133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[21:41]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ástæðulaust að væna mig um það að ég hafi ekki viljað tryggja öryggi vegfarenda í Óshlíð. Ég brást mjög skjótt við þegar ábendingar voru gefnar um það að það þyrfti vegskála á Óshlíð og gat útvegað fé til þess fram hjá vegáætlun á sínum tíma. Það er því ekki hægt að brigsla mér um það að ég hafi ekki horft til þess.

Á hinn bóginn hef ég líka haft áhyggjur af því að ekki skuli komnar snjóflóðavarnir á Múlaveg hjá Sauðanesi, eins og hv. þingmaður veit og ég hef tekið upp á þinginu. Það er nú svo um jarðgöng og óskir manna, að þegar ég var samgönguráðherra 1991 lá fyrir vilji Vestfirðinga. Þeir voru reiðubúnir til að borga hærra bensínverð en aðrir á landinu ef þeir fengju jarðgöngin. Aldrei minntu þeir mig samt á það á minni tíð að þeir væru reiðubúnir til þess að fá sérstakan toll á bensínið, skatt á bensínið, enda held ég að hugur hafi ekki endilega fylgt máli. Hitt var lærdómsríkt, að á þeim tíma samþykkti þingflokkur Alþýðuflokks að jarðgöngin skyldu ekki ná til Súgandafjarðar, eins og þið munið. Það mál var tekið upp á ríkisstjórnarfundi í maímánuði 1991 og með úrskurði þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, var ákveðið að göngin skyldu einnig liggja til Súgandafjarðar eins og ráðgert hafði verið.