133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[21:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma enn frekar inn á varðandi þessa langtímasamgönguáætlun, um sértækari atriði þó að þær grunnlínur og sú stefnumörkun sem verið er að taka í samgöngumálum í sjálfu sér þegar við fjöllum um þessa langtímaáætlum séu náttúrlega fyrst og fremst til umræðu.

Ég vil fyrst gera hér að umræðuefni hversu brýnt það er að ráðast í stórátak, raunverulegt stórátak í samgöngumálum í landinu. Samgöngur hafa verið sveltar. Þessi málaflokkur hefur verið sveltur miðað við þá gríðarlegu vaxandi þörf sem hefur stöðugt þrýst á varðandi samgöngur.

Ekki aðeins hefur litlu fjármagni verið varið til samgangna á síðustu árum heldur hafa samgöngur og vegaframkvæmdir verið notaðar til að skera niður og hagræða niðurstöðutölum í fjárlögum hjá þessari ríkisstjórn, einmitt gengið á samgöngurnar og þá ekki síst úti um land.

Allt hefur þetta verið gert ekki síst af þeim ástæðum að ríkisstjórnin hefur lagt ofuráherslu á stóriðju, álbræðslur og stórvirkjanir. Öllu skyldi nánast fórnað í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar fyrir þessi markmið ríkisstjórnarinnar. Nú síðast, eins og við höfum rifjað rækilega upp í dag, var á miðju sumri lýst yfir framkvæmdastoppi á vegaframkvæmdum víða um land til að mæta stóriðjuþenslunni sem var þó fyrirsjáanleg allan tímann.

Þess vegna er alveg ljóst að við ráðumst ekki í það stórátak sem þörf er á í vega- og samgöngumálum ef stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar heldur fram sem hún hefur gert til þessa.

Þær hugmyndir eru uppi að hér verði reist á allra næstu árum álver með tilheyrandi virkjunum á Húsavík, álver með tilheyrandi stækkun í Straumsvík, álver í Helguvík. Menn tala um enn þá fleiri álver, en þessi þrjú álver eru á framkvæmdaborðinu og ríkisstjórnin hefur sagt að það sé hennar markmið að því verði fylgt eftir.

Við erum hér að tala um hundruð milljarða króna framkvæmdir á stuttum tíma. Við erum að tala um að fjárfestingar varðandi þessi þrjú álver geti numið á milli 400 og 500 milljörðum kr. Það gefur augaleið að það verður ekki pláss fyrir eitthvert stórátak í samgöngumálum ef þessi stefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga. Ekki bara eitt, tvö eða þrjú álver, það er ekkert pláss fyrir þessi álver í framkvæmdum á næstu árum ef við ætlum að ná því stórátaki sem við viljum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að gert verði í vegamálum.

Mér finnst ánægjulegt að heyra að fleiri flokkar eru orðnir sama sinnis. Hér koma orðið einstaka þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa margir áður stutt stóriðjuframkvæmdirnar og lýsa því yfir að þeir styðji nú að minnsta kosti frestun á einhverri þessara framkvæmda til að rýma fyrir vegaframkvæmdum. Mér finnst það vera mjög mikið í áttina.

Þetta er hinn kaldi raunveruleiki fyrir utan hin ofboðslegu umhverfisáhrif. Álver á Bakka við Húsavík krefst ekki aðeins virkjana háhitasvæðanna á Þeistareykjum, heldur einnig virkjana í Skjálfandafljóti og Skagafirði. Það sagði forstöðumaður þess fyrirtækis að hann mundi ekki fara í gang með það fyrr en hann ætti möguleika á að stækka það álver í 400 þús. tonn. Það liggur alveg fyrir. Ef aðrir halda einhverju öðru fram eru þeir að blekkja sjálfa sig og aðra.

