Morgunblaðið rangt eftir ráðherranum.

Síðan er vikið að Sundabraut, sem vissulega er nauðsynleg, og Vaðlaheiðargöngum. Einnig er minnst á göng undir Öskjuhlíð, sem ég ræddi örlítið um í dag í sambandi við samgöngumiðstöðina. En þannig er þetta.

Ég hefði talið, hæstv. forseti, út frá þeirri reynslu sem við búum að af jarðgöngum, að við ættum að hafa áfanga í gerð jarðganga hraðari. Aðrar þjóðir sem lifa í hálendi, Færeyingar, Norðmenn, völdu þessa leið til að leysa samgöngumálin. Við þurfum ekki endalaust að bíða eftir því að læra af sjálfum okkur. Við getum horft á hvað aðrir hafa gert og hvernig þeir hafa leyst sín samgöngumál. Við höfum séð það af reynslunni af jarðgöngum hér á landi að þau eru tvímælalaust ein öruggasta leiðin fyrir utan að þau ná yfirleitt fram mestri styttingu á milli staða. Ég veit að ég þarf ekki að kenna þeim þingmönnum sem eru í salnum neitt um það, þeir þekkja það jafn vel og ég.

Ég ætlaði að ræða margt fleira. Ég ætlaði m.a. að víkja að strandsiglingunum. En það er nú með þennan blessaða tíma, hann æðir áfram. Við í Frjálslynda flokknum, sá er hér stendur og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, höfum verið samflutningsmenn félaga okkar í Vinstri grænum um að styðja það að tekin verði upp sú aðferð að bjóða út ákveðnar leiðir með ríkisstyrk þar sem strandsiglingar verði hafnar á nýjan leik. Við leggjum þetta til til að minnka álagið á þjóðvegunum og reyna eftir fremsta megni að koma þeim flutningum sem ekki beinlínis þurfa að vera á vegakerfi landsins um borð í skipin á nýjan leik. Þá erum við helst að tala um ýmsa þungavöru o.s.frv. Maður er nú þegar farinn að sjá að farið er að keyra bensín og olíu eftir öllu þjóðvegakerfi landsins, frá Reykjavík og jafnvel til Vestfjarða, og sement er verið að keyra þá sömu leið.

Hæstv. forseti. Á þjóðvegunum er margt á ferðinni sem gæti verið um borð í skipum, og þyrfti ekki að kosta mikið að styrkja slíka flutninga og koma þeim á á nýjan leik. Það þarf samt að bjóða út einhverjar flutningsleiðir. Tíma mínum er lokið og lýk ég máli mínu í bili.