133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[22:06]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að við ræðum tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun frá 2007–2018 blandast inn í þá umræðu fjögurra ára áætlun sem við ætlum að ræða hér á eftir. Ég hef því ákveðið að tjá mig aðeins meira í þessari umferð sem styttir þá ræðutíma minn seinna í kvöld þegar við ræðum fjögurra ára áætlunina.

Mig langar aðeins að koma inn á nokkur atriði sem ég kom ekki að í fyrri ræðu minni. Ég gerði þar að umtalsefni tekjur og tekjustofna Vegagerðarinnar og fjallaði m.a. um að tekjur af ökutækjum sem hlutfall af landsframleiðslu hefðu aukist úr 3,7% árið 1995 í 4,8% árið 2005 samkvæmt bráðabirgðatölum en útgjöld til vegamála dregist saman frá 1970–1995. Þó að þau útgjöld hafi hækkað eitthvað meira hin síðari ár fer allt of lítið fé til vegamála miðað við þá miklu þörf sem er til staðar.

Það þarf að laga þá vegi sem byggðir voru fyrst. Hér hefur komið fram að þegar hv. þm. Jón Kristjánsson hóf þingferil var einn kílómetri lagður varanlegu slitlagi í kjördæmi hans, það var í gegnum Fellabæ. Það er töluvert meira núna. En við vitum líka að þeir vegir sem voru byggðir upp fyrst og sett á varanlegt slitlag voru e.t.v. byggðir af vanefnum, þeir eru mjóir og burður ekki nægur. Okkur vantar miklu meira fé inn í þessa miklu áætlun vegna þess að þörfin er svo mikil. Bílaumferð hefur aukist um 250% utan þéttbýlis á 20 árum eins og hér hefur komið fram. Bílaeign landsmanna hefur aukist um 100 þúsund o.s.frv.

Eitt í viðbót vildi ég nefna hvað varðar tekjuhlið vegáætlunarinnar. Hún er eins og hún var í byrjun með bensíngjaldi og þungaskatti og þeim öðrum gjöldum sem renna til vegáætlunar. Það er eins. En það sem hefur gerst er að nokkrir nýir gjaldaliðir hafa komið inn á vegáætlun sem taka þá fé frá hinni eiginlegu vegagerð. Það kemur sennilega aðallega niður á nýbyggingu vega, þjónustu og viðhaldi vegna þess að ég hygg að yfirstjórnin sé svipuð og var. Hvað á ég við, virðulegi forseti? Jú, nærtækasta dæmið er að taka ferjur. Ferjur voru settar yfir á verk- og valdsvið Vegagerðarinnar fyrir nokkrum árum og það er m.a. þannig að — ef ég finn þetta í þessum gögnum hjá mér — framlag í ferjurnar eru miklar og háar tölur og kann nú að vera verra þegar maður ruglar saman þessum bókum öllum sem við erum að fjalla um en ég held að ég eigi að vera tiltölulega fljótur að finna vegáætlunina til að nefna tölu í þessu sambandi. Hér kemur það yfirstrikað með gulu í þessari bók.

Árið 2007 fara 747 millj. kr. í ferjur og flóabáta. Þar af eru afborganir af ferjulánum til ríkissjóðs 274 millj. kr. Þetta kemur inn á vegáætlun og er kostnaður hjá Vegagerðinni en tekjur hafa ekki komið að sama skapi. Sama má segja um styrkhæft áætlunarflug sem boðið er út til nokkurra staða á landinu. Í það fara árið 2007 245 millj. kr. sem líka dregur niður það fé sem hægt er að hafa til vegagerðar. Síðasti þátturinn, ekki er langt síðan hann kom inn, er útboð á sérleyfi á landi og styrkir til þeirra almenningssamgangna um 190 millj. kr.