Þetta er hinn kaldi raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir og meðan ríkisstjórnin hér með forsætisráðherrann í broddi fylkingar talar fyrir óbreyttri stóriðjustefnu — við þekkjum Framsóknarflokkinn og ætlumst ekki til þess að Framsóknarflokkurinn bakki í stóriðjustefnunni. Hann hefur verið mjög afdráttarlaus í stóriðju- og virkjanastefnu á undanförnum árum og ekki er hægt að búast við að hann slái þar af — en forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins, þar sem stundum er boðað að einhverjir þingmenn innan þess flokks séu ekki jafneldheitir stuðningsmenn stóriðjustefnunnar og áður var, heldur sig samt fast við það, situr við sinn keip og hið sama gera aðrir forustumenn flokksins. Það verður ekki keyrt saman hér stórátak í samgöngumálum og stóriðju- og virkjanastefna ríkisstjórnarinnar. Það sér hvert heilvita mannsbarn. Aðrir væru að blekkja sjálfa sig sem þættust ekki sjá það.

Það er ánægjulegt að fleiri þingflokkar, fleiri þingmenn taki undir þetta að hluta eða öllu leyti, þessar áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vona að það verði vaxandi stuðningur við þessi sjónarmið okkar þannig að heilu þingflokkarnir í öðrum stjórnmálaflokkum geti stutt okkur í þeim efnum.

Ég vil aðeins víkja að einkaframkvæmdunum og því sem við höfum áður verið að tala um vegna þeirra áforma. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar þar sem hann varaði við oftrú á einkaframkvæmdum, það yrði að ætla sem sitt pláss í vegáætlun og það yrði að vera tryggt að hún væri hagkvæmari en önnur framkvæmd og vegirnir ættu að vera í eigu þjóðarinnar. Mér fannst koma fram mjög ágæt áhersla hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni og tek undir hana. Hins vegar er samgönguráðherra mun loðnari í sínum yfirlýsingum þegar hann fjallar hér um málið.

Varðandi Hvalfjarðargöngin voru þau á sínum tíma gerð við allt aðrar aðstæður en nú er. Þá var skortur á fjármagni og erfitt að ná í það. Þá var ekki þensla í samfélaginu í sjálfu sér. Sú leið var þá farin að fara í svokallaða einkaframkvæmd. Engu að síður mynduðu opinberir aðilar félag um þessa framkvæmd og innan einhvers skilgreinds tíma átti hún aftur að renna til þjóðarinnar. Við erum sammála um að þessi lántaka hafi verið afar óheppileg og mjög dýr.

En það á samt ekki að útiloka það að einhvern tímann hljóti að koma að því að ekki sé lengur réttlætanlegt að skattleggja fólk sem fer um Hvalfjarðargöngin. Það ætti ekki að vera lengur heimilt.

Svo sjáum við hér einhvers konar samþykkt um að fulltrúar Spalar og Vegagerðarinnar hafi verið að gera samkomulag um að Spölur taki að sér undirbúning að vegalagningu annars staðar, jafnvel nýjum göngum eða lagningu Sundabrautar, breikkun vega á Kjalarnesi o.s.frv. og það notað sem forsenda fyrir því að lækka ekki veggjaldið í gegnum Hvalfjarðargöngin.

Er nú sanngjarnt að þessi eina leið, önnur leið inn til Reykjavíkur, sé skattlögð? Þó að menn séu að tala um einkaframkvæmdir á veginum milli Reykjavíkur og Selfoss, sem ég er andvígur að eigi að vera í einkaframkvæmd ef ríkið á að leggja þann veg af þeim myndarskap sem það hefur fyllilega efni á og getur, er samt ekki ætlunin að taka sérstaka vegtolla. Ef það verður einkaframkvæmdarfyrirtæki er ætlunin að það fái fjármagn með öðrum hætti. Þess vegna eru engin rök fyrir því að mínu viti að halda áfram gjaldtökunni við Hvalfjarðargöngin. Rökin sem áður voru, að hægt væri að fara hringinn í kringum Hvalfjörð og þess vegna væru menn ekki nauðbeygðir til að fara í gegnum göngin, eru raunverulega ekki lengur til staðar. Þetta er samgönguleiðin.

