133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[21:37]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni að það var kannski hæpið á sínum tíma að fara Óshlíðina. En þegar verið var að ræða þetta upp úr 1980 og farið var í Ó-vegina, þ.e. vegirnir um Óshlíð, Ólafsfjarðarmúla og Ólafsvíkurenni, þá stóðu þingmenn Vestfirðinga frammi fyrir því hvort þeir gætu sætt sig við að fá jarðgöng á eftir Ólafsfirðingum sem voru innilokaðir á þeim tíma eða vildu vera á undan og fara Óshlíðina. Þeir tóku Óshlíðina fram yfir göng á þeim tíma. Síðan hefur mjög miklu fjármagni verið varið til að reyna að verja þann veg, eins og hv. þingmaður veit, og hvergi sparað fé. Það er því síður en svo að ekki hafi verið vel staðið að því að tryggja Bolvíkingum leiðina.

Hv. þingmaður fann mjög að því að veggjald skyldi tekið upp í Hvalfjarðargöngum. Það er út af fyrir sig sjónarmið sérstaklega með hliðsjón af því að sú aðferð var tekin upp fyrst af formanni Vinstri grænna, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Þegar ég settist í samgönguráðuneytið 1991 lá fyrir hjá Vegagerðinni nákvæm sundurgreining á því hvernig leggja ætti veggjald á menn sem ferðuðust á höfuðborgarsvæðinu, t.d. frá Seltjarnarnesi til Reykjavíkur. Þetta var auðvitað mjög fróðleg ritgerð en ég held að við höfum báðir gert okkur grein fyrir því, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að þetta væri ekki leiðin til lífsins en þetta voru vangaveltur um það hvernig rétt væri að leggja vegtolla á til þess að reyna að tryggja nægilegt fé til endurbóta á höfuðborgarsvæðinu því þjóðin var í sárum eftir vinstri stjórn.