133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[22:04]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég man ekki hvað tekur langan tíma að fara í gegnum fjallið. Má vera að það sé rétt sem hv. þingmaður segir. Ég yrði vissulega allra manna glaðastur ef tækist að flýta göngunum þó ekki væri nema um hálft ár, þó væri ekki nema um mánuð. Vel má hafa í huga að reyna að finna til þess leiðir. En ég get ekki verið svo falskur að reyna að slá mig til riddara og segja að ég sé ekki þakklátur fyrir að göngin skuli þó komin inn á fjögurra ára áætlun. Við vitum að fólk þarna bíður í ofvæni og við vitum raunar líka að þegar við samþykktum það í ríkisstjórninni á sínum tíma að álver skyldi rísa við Reyðarfjörð var sú hugsun á bak við það að um eitt atvinnusvæði væri að ræða og íbúarnir treystu því. Þess vegna væru það svik við íbúana ef ekki yrði farið í þessi göng nú á eftir Siglufjarðargöngum og Bolungarvíkurgöngum. Ég man ekki til þess að nokkur maður héldi því fram á þeim tíma að Norðfjörður ætti að vera úti í horni. Þegar verið var að kynna erlendum fyrirtækjum vinnumarkaðinn og infrastrúktúrinn á þessu svæði var alltaf inni í myndinni að jarðgöng kæmu til Norðfjarðar. Við erum því ekki að gera neitt annað en að efna heit okkar við íbúana, við erum að styrkja byggðina og við erum að opna leiðina til sjúkrahússins. Eitrunin sem kom upp í sundlaugunum nú í vetur sýndi okkur að brýn þörf er á því.