Ég tel því að þegar tekin er ákvörðun um að vera með óbreytt veggjald hér til 2018 — í frétt frá 18. janúar sl. stendur að eigendur Spalar geri ráð fyrir óbreyttu veggjaldi til. 2018. Er það satt, hæstv. samgönguráðherra? Og hver samþykkir það? — sé það fullkomið sanngirnismál, fullkomin jafnræðiskrafa, að veggjöldin í Hvalfjarðargöngin verði lögð niður og að fólk geti ekið þau eins og aðra þjóðvegi landsins.

Ég held að við ættum að leggja sérstaka áherslu á það við afgreiðslu samgönguáætlunarinnar að tími veggjaldanna í gegnum Hvalfjarðargöngin sé í rauninni liðinn og viðurkenna og staðfesta að þetta er bara hluti af hinu almenna samgöngukerfi landsins og eigi ekki að vera skattlagt umfram annað.

Hér er ýmislegt fleira sem mætti minnast á. Ég hef flutt ítrekað tillögu um sérstakt átak í uppbyggingu á svokölluðum héraðsvegum eða sveitavegum, safn- og tengivegum, vegum sem liggja inn til dala og út til stranda. Þetta eru lífæðar byggða um land allt, þessir vegir. Þeir hafa svo sannarlega ekki fengið fjármagn til jafns við aðra vegi í landinu á undanförnum árum. En þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli fyrir samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu í byggðum landsins. Fólk þarf að aka börnum æ lengri veg til skóla, fólk sækir vinnu til og frá bæjum og heimilum um lengri veg. Ferðaþjónustan, flutningar, allt þetta krefst betri vega. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að þau bréf sem einstakir þingmenn fá frá einstaklingum, heimilum, sveitarfélögum og félögum vítt og breitt um landið lúti ekki hvað síst að þessum vegum.

Þetta er ekki stór þrýstihópur. Þetta er ekki þrýstihópur sem getur fyllt heilt samkomuhús hvort sem er á Suðurnesjum eða annars staðar og beitt samgönguráðherra þannig þrýstingi að hann kikni undan. Nei, þetta eru íbúar dreifðir um allt land. Byggð og búsetu um land allt skiptir máli að þarna sé gert stórátak.

Vissulega er nokkuð bætt í þá vegáætlun sem hérna liggur fyrir. Samt er það allt of lítið miðað við þá gríðarlegu þörf sem hefur safnast upp varðandi þessa sveitavegi. Þó að viðleitni sé í þessari áætlun til að koma til móts við þörfina er hún allt of lítil. Þessi vegaflokkur, safn- og tengivegir, vegirnir inn til dala og út til stranda, hefur svo sannarlega verið sveltur á undanförnum árum. Ég mundi leggja hér til að enn betur yrði tekið á varðandi fjármagn til þessara vega vítt og breitt um sveitir landsins.

Það er fagnaðarefni með jarðgöngin um Óshlíð. Ég minni á að í þeim valkostum sem nú eru uppi var íbúunum ekki þökkuð krafan þegar þeir sögðu: Við viljum fá almennileg jarðgöng en ekki bara einhverja krákustíga inn í hlíðina, eins og ríkisstjórnin vildi. Þeir voru snupraðir fyrir þegar þeir söfnuðu undirskriftum og skoruðu á samgönguyfirvöld að taka á málinu með alvöru. Sú tillaga sem varð ofan á er kannski ekki hvað síst til komin vegna þrýstings íbúanna í Bolungarvík, Ísafirði og Súðavík. Ég spyr um göngin til Súðavíkur. Ég sé þau hvergi hér á áætlun. Það hefði verið eðlilegt að þau hefðu komið inn á áætlun líka þarna. (Forseti hringir.) Svo sannarlega er hægt að gera auknar samgöngubætur með jarðgöngum.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég kemst ekki lengra að sinni.