133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[21:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt hjá hv. þingmanni að rifja upp gangagerðina á Vestfjörðum, til Súgandafjarðar, Flateyrar og Þingeyrar og gott að rifja líka upp hvaða samgönguráðherra það var sem einmitt tók svo rækilega af skarið á sínum tíma þegar jarðgöngin voru gerð og batt saman hnútana þannig að ekki yrði aftur snúið. Það var þáverandi samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon.

Síðan hefur komið fullkomið gap, margra ára gap í jarðgangagerð á landinu. Hvalfjarðargöngin komu jú en þau voru með allt öðrum hætti. Þeirri jarðgangaáætlun sem þá var ætlað að fara í var skotið rækilega undir stól enda tala Vestfirðingar gjarnan um að helst mundi ganga í samgöngumálum Vestfirðinga ef þeir fengju Steingrím J. Sigfússon aftur sem samgönguráðherra. Það er ekki … (KLM: Hann studdi einkaframkvæmd, hann var upphafsmaðurinn.) Vegna frammíkalls hv. þm. Kristjáns L. Möllers um einkaframkvæmd þá voru Hvalfjarðargöngin alveg sérstök framkvæmd. Opinberir aðilar stofnuðu félag um Hvalfjarðargöngin. (Gripið fram í: … að þau enduðu í Noregi ef þið hefðuð verið með leyfi.) Hins vegar má vel vera að gömlum alþýðuflokksmönnum svíði eitthvað það sem hv. þm. Halldór Blöndal var að segja, að þingflokkur Alþýðuflokksins hafi lagst gegn því að vegurinn yrði lagður til Suðureyrar. Ég man það ekki og trúi því varla að nokkur Alþýðuflokkur hafi verið svo slæmur eða vitlaus. Það vita aðrir betur en ég. En það þarf að gera átak í samgöngumálunum, stórátak, og það verður ekki gert nema menn séu tilbúnir til að leggja töluvert á sig en geri ekki eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert, að leggjast undir og það fyrsta sem skorið er niður eru vegaframkvæmdir ef einhverju á að (Forseti hringir.) hlífa.