133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[21:39]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að snúa þessari setningu hv. þingmanns upp á að þjóðin sé í sárum eftir að sitja uppi með þessa hægri stjórn og hve lítið hefur verið gert í vegamálum. Það sem Alþingi samþykkti var svikið á næsta ári eða jafnvel innan árs. Það er því alveg tímabært að losna við svoleiðis ríkisstjórn.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði um veginn um Óshlíð, en tækninni hefur fleygt fram og ég trúi því ekki að þingmaðurinn vilji að Óshlíðin standi eins og hún er nú. Ég vona að þingmaðurinn styðji það að göng séu gerð um Óshlíð því að hættuástandið er svo mikið að það er ekki hægt að verja veginn með fullnægjandi hætti, fjarri því, enda sýna öll slys að það er fyllileg ástæða til að þeim sé flýtt ef eitthvað er því þörfin er svo brýn.

Varðandi veggjaldið sem hv. þingmaður minntist á í Hvalfjarðargöngunum þá voru þau sjálfsagt réttlætanleg á sínum tíma. En það er engin ástæða til þess nú að ætla að fara að innheimta veggjald fyrir einhverjar aðrar framkvæmdir bara sisvona. Eða finnst hv. þingmanni allt í lagi að fara að innheimta veggjald í Hvalfjarðargöngum til þess að fjármagna Sundabraut eða veg um Kjalarnes eða einhver önnur göng? Nei, það er allt annað mál. Ég trúi því ekki að þingmaðurinn vilji fara að blanda þessu saman eða á þá að fara að innheimta veggjöld í Hvalfjarðargöngum til að standa undir Vaðlaheiðargöngum? Þetta er allt önnur framkvæmd sem á að fara að innheimta veggjald fyrir. Við skulum því athuga bæði sanngirnis- og jafnræðisreglu hvað þetta varðar þó að það hafi verið rök fyrir gjaldtökunni á sínum tíma.