Virðulegi forseti. Þarna fara um 1.200–1.300 millj. kr. á ári án þess að Vegagerðin hafi fengið tekjur á móti. Að sama skapi hefur dregið úr framkvæmdafé Vegagerðarinnar sem því nemur frá því að þetta fór að fara á vegáætlun. Það nýjasta, sem sjálfsagt er að taka inn, eins og reiðvegi og reiðhjólavegi og göngustíga, dregur líka úr því fé en er engu að síður þarft verk.

Ég hef áður, virðulegi forseti, talað um olíugjaldið sem tók við af þungaskattinum. Það skeikaði 50 millj. lítra á milli þess sem fjármálaráðuneytið notaði til að búa til töluna á olíugjaldið og þess sem raunverulegt er. Það eru um 2 milljarðar kr. til ríkissjóðs og virðisaukaskattur af því er í kringum 410 millj. kr. og virðisaukaskattur á olíugjaldi er sennilega í kringum milljarður á ári sem rennur ekki til Vegagerðar heldur inn í ríkissjóð. Þetta vildi ég nefna vegna þess að það kemur fram í máli allra þingmanna og ráðherra, sem um málið hafa rætt, að sannarlega vantar meira fé til áætlunarinnar sérstaklega í vegamálum.

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að gera tengivegi að umtalsefni. Árið 2007 er áætlað að verja í þá 640 millj. kr. sem er auðvitað allt of lítið miðað við það mikla og langa vegakerfi sem við búum við. Það er dálítið sérstakt hvað tengivegir hafa setið á hakanum, enda sjáum við þegar við förum um þá að ástand þeirra er ekki mjög beysið. Í umræddu svari hæstv. samgönguráðherra við ítarlegri fyrirspurn minni um vegamál — svo ég taki dæmi úr mínu kjördæmi þar sem ég þekki best til. Í Fljótsdalshéraði eru tengivegir 267 km eða 6,68% af öllum tengivegum landsins. Þingeyjarsveit er með 144 km og svona má lengi telja, Eyjafjarðarsveit o.fl. Ástand þessara vega er mjög slæmt. Sú upphæð sem fer í tengivegi hefur um langt skeið verið allt of lág og er það enn fyrir árið 2007. Ég ætla að taka ómakið af hæstv. samgönguráðherra og benda á að árið 2008 hækkar þessi upphæð um 400–500 millj. kr. og hækkar svo aftur árið þar á eftir. Vonandi gengur það eftir, ekki veitir af. Svipaða sögu má segja af safnvegunum. Í þann lið eru einungis settar 350 millj. kr. sem er allt of lítið vegna áratugavanrækslu Alþingis og ríkisstjórnar hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Mikið er rætt um jarðgöng. Það er mjög athyglisvert sem verið er að ræða austur á fjörðum. Áhugamenn eru að ræða um það hvort hægt sé að heilbora göng og eru með hugmyndir um að gera það á annan og ódýrari hátt en gert hefur verið. Ég sagði fyrr í dag að það hefði valdið vonbrigðum hve frávikstilboðið sem kom í Héðinsfjarðargöng með heilborun var hátt. Manni fannst að sá möguleiki að heilbora göng á Íslandi væri eiginlega farinn fyrir bý með því útboði. En áhugasamir menn og miklir ofurhugar eru að skoða þessa þætti og mér finnst að gefa eigi því fullan gaum og skoða það mjög vel með þeim, gefa þeim færi á því að skoða þetta vel og sjá hvort við getum við næstu útboð fengið betri tilboð. Ég tel a.m.k. fulla ástæðu til að kanna betur hvort þessi framkvæmdamöguleiki er raunhæfur eða hvort hann er fjarlægur og ekki ódýrari en hefðbundin leið. Okkur liggur sannarlega á að fá betri tilboð í jarðgangagerð og lækka kostnað við þau.

