133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[21:17]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski tvennt sem vakti athygli mína fyrst og fremst í ræðu hv. þingmanns, annars vegar sú áhersla sem hv. þingmaður lagði á jarðgöng í fyrsta lagi frá Dýrafirði í Arnarfjörð og hins vegar úr Djúpi undir Kollafjörð. Hann hefur hér, ef ég man rétt, flutt sennilega þingsályktunartillögu frekar en fyrirspurn um jarðgöng úr Arnardal, má ég segja, til Súðavíkur og rökstuddi hana með því hversu hættulegur sá vegur væri. Jafnframt hafa verið fluttar hér tillögur og fyrirspurnir um jarðgöng undir Bröttubrekku. Það er greinilega ýmislegt eftir og veitir ekki af að veita mikla peninga til Vestfjarða til að koma þessu öllu í höfn svo að um það eruð þið sammála, þú og hæstv. samgönguráðherra, að mæta þurfi þessum miklu kröfum.

Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að jarðgöng eru mikil samgöngubót enda hef ég mjög verið gagnrýndur fyrir þá áherslu sem ég lagði á að halda Siglufirði í byggð.

Ég spyr hv. þingmann um Héðinsfjarðargöng, hvort hann hugsi sér að verja eins miklu fé og þarf til að strandflutningar hefjist á ný með skipum eða hefur hann hugsað sér að það verði að takmarka styrkinn miðað við einhverja viðmiðun sem hann hefur í huga.