Virðulegi forseti. Rétt í lokin. Strandsiglingar og flutningar á vegum. Sá sem hér stendur hefur margoft talað fyrir því á hinu háa Alþingi og flutt um það þingmál að nauðsynlegt sé að taka upp strandsiglingar á ný með eða án stuðnings ríkisins. Hæstv. samgönguráðherra hefur sagt í svari til mín að erfitt sé að gera það út frá samkeppnissjónarmiðum. Ég held að hægt sé að finna leið til þess ef áhugi er á. Það var því mikið ánægjuefni þegar Atlantsskip fór að auglýsa að þeir ætluðu að fara að sigla ströndina. Það voru jafnmikil vonbrigði þegar mátti lesa um það ekki alls fyrir löngu að óvíst væri hvort af því yrði vegna þess að ekki gengi vel að ná samningum við fyrirtæki um að taka flutninga að sér. Nú veit ég ekki hvort það er vegna þess að stóru flutningafyrirtækin taka mest að sér að flytja út eða vegna samninga við fyrirtækin, ég veit það ekki. Þetta þarf a.m.k. að skoða. Það gengur ekki að það standi til að flytja stálbita til hafnargerðar landleiðina frá Reykjavík til Akureyrar eins og hugmyndir voru um. Ágætur hafnarstjóri á Akureyri hefur barist fyrir því að siglt verði með það stál en hugmyndin var sú að keyra það norður. Við sjáum hvers konar vitleysu við erum komin út í ef við ætlum að fara að keyra efni landleiðina norður í land til að búa til höfn.

Virðulegi forseti. Rétt í lokin um þessa áætlun. Ég las á mbl.is í dag grein um viðtal við samgönguráðherra. Hann segir þar að það sé komið að öðrum að hægja á. Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Sturla segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að tímabært sé orðið að settir verði miklir fjármunir í samgöngumálin og að önnur verkefni verði að bíða. ,,Núna tel ég að komið sé að því að uppbygging samgöngumannvirkjanna fái aukið rými og að hægja verði á öðrum framkvæmdum ef þörf krefur í efnahagslífinu,“ segir Sturla og bætir við að ef á þurfi að halda verði aðrir að bíða með framkvæmdir í þágu stöðugleikans.“

Sturla segir að tímabært sé orðið að settir verði miklir fjármunir í samgöngumál og önnur verkefni verði að bíða. Þessu er ég algerlega sammála. Þetta sagði formaður Samfylkingarinnar á fjölmörgum fundum á landsbyggðinni í janúar og boðar þar stórátak í samgöngumálum.

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður að ef ég ætti tvo kosti mundi ég frekar velja þann kost að fara í stórátak í samgöngumálum en halda áfram með stóriðjuuppbyggingu næstu þrjú til fjögur ár með þreföldun í Straumsvík eða álveri suður í Helguvík. Ég held við ættum að doka við eftir hið stóra og mikla átak fyrir austan, fara í stórátak í samgöngum ásamt ýmsum öðrum opinberum framkvæmdum. Ég nefni Landspítalann og tónlistarhúsið sem hér er verið að byggja ásamt ýmsum öðrum framkvæmdum sveitarfélaganna, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Það er betra, og þjóðin á það skilið, að fara í stórátak í samgöngumálum í staðinn fyrir stóriðju.

Virðulegi forseti. Ég er með þessu að taka undir þau orð samgönguráðherra, mér fannst hann hins vegar vera á annarri skoðun í dag, að ekki verði farið í hvort tveggja í senn, álversframkvæmdir fyrir sunnan upp á 300–400 milljarða og stórátak í samgöngumálum. Ef við náum báðir kjöri, ég og hæstv. samgönguráðherra, og verðum á næsta þingi hygg ég að oft eigi eftir að ræða um niðurskurð í vegamálum í nafni þess að draga úr þenslu eins og gert var í sumar og hefur oft verið gert áður.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki meira um þessa áætlun að segja í bili. Um margt erum við sammála en um ýmislegt ósammála. Það er eins og gengur og gerist með forgangsröðunina. Þær deilur skapast af því hve mikið bíður okkar, framkvæmdaþörfin er mikil. Það er svo margt sem ekki hefur verið gert á undanförnum árum. Allt of litlu fé hefur verið veitt til vegamála miðað við þarfir landsmanna.